Bann við verkfalli og verkbanni á ms. Herjólfi

139. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 16:50:37 (6379)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það frv. sem hér er lagt fram og á að fara að koma til atkvæða er að því leyti sérstætt að það er að efni til tvíþætt. Annars vegar er tekin ákvörðun um það að breyta lögum til þess að stöðva yfirstandandi verkfall. Ég hygg að flestir þingmenn eða allir séu þeirrar skoðunar að það verkfall sé búið að standa það lengi að það sé eðlilegur hlutur að beita lögum til að stöðva það þó ekki væri til annars en kæla blóðið í samningsaðilum og kanna hvort þeir verði ekki færir um það síðar að ná saman í stað þess að standa í slíkum illindum.
    Það er og sérstætt við það verkfall að samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er mönnum fyrst og fremst ætlað að berjast fyrir kjörum sínum en ekki fyrir því atriði sem mjög svo oft hefur heyrst í þessari umræðu, þ.e. að aðrir hafi það of gott miðað við þá. Ég held þess vegna að samúð manna með verkfallinu sem er sé ekki til staðar.

    Hitt atriðið að taka ákvörðun um það að setja nú lög á ákveðinn hóp sem á í kjarasamningum, þegar mjög stór hluti þjóðarinnar á í kjarasamningum eins og menn vita, þá hlýtur sú spurning að vakna hvort jafnræðis meðal þegnanna sé gætt við þessa lagasetningu. Hefur brytinn eitthvað sérstaklega brotið af sér svo að það þurfi fyrir fram að taka hann út úr hópnum, þeim sem er í samningaviðræðum þessa dagana og sjá til þess að yfir honum hvíli refsivöndur laganna til þess að tyfta hann til ef hann skyldi nú ekki ætla að verða eins og maður. Ég hef ekki frétt af slíku. Ég hef heldur ekki frétt af því að aðrir sem eru á skipinu hafi verið með slíkan hávaða að það þurfi frekar að setja lög á þá heldur en þann stóra hóp sem í dag hefur lausa samninga og leitar eftir því að ná frjálsum samningum.
    Það er þess vegna mjög mikil spurning hvort sú jafnræðisregla, sem viðurkennd er af lögum, er ekki brotin með því sem hér er lagt til. Ég tel að það hefði ekki staðið á því hjá Alþingi Íslendinga ef önnur stéttarfélög hefðu ætlað að grípa til svipaðra vinnubragða og stýrimenn hafa gert í þessu dæmi, þá hefðu menn verið tilbúnir að setja lög. Það hefði vissulega kallað á nýja lagasetningu. En hins vegar er því ekki að leyna að þessi uppsetning sem hér er sett fram er mjög fordæmisskapandi. Hæstv. forsrh. getur nánast notað hana sem forskrift í samningunum við ASÍ. Hvers vegna skyldu einhver önnur lög eiga að gilda gagnvart þeim sem þar eru heldur en þeim Vestmannaeyingum sem hér er verið að ræða um? Ég hallast þess vegna að því að þó mér sé ljóst að hæstv. ráðherra hafi verið í miklum vanda og viljað leysa málið heildstætt, þá hefði verið betra að taka aðeins á þeim vanda sem var til staðar en láta hitt svo þróast með eðlilegum hætti eins og aðra kjarasamninga í landinu. Þetta er þeim mun meira umhugsunarefni fyrir ríkisstjórnina að það hlýtur að vera nauðsyn á hverjum tíma að launþegar séu ábyrgir. Ríkisstjórnin getur ekki kvartað undan því í þeim atkvæðagreiðslum sem farið hafa fram í stéttarfélögum að undnförnu, sé horft á þetta land sem heild, að stéttarfélögin hafi ekki horft á stöðu mála. Það er sko aldeilis ekki hægt að kvarta yfir því. Þess vegna er þetta enn þá undarlegra og ekki veit ég hvort það eru upplýsingar frá hv. 3. þm. Suðurl. að það sé svona voðalegt fólk á þessu skipi að þess vegna þurfi að grípa til slíkra lausna sem hér er verið að leggja til. Ég á ekki von á því. Ég skildi hans ummæli hér í þessum ræðustól þegar hann hvatti til lagasetningar á sínum tíma að hann ætti við þau öfl sem væru í verkfalli, aðra ekki.