Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 18:29:47 (6392)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í ræðu hv. 6. þm. Suðurl. ræddi hann mest um óframkomið, óbirt frv. um annað mál en það sem hér er á dagskrá. Ég vil nefna það vegna þess sem hreyft var af hv. 6. þm. Suðurl. að því fer víðs fjarri að ég hafi undirbúið, hvað þá flutt eða sýnt, tillögur um það að nafnleynd í bankaviðskiptum skyldi tryggð. Miklu fremur mætti segja að hið gagnstæða hefði verið á minni dagskrá.

    Um verðtryggingarmálið langar mig vegna ítrekaðra ábendinga hv. 6. þm. Suðurl. um skaðsemi verðtryggingar fjárskuldbindinga að benda á að það hlýtur að verða okkur til umhugsunar að þau þrjú ár sem verðbólga á Íslandi hefur verið minnst á lýðveldistímanum hefur þetta kerfi verið við lýði. Það bendir okkur auðvitað á að það er einhver önnur rót vandans en vísitalan sem hv. þm. agnúast jafnan út í. En ég vil þó engu að síður taka fram að ég tel heppilegt að verðtryggingar fjárskuldbindinga víki þegar stöðugleiki í verðlagsmálum er kominn í ljós og þá hygg ég að það muni geta gerst nokkurn veginn af sjálfu sér vegna þess að það er verðbólgan sem er aðalviðfangsefnið sem betri tök hafa náðst á á síðustu árum en áður og þar með skiptir minna máli hvernig þessum verðtryggingarmálum er komið fyrir.