Seðlabanki Íslands

140. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 18:54:35 (6400)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Það eru nokkur efnisatriði frv. sem ég vil fyrst ræða, síðan aðeins um stöðu Seðlabankans almennt sem stofnunar. Mér finnst ekki óeðlilegt við þessa umræðu að það sé lítillega farið yfir það eða spurt út í það hvaða áform standa til þess að útbúa Seðlabankann þannig að hann geti sinnt sínu framtíðarhlutverki eins og það er hugsað samkvæmt þessu lagafrv. og fyrir liggur, m.a. með tilkomu gjaldeyrismarkaðar og fleiri slíkra breytinga sem hafa orðið eða eru í undirbúningi á skipan þeirra mála sem Seðlabankanum viðkemur. Þá skiptir það að sjálfsögðu máli hvernig þessi stofnun, Seðlabankinn, er í stakk búin til að sinna sínu nýja og breytta hlutverki.
    Um möguleika bankans til að sinna sínu hlutverki hvað varðar jafnvægi á peningamarkaði hér innan lands, hóflegt vaxtastig o.s.frv. eða þau tæki öllu heldur sem bankinn hefur í sínum höndum til þess, er fjallað í III. kafla frv. sem nefnist Innlend viðskipti, greinum 10 og áfram og þar eru talin upp eða koma fram þau tæki sem bankinn hefur til að beita í þessu skyni.
    Nú er það svo að það er ekki vandinn samkvæmt þessu lagafrv. og hefur ekki verið samkvæmt gildandi lögum um Seðlabankann að hann hafi ekki haft á sinni hendi nægjanleg úrræði til þess að beita. Það vakna öllu fremur spurningar um hitt hvort þau dugi við okkar íslensku aðstæður, hefðbundin markaðsinngrip miðbanka eða seðlabanka eins og það er nú gjarnan skilgreint á þróuðum peningamörkuðum vestrænna ríkja. En þannig er það að samkvæmt 12., 14., 15. og 16. gr. er Seðlabankanum mögulegt í fyrsta lagi til þess að ná fram markmiðum sínum í peningamálum með því að kaupa og selja verðbréf og önnur trygg innlend og erlend markaðsbréf. Í öðru lagi getur bankinn ákvarðað vexti af innlánum við bankann og lánum sem hann veitir og verðbréfum sem hann gefur út og haft þannig áhrif á vaxtastigið. Í þriðja lagi hefur bankinn í höndum heimildir til að skylda innlánsstofnanir til að eiga fé bundið á reikningum í bankanum. Og í fjórða lagi getur bankinn sett reglur um lágmarkslausafé innlánsstofnana. Þetta eru ef ég man rétt líklega ríkari heimildir en flestir aðrir seðlabankar hafa því að í fáum tilvikum hygg ég að þeir hafi öll þessi stjórntæki á sínum höndum, ef ég man rétt upplýsingar og fylgigögn með frv. eða skýrslu nefndar sem undirbjó það. Ég held þess vegna að það verði ekki með réttu sett út á þetta lagafrv. að það setji Seðlabankanum eitthvað þröngar skorður í þessu efni. Hitt er mér miklu meira umhugsunarefni hvort beiting þeirra yfirleitt dugi á okkar litla og tiltölulega vanþróaða fjármagnsmarkaði sem hefur fram á síðustu ár lotið allt öðrum lögmálum eða verið undir aðrar reglur settur en fjármagnsmarkaðir annarra vestrænna ríkja og er tiltölulega nýlega farinn að stjórnast að einhverju leyti af markaðslögmálum.
    Með 14. gr. þessa frv. sem í rauninni kemur í stað 9. gr. í gildandi lögum er íhlutunarheimild Seðlabankans, sem að vísu hefur nú ekki verið beitt lengi og líklega aldrei eftir að hún komst í núverandi mynd frá og með árunum 1985--1986, afnumin eins og hún leggur sig. Ég er ekki viss um að menn hafi nægjanlega gefið því gaum hversu mikil grundvallarbreyting er þar á ferðinni frá þeim tíma þegar vaxtastigið eða vextir voru almennt ákvarðaðir með miðstýrðum ákvörðunum. Síðan vextir voru gefnir frjálsir í áföngum, þá hefur þó a.m.k. þetta ákvæði laga alltaf verið fyrir hendi ef til kæmi að beita þyrfti því. En hér er sem sagt lagt til að það verði fellt úr gildi og ég segi um það atriði eitt að mikil er þá trú manna á það að hinar hreinu markaðslausnir dugi til þess að jafnvægisstilla íslenska fjármagnsmarkaðinn þannig að hann geti verið í skikkanlegu horfi á allar lundir, þar með talið að vaxtastigið haldist hér hóflegt eða verði hóflegt. Það er það auðvitað ekki í dag.
    Ég hélt nú satt best að segja að ef eitthvað væri, þá hefðu atburðir síðustu sex til tólf mánaða allt í kringum okkur frekar vísað mönnum veginn í þá átt að fara nú varlega og frekar vakið vaxandi efasemdir en hitt um það að hinar einhlítu markaðslausnir dygðu í öllum tilvikum, enda hafa ríkisstjórnir og stjórnendur Seðlabanka og efnahagsmála víða í heiminum tekið pólitískar ákvarðanir af ýmsum toga um efnahagsaðgerðir, um vaxtaákvarðanir, um gengismál og orðið að hverfa frá hinum óskeikulu, sem áður voru talin, lögmálum markaðarins í þeim efnum. Það er auðvitað alkunna að bæði austanhafs og vestan hafa ýmsar ríkisstjórnir knúið fram vaxtalækkun með pólitískum ákvörðunum til þess að reyna að örva efnahagsstarfsemina o.s.frv. En slíkt virðist nú ekki vera upp á teningnum hér þrátt fyrir aðstæður uppi á Íslandi, atvinnuleysi, samdrátt og háa raunvexti. Missiri eftir missiri og ár eftir ár virðast menn ekki hafa neinar sérstakar efsemdir um það að þeir séu á réttri leið í þessum efnum. Ég endurtek það að ég tel það vera mikla trú á kerfi sem hefur þó ekki sannað sig betur en raun ber vitni. Hvort svarið væri það að skilja eftir að einhverju leyti íhlutunarheimild af því tagi sem legið hefur í 9. gr. gildandi laga um Seðlabankann, þótt henni hafi ekki verið beitt eða með einhverjum öðrum varúðarákvæðum, halda slíkum möguleikum opnum, skal ég ósagt látið um á þessu stigi, en ég tel alla vega eðlilegt að þessi grundvallarbreyting sé rædd í tengslum við afgreiðslu þessa máls.
    Í öðru lagi vil ég nefna, hæstv. forseti, að inni í þessu lagafrv. er eins og lengi hefur verið í lögum um Seðlabankann ákvæði um bankaeftirlitið. Ég fyrir mitt leyti vil a.m.k. hafa fullan fyrirvara á um það að sú hugsun verði ekki með öllu yfirgefin að til greina geti komið að gera bankaeftirlitið að sjálfstæðri stofnun eða a.m.k. auka sjálfstæði þess innan Seðlabankans frá því sem verið hefur. Það er að vísu svo að sums staðar munu menn vera að hverfa frá því eða a.m.k. ekki vera jafneindregið þeirrar skoðunar eins og var ríkjandi hér fyrir fáeinum árum að yfirleitt ætti að stefna að því að bankaeftirlitin væru sjálfstæðar stofnanir. Þannig er því víða fyrir komið en í öllu falli er það hlutur sem menn hljóta að þurfa að taka til vandlegrar athugunar hvernig því er best fyrir komið og hvort það eigi að vera eftir sem áður hluti af Seðlabankanum eða heyra undir hann.
    Í þriðja lagi vil ég nefna ákvæði VII. kafla laganna um stjórnskipulag bankans. Það hafa reyndar fleiri gert á undan mér og ég get því stytt mál mitt um það efni, en það er einkum og sér í lagi það álitamál sem snýr að skipan bankastjórnarinnar sem mönnum hefur orðið tíðrætt um og sá möguleiki að hér yrði farin sú leið sem er nú algengara en hitt að bankanum stýrði einn aðalbankastjóri og síðan aðstoðarbankastjórar en ekki fjölskipuð bankastjórn eins og hér hefur verið og gerð er tillaga um í frv. Ég tel í sjálfu sér að hvort tveggja geti átt sín rök og er svo sem hvort tveggja þekkt umhverfis okkur. Mér finnst meira atriði að greina það hvaða hugsun liggur á bak við skipan bankastjórnarinnar og hvaða hlutverk henni er ætlað, í hvaða ljósi er hún skoðuð. Ég hefði talið að breyting yfir í það að einn aðalbankastjóri færi með þetta hlutverk sem væri svo undirstrikuð með auknum, faglegum kröfum sem gerðar væru til þess bankastjóra og ef með einhverjum hætti væri hægt að búa þannig um hnútana að nánast skylda að hann væri ráðinn á faglegum eða bankalegum forsendum eingöngu og ekki öðrum, að það væri slík vísbending sem við þyrftum á að halda fremur en það skipti öllu máli hvort bankastjórnin sé fjölskipuð eða um einn aðalbankastjóra sé að ræða. Auðvitað þarf það ekki að þýða að menn geti ekki eftir sem áður lagt til grundvallar fagleg sjónarmið við ráðningu þeirra manna þótt þeir séu fleiri en einn. En hitt finnst mér aðalatriði, að menn hverfi frá þeirri löngu úreltu og niðurlægjandi hugsun, sem því miður er enn sprelllifandi eins og umræður undanfarna mánuði sanna, að bankastjórnir í a.m.k. ríkisbönkunum á Íslandi og ég tala nú ekki um Seðlabankanum, miðbankanum sjálfum, þar séu frá tekin sæti samkvæmt einhverjum kvótahlutföllum eða kvótaskiptingarreglu stjórnmálaflokka. Þetta er auðvitað niðurlægjandi og fyrir neðan allar hellur að við skulum enn standa í þeim sporum uppi á Íslandi árið 1993 að þetta sé bara rætt eins og sjálfsagður hlutur, að þessir menn séu eyrnamerktir flokkunum og ráðnir á grundvelli einhvers kvóta sem engin lög og engar reglur taka til, en séu bara eitthvert baktjaldafyrirkomulag sem tilteknir stjórnmálaflokkar hafi komið sér saman um.
    Mér finnst það standa þeim mönnum næst, sem mikið hafa talað á undanförnum árum um spillingu og guð má vita hvað, að gera hreint fyrir sínum dyrum og útkljá þetta mál í eitt skipti fyrir öll, leggja niður þetta fáránlega skipulga og búa þannig um hnútana í lögum að um slíkt geti ekki verið að ræða, að það sé alveg á hreinu að í þessi embætti, þessi mikilvægu embætti sé ráðið á hreinum faglegum grundvelli eða bankalegum grundvelli. Ég hefði þess vegna talið að það þyrfti að mæla með mjög skýrum hætti fyrir um hæfniskröfur, jafnvel enn betur en gert er hér og er það þó framför hvernig um þetta er búið í þessum lögum, að einhvers konar stöðumat fari fram, hæfnismat fari fram, einhvers konar stöðunefnd fengi þarna lögskipað hlutverk og síðan væri til að mynda þannig um hnútana búið að næði hún samkomulagi um að raða mönnum upp, þá gilti hennar niðurstaða. Ef ekki yrði samkomulag mætti hugsa sér að þá kæmi til kasta ráðherra að skera úr. Svona fyrirkomulag er víða þekkt. Það má taka dæmi úr fjölmörgum fögum þar sem menn leysa ósköp einfaldlega þessi mál og tryggja að fagleg og eingöngu fagleg sjónarmið liggi til grundvallar ákvörðunum af þessu tagi með því m.a. að láta fara fram mat á faglegum grundvelli og röðun manna eftir starfsreynslu, menntun og öðru því um líku.
    Ég hefði sem sagt lagt meira upp úr því hvað mig snertir ef þessi hugsun hefði verið lögð til grundvallar þeirri niðurstöðu sem um stjórnskipun bankans gilti heldur en kannski nákvæmlega því hvort þar yrði um að ræða einn aðalbankastjóra eða fjölskipaða bankastjórn. Ég tek það þó fram að ég er sammála þeirri skoðun sem fulltrúi Alþb. í nefndinni setti fram í sínu séráliti að vænlegra væri að horfa til þess að hér yrði einn aðalbankastjóri. Mér skilst að hæstv. bankamálaráðherra hafi tekið undir það í dag í ræðu að til greina komi að skoða þetta og ég fagna því og hef ekki um það fleiri orð. Væntanlega kemur það þá til kasta hv. nefndar að líta betur á þessa hluti.
    Þá langar mig aðeins að ræða um þetta á almennum nótum hvað varðar stöðu og styrk Seðlabankans og hlutverk hans, fyrst og fremst í ljósi þess að hér eru í gangi, hafa verið að gerast að undanförnu og eru framundan ýmsar mikilvægar breytingar í okkar gjaldeyrismálum og peningamálum sem augljóslega kalla á stóraukið mikilvægi eða hlutverk Seðlabankans á ýmsa lund. Þar nefni ég auðvitað sérstaklega þessa breytingu, þó að mönnu kunni að finnast það fyrst og fremst formbreyting, að hverfa alfarið frá því að hafa í lögum möguleika til íhlutunar í vexti og yfir í hreinar markaðslausnir til að halda jafnvægi í þeim efnum. Ég nefni frelsi í gjaldeyrisviðskiptum og gjaldeyrismarkað sem í undirbúningi er eða var síðast þegar ég vissi. Það væri fróðlegt að vita hvar það mál stendur svo að ekki sé nú minnst á hugmyndir um jafnvel ECU-tengingu krónunnar eða annað því um líkt sem til umræðu hefur verið á undanförnum mánuðum.
    Ég hef um það miklar efasemdir að Seðlabankinn sé í stakk búinn til þess að mæta þessu hlutverki án nokkurs frekari undirbúnings eða aðgerða hvað stöðu hans snertir. Ég gæti sagt ýmislegt um tilfinningu mína fyrir því hvernig bankinn stendur faglega sem stofnun. Þar geta menn haft sín sjónarmið. Ég hef ekki verið í þeim hópi undanfarin ár sem hefur séð mikið grand í því að rægja Seðlabankann. Þar hafa aðrir gengið fram fyrir skjöldu í því að saka menn um blýantsnag eða að kenna þeim jafnan um allt sem miður hefur farið í efnahagsmálum okkar. Mér hefur satt best að segja fundist það heldur lágkúrulegur málflutningur hjá ýmsum ónefndum stjórnmálaforingjum að finna jafnan sökudólg þar sem Seðlabankinn var í einu og öllu, svo ekki sé nú minnst á þá menn sem riðu um landið og áttu sér það heitasta kosningamál að geta rekið einn af bankastjórum Seðlabankans um leið og þeir kæmust til valda sem síðan hefur að sjálfsögðu ekki orðið.
    Um hitt ætla ég alls ekki að deila að ýmislegt hefði mátt betur fara í áherslum Seðlabankans á undanförnum árum. Ég hef oft verið ósammála því hversu litla áherslu bankastjórar Seðlabankans, bankastjórn eða bankaráð hafa lagt á það að reyna að ná niður vaxtastiginu hér á landi sem ég tel að sé og hafi verið einhver aðalmeinsemdin í efnahagslífi okkar. Raunvaxtastigið er allt of hátt og íslenskt efnahagslíf ræður ekkert við það, hvorki fyrirtæki né heimili. Segjum nú sem svo að þetta verði allt að veruleika hér á næstu mánuðum og til komi gjaldeyrismarkaður í kjölfar þess að allar hömlur eru aflagðar á viðskiptum með gjaldeyri. Þá reynir auðvitað á styrk Seðlabankans með allt öðrum hætti en fyrr. Sömuleiðis hlýtur það að vekja spurningar um gjaldeyrisforðann og efnahagslegan styrk Seðlabankans ef hann á í raun og veru að geta rækt hlutverk sitt í sínu nýja umhverfi. Ég var aðeins að reyna að skoða hvernig þau mál standa, t.d. borið saman við aðra banka. Það vekur athygli mína að í viðkomandi greinum frv. er lagt til að breyta nokkuð ráðstöfun hagnaðar Seðlabankans, m.a. með hliðsjón af því að minnka þann hlut sem gangi til ríkisins sjálfkrafa þangað til eiginfjárhlutfall Seðlabankans miðað við verga landsframleiðslu er komið upp í 6%. Nú stendur þannig á að það er ærið langt í land því að þetta hlutfall var og er væntanlega í kringum 2,5%. Ef ég hef reiknað rétt þá mun það hafa verið um 2,4% á árinu 1990. Í fskj. með frv. segir að það hafi verið 2,5% í árslok 1991 og er það næstlægsta á Norðurlöndum á eftir Finnlandi en hlutfallið er síðan mun hærra annars staðar á Norðurlöndunum, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Ef skoðað er hlutfall eigin fjár Seðlabankans af innflutningi er það langlægst á Íslandi og meira að segja í því tilviki talsvert miklu lægra en í Finnlandi sem stafar auðvitað af því að innflutnings- og útflutningsverslun er miklu hærra hlutfall af landsframleiðslu á Íslandi en í Finnlandi.
    Ég held þess vegna að það hljóti að þurfa að koma inn í umræðuna hvort ekki sé óhjákvæmilegt að Seðlabankinn styrkist ef hann á að geta ráðið við hlutverk sitt og mér er til efs að það sé í raun og veru skynsamlegt að opna fyrir þetta með þeim hætti sem menn hafa áformað í ljósi þess að Seðlabankinn er þó þrátt fyrir allt ekki meiri bógur en hann er. Samkvæmt síðustu ársskýrslu Seðlabankans fyrir árið 1991 var eigið fé hans í lok árs 1991 --- ef ég kann að lesa rétt út úr þessum reikningum sem eru dálítið óvenjulegir, a.m.k. fyrir leikmann, --- rúmir 9 milljarðar kr., þ.e. stofnfé og annað eigið fé samkvæmt efnahagsreikningi 31. des. 1991 eru 9 milljarðar og 99 millj. kr. Ef þetta er svo borið saman við verga landsframleiðslu sem samkvæmt þjóðhagsáætlun rokkar einhvers staðar á bilinu 380--390 milljarðar árin 1991--1993 samkvæmt spá þá standa málin þannig að ef eitthvað er þá stendur eiginfjárhlutfallið svona. Það er um 2,5% miðað við verga landsframleiðsu. Gjaldeyrisvarasjóðurinn, sem hefur að vísu heldur drýgst undanfarin ár, er nú aftur á niðurleið og miðað við mikilvægi útflutnings- og innflutningsverslunar á Íslandi hljótum við að þurfa að gera, ef eitthvað er, heldur hærri kröfur um þau hlutföll en aðrar þjóðir. Mér sýnist það liggja í hlutarins eðli. Við þær aðstæður sem menn horfast í augu við í efnahagsmálum okkar þá taka menn ákvörðun um nánast allt á sama brettinu, að afleggja allar hömlur á viðskiptum með gjaldeyri, að taka upp gjaldeyrismarkað til að láta gengisskráningu krónunnar ráðast að einhverju leyti af þeim markaði og að afnema úr lögum síðustu beinar íhlutunarheimildir stjórnvalda, Seðlabankans og ríkisstjórnar, sem í raun og veru hefur ekki haft önnur lagaúrræði í þeim efnum fyrir hendi en þau sem verið hafa í lögum um Seðlabankann til að hafa áhrif á peningamarkaðinn með t.d. beinum íhlutunum um vaxtastig.
    Ég verð að segja alveg eins og er, hæstv. forseti, að um þetta hef ég því miður efasemdir. Ég vildi gjarnan að þessi mál væru svo traust og vel á vegi stödd í öllu tilliti hjá okkur að maður þyrfti ekki að hafa af því neinar áhyggjur að við værum tilbúin til að stíga svona skref því að hvort sem menn eru í hjarta sínu meira og minna sannfærðir um að þetta sé allt saman rétt fyrirkomulag pólitískt séð þá verður hinu auðvitað ekki á móti mælt að væntanlega er það farsælast fyrir okkur Íslendinga að búa við svipað fyrirkomulag í þessum efnum eins og nágrannaþjóðirnar gera, að breyttu breytanda eftir því sem við getur átt út frá okkar sérstöku aðstæðum. En þetta tel ég að þurfi að skoða. Ég er alls ekki sannfærður um að allar forsendur séu fyrir hendi til þess að stíga öll þessi skref samtímis.
    Við horfumst í augu við það að okkur dugir ekki að viðhalda eða varðveita óbreytt ástand. Ég er alveg sannfærður um það að við Íslendingar verðum áfram í bullandi erfiðleikum og vaxandi erfiðleikum og kreppu ef við náum ekki stórfelldum árangri á næstu mánuðum eða missirum í því t.d. að taka vaxtastigið niður. Það liggur í hlutarins eðli. Þeir aðilar sem munu væntanlega blæða mest fyrir þetta háa vaxtastig á næstunni er ekki endilega atvinnulífið heldur fyrst og fremst heimilin og þá vitna ég til þeirra upplýsinga sem hafa komið fram um stórauknar skuldir heimilanna á undanförnum árum og ég vitna til minnkandi tekna heimilanna í landinu. Með auknu atvinnuleysi og minni yfirvinnu minnka ráðstöfunartekjur. Greiðslubyrðin þyngist einnig úr þeirri áttinni. Þetta eru allt saman alvöruhlutir sem við þurfum að horfast í augu við og skipta máli þegar rætt er um þetta nýja hlutverk Seðlabankans. Mér finnst að menn láti eins og allt sé í raun og veru í fínu lagi, þetta sé allt á beinni braut og við séum tilbúin til að stíga áframdhaldandi skref í þessa átt að láta alla þessa hluti ráðast á markaði sem þrátt fyrir allt er tæpast til nema rétt að nafninu til á Íslandi.
    Hæstv. forseti. Ég gerði það til gamans að taka með mér síðasta hefti af Fjármálatíðindum þar sem sjálfur nestorinn, Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, er að fjalla svolítið um ástandið og horfurnar. Kannski fer ekki illa á því undir lokin í umræðunni að vitna svolítið til þess ágæta manns um hvern hefur gengið út sá boðskapur að muni láta af embætti sínu á árinu. Í forustugrein í Fjármálatíðindum ræðir formaður bankastjórnar Seðlabankans m.a. um vaxtastigið og horfurnar fram undan hjá okkur Íslendingum. Hvað heitir nú greinin? Hún heitir ,,Þungur róður.`` Fyrst er vikið að því í II. kafla greinarinnar að sl. áratugur hafi skilið eftir sig mörg vandamál, einkum vegna óarðbærrar fjárfestingar og skuldasöfnunar sem hefur orðið þungbærari með hækkandi raunvöxtum. Vissulega rétt. Vaxtaþróunin hefur hins vegar fyrst og fremst ráðist af hallarekstri ríkissjóðs og skuldasöfnun heimilanna sem að verulegum hluta hefur orðið fyrir milligöngu hins opinbera húsnæðislánakerfis. Það er a.m.k. ekki við Seðlabankann að sakast samkvæmt þessu, það er alveg ljóst, enda heldur sá á penna sem viðurkenndi það líklega seint að þeir hefðu í einhverju brugðist hlutverki sínu.
    Í IV. kafla greinarinnar er svo komið aftur að þessum aðstæðum. Meðal annars er talað um atvinnuástandið og það að margir kalli á skjótvirkari ráðstafanir til að auka atvinnu. Segir svo áfram, með leyfi forseta: ,, . . .  en þar er raunverulega ekki um aðra kosti að velja en auknar opinberar framkvæmdir sem fjármagnaðar væru með peningaþenslu og erlendu lánsfé. Þótt eflaust mætti draga nokkuð úr atvinnuleysi í bili með aðgerðum af þessu tagi gætu þær orðið þjóðarbúinu dýrkeyptar þegar fram í sækir.``
    Ég sé ekki annað en að hér sé dómarinn mikli að láta öxina falla og dæma til dauða allar hugmyndir sem uppi hafa verið í þjóðfélaginu um það að reyna m.a. að sporna gegn kreppunni með atvinnuskapandi aðgerðum. Þær eru bannaðar samkvæmt þeirri stefnu sem nú ríkir í Seðlabankanum vegna þess m.a. að þær gætu valdið peningaþenslu. Það er ljótt orð. Svo kemur enn magnaðri kafli því að svo segir:
    ,,Sannleikurinn er sá að háu atvinnustigi hefur verið haldið uppi hér á landi um langt skeið með hallarekstri ríkissjóðs og skuldasöfnun erlendis. Og þótt tekist hafi að draga verulega úr ríkissjóðshallanum á árinu 1992 og aðhaldssöm fjárlög verið samþykkt fyrir árið 1993 hefur skuldabyrði ríkisins og annarra opinberra aðila haldið áfram að þyngjast bæði innan lands og utan. Þannig benda nýjustu áætlanir til þess að hlutfall erlendra skulda af landsframleiðslu verði komið yfir 60% í lok ársins 1993 sem er um 50% hærra hlutfall en fyrir 5 árum.``
    Hér talar sá sem valdið hefur og þetta verður varla lesið öðruvísi en þannig að í raun og veru höfum við búið hér við falskt atvinnuástand um langt árabil eða undanfarin ár og í raun og veru hefði átt að vera miklu meira atvinnuleysi hér til þess að allt væri með felldu. Þetta er kannski dálítið harkaleg túlkun á textanum en það getur hver lesið hann fyrir sig. Ég verð að segja alveg eins og er að ekki óx mér bjartsýni við að fara yfir þetta og sjá hvernig þeir í Seðlabankanum skilgreina vandann um þessar mundir. Að vísu er viðurkennt í greininni að lokum að við séum stödd í vítahring skuldasöfnunar og hárra vaxta. Það er auðvitað hverju orði sannara.
    Ég held þess vegna að einkunnin sem hægt er að gefa ástandinu eftir þetta árabil frjálsra vaxta sé ekki mjög góð. Manni verður á að spyrja sig þó það sé kannski óskaplega gamaldags: Var þetta þá þrátt fyrir allt svo djöfullegt á meðan þessum málum var öðruvísi komið fyrir? Er reynslan af því að öllu leyti góð miðað við okkar íslensku aðstæður að reyna að láta hreinar markaðslausnir á markaði, sem er þó tæplega til, ráða m.a. vaxtastiginu og jafnvægisstilla helstu stærðir efnahagslífsins? Ég hef stórkostlega miklar efasemdir um það að íslenski Seðlabankinn geti strax á næstu mánuðum eða innan skamms eftir að lög þessi taki gildi með útgáfu bréfa og ákvörðun vaxta í millibankaviðskiptum haldið þessum hlutum öllum í góðu lagi. Auk þess held ég að það þurfi að fara ákaflega varlega og undirbúa þær breytingar vel, þar á meðal að efla Seðlabankann ef hann á þá á annað borð að fá þetta hlutverk einn og óstuddur.
    Hæstv. forseti. Ég á þess væntanlega kost að skoða þetta mál betur í þeirri þingnefnd sem fær það til umfjöllunar, hv. efh.- og viðskn., og ætla að nýta mér það tækifæri og stytta hér mál mitt með tilliti til þess, líka með hliðsjón af því að það líður nú að hefðbundnum matmálstíma. Enda þótt ég hafi ekki valið mér þau örlög sjálfur að þurfa að flytja mál mitt á þessum tíma sólarhringsins þá ætla ég að taka tillit til þess að það er ekki mjög vinsælt að halda uppi fundahöldum þegar svo er komið og ég læt þetta því nægja að sinni.