Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 18:52:31 (6399)


     Páll Pétursson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég get ekki fallist á að þetta frv. sé lagabót og vitna þá sérstaklega til 4. gr. gildandi laga sem ég tel að sé heppilegra fyrirkomulag en lagt er til í þessu frv. Mér er að sjálfsögðu kunnugt um það að einn nefndarmaður þeirrar nefndar sem frv. samdi er framsóknarmaður sem ég hef mikið traust á, en það breytir ekki því að ég treysti mér ekki til þess að fara í einu og öllu eftir því sem hann kann að hafa samþykkt í frumvarpsgerð. Þar af leiðir að ég tel það lakari skipan að veikja ríkisstjórn Íslands, taka af henni stjórntæki, setja upp eitthvert menntað einveldi til að stjórna landinu til hliðar við ríkisstjórnina. Ég held að við eigum að beygja okkur undir það að hafa ríkisstjórnina sem yfirvald og nú er ég ekki að mæla núv. ríkisstjórn bót og alls ekki að sýkna hana, en hún er formlega skipuð. Hún styðst við þingræðislegan meiri hluta hér á Alþingi og ég tel að hún eigi að hafa tækifæri til þess að stjórna þessu landi og það eigi ekki að vera að svipta hana sínum meginvopnum. Þetta vildi ég láta koma fram.