Bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi

138. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 15:19:04 (6373)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að ekki sé sagt neinum ofsögum af því að í Vestmannaeyjum hefur skapast mjög erfitt ástand vegna þess verkfalls á Herjólfi sem frv. þetta fjallar um. Viðræður hafa staðið yfir um langt skeið til að leysa þetta mál en þær hafa ekki skilað árangri. Satt best að segja gerðu menn sér um skeið von um að menn næðu saman í þessu máli og umræðugrundvöllur væri að skapast sem mundi leiða til lausnar en ég held að það verði að koma hér fram að það er álit þeirra sem gerst þekkja að um leið og kröfur komu fram um að deila þessi yrði leyst með lögum þá urðu þær vonir að engu. Það er almennt mjög óheppilegt að ríkisvaldið hafi afskipti af kjaramálum með lagasetningu og það verður ekki réttlætt nema alveg sérstaklega standi á og mjög fáir eigi í hlut og aðstæður séu mjög óvenjulegar.
    Við alþýðubandalagsmenn getum vel fallist á að þessi rök geti átt við í þessu sérstaka tilviki og teljum að úr því sem komið er sé þetta mál bersýnilega komið í slíkan hnút að það sé ekki útlit fyrir að neyð Vestmannaeyinga verði leyst öðruvísi en hlutast sé til um af hálfu ríkisvaldsins að henni sé aflétt. Hins vegar þykir okkur það verulegur ágalli á því frv. sem hér hefur verið lagt fram að það beinist ekki eingöngu að þeim aðilanum sem gert hefur verkfall og stöðvað rekstur skipsins heldur nær það til allrar áhafnarinnar á skipinu.
    Það liggur fyrir að undirmenn hafa lýst því yfir að þeir séu ekki með kröfur um launahækkun. Þeir hafa einnig lýst því yfir að þeir séu reiðubúnir að vinna að heildarlausn að þessu máli á komandi mánuðum. Það er því óneitanlega dálítið sérkennilegt að Alþingi eigi að ákveða að grípa inn í kjaramál þeirra með lagasetningu, með ákvörðun um að gerðardómur skuli ákvarða kaup þeirra og kjör, geti bæði hækkað og lækkað kaup þeirra eftir atvikum, og bundið þá síðan við þá niðurstöðu til ársloka. Reyndar var í frumvarpsdrögunum, sem við þingmenn Alþb. fengum í morgun, gert ráð fyrir því að lögin giltu til ársloka nema nýir samningar hefðu áður verið gerðir milli aðila. En í frv. sem var svo aftur dreift á borð hv. þm. fyrir nokkrum mínútum kemur í ljós að þessi setning hefur verið felld niður og ekki er lengur um það að ræða að ákvarðanir gerðardóms falli niður þótt gerðir séu nýir samningar milli aðila. Þessi breyting er ekki til hins betra og kemur mér dálítið á óvart að okkur í stjórnarandstöðunni skuli ekki hafa verið kynnt málið með réttum hætti eða það skuli hafa tekið breytingum frá því í morgun án þess að okkur væri frá því skýrt.
    Ég sé líka að önnur breyting hefur verið gerð á frv. Nú er það ekki aðeins ætlunin að gerðardómur fjalli um kaup og kjör allra skipverja á ms. Herjólfi heldur hefur orðinu ,,vinnutilhögun`` verið skotið inn í á tveimur stöðum í frv., þ.e. í 2. og 3. gr. Gerðardómurinn á nú auk þess að ákveða kaup og kjör að ákveða vinnutilhögun. Ég veit ekki hvort þetta er beinlínis til bóta og þetta var ekki í frv. sem við fengum afhent í morgun.
    Það er skemmst frá að segja um afstöðu okkar til þessa máls að við teljum nægilegt og fullnægjandi til lausnar á þessu máli að verkfall stýrimanna sé gert óheimilt og bannað með lögum og þar með auðvitað þau verkbönn sem líka liggja fyrir og að ekki eigi að hlutast til um kjaramál þess fólks sem alls ekki er í verkfalli og á ekki sök á þessari deilu. Þess vegna er það áform þingflokks Alþb. að flytja brtt. við frv. þessa efnis og mun hún væntanlega koma fram innan þeirrar nefndar sem frv. fær til meðferðar.
    Ég vil að lokum láta þess getið að í grg. frv. er vísað til samþykktar bæjarstjórnar Vestmannaeyja og þar sagt að sú samþykkt hafi verið gerð samhljóða á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja hinn 16. mars sl. Það mun út af fyrir sig rétt vera en hins vegar hefði verið eðlilegra að gera grein fyrir því að fulltrúi Alþb. í bæjarstjórn Vestmannaeyja hafði samt fyrirvara þegar hann fjallaði um þessa samþykkt og afstaða hans var mjög í sama anda og ég er hér að lýsa að er meginsjónarmið okkar í þingflokki Alþb. Hann taldi að aðgerðir ríkisvaldsins ættu fyrst og fremst að beinast að verkfalli stýrimanna en ekki að kjarasamningum allra áhafnarmeðlima.