Bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi

139. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 16:48:26 (6378)

     Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá 2. minni hluta samgn. um frv. til laga um bann gegn verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi.
    2. minni hluti nefndarinnar getur ekki fallist á að gripið sé til lagasetningar til að binda enda á verkfall stýrimanna á ms. Herjólfi. Kvennalistinn hefur ávallt andmælt því harðlega að ríkisvaldið grípi inn í vinnudeilur og kjarasamninga, enda hafa íslensk stjórnvöld margsinnis fengið áminningu frá Alþjóðavinnumálastofnuninni vegna slíkra aðgerða og ríkið orðið að greiða háar upphæðir vegna dóma sem á það hafa fallið.
    Íslendingar verða að temja sér aðrar reglur við lausn vinnudeilna en lagasetningar og leita leiða sem ásættanlegar eru fyrir alla aðila.
    Þá er þess að geta að með þessu frumvarpi er gripið inn í kjarasamninga stéttarfélaga sem ekki eiga í vinnudeilum með því að setja þau undir gerðardóm en slíkt er ólíðandi.
    Það þarf að leysa þann mikla vanda sem steðjar að Vestmannaeyingum en hér er ekki farin rétt leið til þess.
    Ég tel að mikið fljótræði hafi einkennt þessa lagasetningu og lítill tími unnist til þess fara ofan í málið, hvort hér er í raun og veru um lagasetningu að ræða, sem stenst lög og stjórnarskrá, og það hefði e.t.v. mátt hafa ofurlítið meiri tíma til þess að skoða þetta. Þar sem þær brtt., sem eru komnar fram, eru heldur til bóta munum við kvennalistakonur sitja hjá við afgreiðslu þeirra, en greiða atkvæði gegn frv. í heild.