Evrópskt efnahagssvæði

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 13:37:38 (6403)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993. Þetta frv. er stutt. Það er þrjár greinar, einfalt að efni og óþarfi að orðlengja mikið um það.
    Með frv. er leitað eftir samþykki Alþingis fyrir því að fullgilda þrjár bókanir sem breyta samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og tveimur fylgisamningum hans vegna þess að Svisslendingar ákváðu að gerast ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Jafnframt er kveðið á um að breytingar á meginmáli EES-samningsins skuli öðlast lagagildi í samræmi við lög nr. 2/1993. Framangreindar bókanir gera ráð fyrir því að EES-samningurinn öðlist gildi 1. júlí 1993. Til þess að það megi verða þurfa þing allra aðildarríkja að samþykkja samninginn fyrir þann tíma og breytingar á honum. Á þessari stundu getur enginn fullyrt um það hvort það tekst, en sameiginlegar pólitískar yfirlýsingar samningsaðilanna allra hníga að því. Ef fullgilding dregst hjá einhverju aðildarríki er ekki líklegt að það verði meira en fáeinir mánuðir. Mundi þá gildistaka samningsins frestast sem því næmi.
    Eins og margoft hefur verið rætt hér á Alþingi, þá kallaði brotthvarf Sviss frá EES-samningnum á breytingar á honum í samræmi við ákvæði samningsins sjálfs. Niðurstaða þessa máls nú er nákvæmlega sú hin sama og samningurinn gerði ráð fyrir og ég lýsti eftir að EES-samningurinn var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss. Gagnvart Íslandi eru breytingarnar þessar:
    1. Gildistaka EES-samningsins frestast.
    2. Sviss verður ekki aðili að Evrópska efnahagssvæðinu.
    3. Þátttaka Liechtensteins frestast eitthvað þar til búið er að ganga frá samningum við Sviss vegna tollabandalags landanna.
    4. Formleg þátttaka Íslands í rammaáætlun Evrópubandalagsins og skyldum áætlunum frestast um nokkra mánuði fram yfir gildistöku samningsins af tæknilegum ástæðum þótt það hafi ekki áhrif á þátttöku í viðkomandi nefndum.
    5. Framlag Íslands í þróunarsjóð getur hækkað um allt að 17 millj. kr. á fimm árum eða samtals um 85 millj. kr. þótt ekki sé unnt að slá því föstu að til þeirrar hækkunar komi í reynd.
    Við samningu þessa frv. hefur verið reynt að taka tillit til allra fram kominna óska stjórnarandstöðu um þingmeðferð þess.
    1. Þetta mál er flutt sem lagafrv. en ekki sem þál. Einfaldast hefði verið að velja þingsályktunarleiðina sem er hin venjulega leið þegar milliríkjasamningar eiga í hlut. Þar sem breytingarnar sem gerðar eru á meginmáli EES-samningsins hafa engin bein réttaráhrif hefði sú leið verið vel fær. Forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna hér á þingi fóru fram á það að þetta yrði í formi lagafrv. og ég sá engin vandkvæði á að verða við þeirri ósk.
    2. Þetta frv. er flutt sem stjfrv. en ekki þingmannafrv. meiri hluta utanrmn. sem kom til álita. Þessi hugmynd kom upp þar sem utanrmn. hefur haft málið lengi til umfjöllunar, fjallað um það á tugum funda og þekkir væntanlega vel til málsins. Meiri hluti nefndarinnar flutti brtt. á frv. ríkisstjórnarinnar í vetur. Flutningur þessa frv. hefði verið eðlilegt framhald af þeirri vinnu. Vegna óska stjórnarandstöðuflokkanna var sú leið þó ekki valin.
    3. Lögð var mikil áhersla á að koma þessu máli sem fyrst til þingmanna. Frv. var dreift strax næsta dag eftir undirritun viðkomandi bókana í Brussel.
    Virðulegi forseti. Ég vona að þessi meðferð málsins hér á þingi verði til að auðvelda framgang þess í þinginu. Að svo mæltu legg ég til að frv. verði vísað til hv. utanrmn. og 2. umr.