Bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi

139. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 16:38:44 (6376)

     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Samgn. hefur athugað frv. til laga um bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi, sem flutt er til að leysa kjaradeilu sem tengist þessu skipi, og staðið hefur í nærfellt sjö vikur.
    Nefndin varð eigi sammála um afgreiðslu málsins og leggur meiri hluti nefndarinnar til að frv. verði samþykkt með lítils háttar breytingum, en meiri hlutann skipa fulltrúar stjórnarflokkanna og fulltrúar Framsfl. í nefndinni. Annar fulltrúi Framsfl., Stefán Guðmundsson, ritar þó undir nál. með fyrirvara. Aðrir nefndarmenn skila sérálitum, þeir fulltrúar Alþb., hv. 3. þm. Vesturl. og fulltrúi Kvennalistans, hv. 6. þm. Vestf.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að gerðar verði þær breytingar á frv. að í 2. gr. falli niður orðið ,,vinnutilhögun`` undir lok 1. mgr. á eftir orðunum ,,skuli ákveða`` og sömuleiðis falli niður orðið ,,vinnutilhögun`` í fyrri mgr. 3. gr. Þær röksemdir eru fyrir þessum breytingum að meiri hluta nefndarinnar þótti ekki eðlilegt að gerðardómur, sem kann að verða skipaður samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður, hefði í sínum verkahring að ákveða vinnutilhögun um borð í Herjólfi heldur að leysa mál aðila, stjórnar Herjólfs og skipverja og þeirra stéttarfélaga sem hlut eiga að máli. Því er brtt. hér flutt.
    Tekið skal fram vegna athugasemda sem komu fram við 1. umr. að skv. 2. gr. frv. verður enginn gerðardómur skipaður og lögin koma því ekki til framkvæmda hafi samningar náðst um launakjör fyrir 1. júní nk. en lögin gilda að því leyti þangað til samningar nást að verkfall og verkbann verður óheimilt og því upp hafið.
    Virðulegi forseti. Ég legg til fyrir hönd meiri hluta hv. samgn. að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef kynnt og koma fram á þskj. 780.