Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 18:50:44 (6398)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu væri það ekki rétt af hv. 1. þm. Norðurl. v. að greiða atkvæði með þessu frv. ef hann teldi það ekki vera lagabót. En ég get fullvissað hann um að það hefur verið þannig að þessu frv. staðið að ætla má að um það sé víðtæk samstaða að það sé lagabót, að það sé framför. Ég rifja það upp að fulltrúi þingflokks Framsfl. í þeirri nefnd sem frv. samdi stóð að tillögunum sem hér eru í öllum aðalatriðum fluttar inn á Alþingi.
    Ég vil svo einungis koma að því sem hv. þm. sagði um bankaeftirlitið. Hann benti á að eftir að EES-samningurinn væri genginn í gildi, þá gilti bankaeftirlit heimalands fyrir bankastofnanir frá EES-löndum sem hér kynnu að starfa. Það er rétt hjá hv. þm. en í því felst alls engin linun eða lakari réttarvernd eða eftirlit með þessum stofnunum því það er líka hluti af EES-samningnum að eftirlitsreglurnar séu samræmdar, m.a. kröfurnar um eigið fé. Yfirleitt er stefnt að samræmingu á þessu sviði milli EES-landanna og þar með höfum við ekkert misst en að mínu áliti frekar bætt við okkur með því að hafa slíka gagnkvæmni í þessum reglum.