Seðlabanki Íslands

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 14:49:28 (6369)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er vissulega rétt að það skiptir ákaflega miklu máli hvaða maður velst til þess að gegna starfi seðlabankastjóra. Það er mikilvægt að hann njóti trausts og hafi heilindi til að bera. Ég held að það sé hins vegar afar óheppilegt að Alþingi sé vettvangur fyrir umræður um mannanöfn í þessu sambandi. Hér erum við að tala um heildarskipulag málsins, formgerð bankans og ný stjórntæki til þess að tryggja betur starfandi fjármagnsmarkað við skilyrði lágrar verðbólgu, helst engrar. Það er rétt hjá hv. 8. þm. Reykn. að við þurfum að leita fangs á því hvernig við náum vöxtunum niður við skilyrði stöðugs verðlags. Það er verkefnið. Ég held að það sé ekki heppilegt að stofna hérna til einhvers konar nafnaskrár í þessum umræðum því að kjarni málsins er að sjálfsögðu að koma upp fyrirkomulagi sem þingið er vel sátt við og víðtæk samstaða getur náðst um.
    Ég vil vegna orða hv. þm. í ræðu hans hér áður fullvissa hann um að á bak við þetta frv. hefur alls enginn pólitískur draugagangur verið að neinu leyti. Í öllum meginatriðum er frv. reyndar eins og það kom frá þeirri nefnd sem allir þingflokkar áttu fulltrúa í og um náðist mjög gott samkomulag. Það tel ég mikilvægt. Einmitt þess vegna kaus ég að breyta þar ekki neinu sem meginmáli skiptir. Hitt er að sjálfsögðu rétt að þingið hefur allar forsendur til þess að ræða þetta mál á vettvangi efh.- og viðskn. Ég veit fyrir víst að það verður gert.