Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 18:34:43 (6395)

     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Kannski er fyrst að fara nokkrum orðum um þá lagasetningaráráttu sem ríkir hér á Alþingi. Við erum sífellt að breyta lögum eða setja ný lög. Ég hygg að við hljótum að eiga heimsmet í lagasetningu því hér eru afgreidd lög í tugavís á hverju einasta þingi. Ég tala nú ekki um á þessu þingi þar sem við þurfum að stimpla 80 lög frá Evrópubandalaginu.
    Við setjum á einum vetri talsvert fleiri lög en t.d. Bandaríkjaþing gerði í allri stjórnartíð George Bush forseta. Ég er ekki viss um að það hafi háð Bandaríkjamönnum verulega þó þeir hafi ekki sett fleiri lög en þeir gerðu í stjórnartíð Bush forseta.
    Nú veit ég það að hæstv. viðskrh. er ágætlega ættaður en ég sé það ekki á þessu frv. að hann muni vera kominn út af Magnúsi konungi lagabæti því mér finnst þetta frv. vera lakara en gildandi lög um Seðlabanka Íslands í sumum greinum og veigamiklum atriðum.
    Mér finnst gildandi lög um Seðlabanka Íslands vera skynsamleg. Þannig er háttað í stjórnarfari okkar að ríkisstjórn fer með framkvæmdarvaldið í umboði Alþingis. Að sjálfsögðu á Seðlabanki Íslands að vera mikilsverð stofnun en hann á að mínum dómi ekki að vera ríki í ríkinu (Gripið fram í.) eða miðbanki ef tillaga hv. 6. þm. Suðurl. verður að veruleika sem ég gæti út af fyrir sig alveg athugað að styðja.
    4. gr. gildandi seðlabankalaga hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstjórnina að ræða er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því að sú stefna, sem ríkisstjórnin markar að lokum, nái tilgangi sínum.`` --- Ég endurtek, herra forseti: --- ,,Hún skal engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því að sú stefna, sem ríkisstjórnin markar að lokum, nái tilgangi sínum.``
    Nú er ég ekki að segja að ríkisstjórnir á Íslandi hafi verið alvitrar en þær hafa komist formlega til valda og þeim hefur verið falið að stjórna landinu og þeim ber að stjórna landinu. Ekki má eyðileggja möguleika ríkisstjórna á hverjum tíma til þess að stjórna í landinu. Það er alveg nóg að við séum búnir að afsala hluta af framkvæmdarvaldinu með því að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði þó að ekki sé verið að koma hér upp ríki í ríkinu eins og gert er með þessu frv. til seðlabankalaga.
    Í 35. gr. er fjallað um þetta efni sem falið er í 4. gr. seðlabankalaganna og þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Seðlabankanum er skylt að hafa samráð við ríkisstjórn um mótun og framkvæmd stefnu í peningamálum, gengis- og gjaldeyrismálum og vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt er varðar þau mál.

    Seðlabankinn skal stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum svo fremi sem hann telur það ekki ganga gegn markmiðum sínum skv. 3. gr.``
    Þetta finnst mér vont orðalag og afleit breyting á seðlabankalögunum. Ég er ekki að segja að Seðlabankinn á hverjum tíma hafi starfað þannig að hann sé hafinn yfir gagnrýni en ríkisstjórnin hefur alltaf með 4. gr. haft tök á því að ráða ef hún hefur verið samtaka og einbeitt. Því miður hefur það ekki alltaf gerst. Seðlabanki verður að vera í takt við ríkisstjórn á hverjum tíma. Það finnst mér vera grundvallaratriði því að annars kemur upp algjört stjórnleysi.
    Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að seðlabanki eða miðbanki hverrar þjóðar lúti pólitísku valdi. Seðlabankinn er eitt meginstjórntæki ríkisstjórnarinnar og á að vera. Ég tel það eðlilega skipan að þingmenn sitji í bankaráði seðlabanka (Gripið fram í.) eða menn sem starfað hafa í stjórnmálum --- ég gæti meira að segja hugsað mér að hv. frammíkallandi, hv. 17. þm. Reykv., sómi sér vel í bankaráði. ( ÖS: Nei. Kannski sem tilsjónarmaður?) Ég hef hins vegar minni trú á honum sem tilsjónarmanni og ég tel eðlilegt að stjórn bankans sé falin mönnum sem hafa reynslu og þekkingu á stjórnmálum og stjórnsýslu.
    Ég vek athygli á því að í V. kafla frv. sem fjallar um bankaeftirlit segir í 27. gr.:
    ,,Seðlabankinn hefur eftirlit með því að lánastofnanir og aðrar fjármálastofnanir hagi starfsemi sinni í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir eða það sem telja má eðlilega viðskiptahætti nema eftirlitið sé öðrum falið með lögum.``
    Út af fyrir sig hefur þetta verið góð latína þegar frv. var samið en það er það ekki lengur vegna þess að við erum orðnir aðilar að Evrópsku efnahagssvæði samkvæmt ákvörðun meiri hluta Alþingis svo sem hún var nú fengin og þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár. Þar með er greinin orðin úrelt vegna þess að erlendar fjármálastofnanir, sem hafa starfsemi hér á landi, þurfa ekki samkvæmt þeim samningi að lúta íslensku bankaeftirliti. Þær eiga að lúta bankaeftirliti heimalands síns. Þetta er nú eitt gatið.
    Þrátt fyrir að vaxtastefna Seðlabankans hafi stundum á undanförnum árum ekki verið í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar þá tel ég að ríkisstjórn hafi samkvæmt gildandi lögum haft tækifæri til þess að hafa áhrif á vaxtastefnuna í gegnum Seðlabankann. Það er svo aftur annað mál að ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa ekki beitt því vopni, sem Seðlabankinn er í höndum þeirra, með þeim hætti að skynsamlega hafi verið farið að. Ekkert þýðir fyrir hæstv. viðskrh. að koma og segja að vextirnir séu allt of háir, hann getur lækkað þá ef hann vill með gildandi lögum og beitt Seðlabankanum í þeirri baráttu. Ef það er meining ríkisstjórnarinnar að vextirnir séu of háir þá hefur hún m.a. tæki í Seðlabankanum til þess að ná þeim niður.
    Mér finnst að í frv. felist óeðlilegir stórveldisdraumar fyrir hönd Seðlabankans. Það er eins og verið sé að smíða eitthvert hásæti og ég tel enga þörf á því og reyndar hættulegt. Verið er að undirbúa hásæti undir einhvern, vonandi menntaðan einvald, sem á að stjórna landinu til hliðar við ríkisstjórnina. Það held ég að sé ekki farsælt fyrirkomulag og ég held að það sé engin þörf eða endurbót að smíða þetta hásæti. Nú ætla ég ekki að falla í þá gryfju, sem margir þingmenn hafa gert í umræðunum, að nefna einhver nöfn hugsanlegra seðlabankastjóra í framtíðinni. Það mun ég ekki gera. Ég veit ekkert um hverjir koma til með að skipa aðalbankastjórastól í Seðlabankanum ef frv. verður að lögum. Mennirnir þenkja en guð ræður. Eins og segir snilldarlega í Höll sumarlandsins: ,,Það dansa ekki allir á kirkjugarðsballinu í haust sem ætluðu þángað í vor``.
    Ég ætla að spara mér frekari umræðu um vaxtamál. Fáein smærri atriði í þessu frv. eru ýmist skaðlaus eða jafnvel til bóta við gildandi lög. Ég ætla ekki að tína þau saman en ef ég ber saman þetta frv. sem prentað er á þskj. --- það vantar nú þingskjalsnúmerið á plaggið mitt --- en ef ég ber saman gildandi lög og þetta frv. þá finnst mér frv. vera lakara en gildandi lög og þar af leiðandi er ég andvígur þeirri breytingu sem hér er lagt til að gera á seðlabankalögunum.
    Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að hv. 1. þm. Austurl., Halldór Ásgrímsson, var búinn að óska eftir því að komast á mælendaskrá við 1. umr. málsins. Það gerðist fyrir nokkrum dögum. Hann ætlar að flytja ræðu við 1. umr. Nú stendur þannig á að hv. þm. þurfti til útlanda í erindum Alþingis og hefur setið á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Ég vil leyfa mér að óska eftir því að hann fái tækifæri til að flytja ræðu sína því hann er, að ég best veit, væntanlegur til landsins í kvöld og að umræðunni verði ekki lokið fyrr en hann hefur fengið tækifæri til að flytja mál sitt við 1. umr. Þeirri ósk kem ég á framfæri, ég hef ekkert á móti því að umræðan haldi áfram og er ekki að biðja um að hún verði stöðvuð, heldur einungis að hv. 1. þm. Austurl. fái líka tækifæri til þess að koma skoðunum sínum á framfæri við 1. umr. málsins og að umræðum verði ekki lokið fyrr en hann hefur annaðhvort sjálfur fallið frá orðinu ellegar þá, sem ég tel heppilegra, fengið tækifæri til að flytja ræðu sína.