Evrópskt efnahagssvæði

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 15:01:31 (6407)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að skýra frá því að ég tel og hef talið að eðlilegra væri að taka til umræðu fyrst tvíhliða samning við Evrópubandalagið eða þingsályktun um tvíhliða samning. Í morgun ritaði ég forseta bréf þar sem ég óskaði eftir því að takmörkun yrði ekki á ræðutíma um það mál, enda er það mjög viðamikið, og óskaði jafnframt eftir því að tvíhliða samningurinn yrði tekinn fyrir á undan því frv. sem nú er til umræðu. Forseti varð ekki við því að taka tvíhliða samninginn til umræðu fyrst eins og ég og þingflokkur framsóknarmanna töldum eðlilegt. Á hinn bóginn féllst hún að sjálfsögðu á ósk þingflokksins um að umræður yrðu ekki tímabundnar um tvíhliða samninginn þegar hann kemur til umræðu á morgun.
    Út af fyrir sig er þessi málsmeðferð öll dæmigerð fyrir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Nú er verið að reyna að lappa upp á þann bastarð sem meiri hluti Alþingis samþykkti í janúar og forseti Íslands skrifaði undir. Nú væri út af fyrir sig eðlilegt að hafa þetta mál allt saman undir. Það lá ekkert á að lögfesta þann bastarð og nógur tími til að bíða eftir viðbótinni sem fyrir séð var að þyrfti að koma til þess að þarna yrði um gildan lagatexta að ræða og heildstætt frv. Ríkisstjórnin gat ekki farið að því ráði og lagði ofurkapp á að lögfesta EES-málið þrátt fyrir að það væri komið í úrelt form eftir að Sviss sagði sig úr þessum félagsskap. Það liggur reyndar ekki á lögfestingu þessa máls enn þá og við þyrftum auðvitað ekkert að afgreiða þetta mál fyrr en í haust vegna þess að það eru engar líkur til að Evrópskt efnahagssvæði tæki gildi fyrr en um næstu áramót ef það þá gerir það. Það er a.m.k. borin von að Evrópskt efnahagssvæði taki gildi 1. júlí samkvæmt þeim fregnum sem ég hef. Belgía og Spánn verða a.m.k. væntanlega ekki búin að afgreiða málið fyrir sitt leyti þegar þar að kemur.
    Samt sem áður er það að mati ríkisstjórnar Íslands dagaspursmál að klára málið fyrir okkar hönd. Það er ekki hægt að fara þá eðlilegu leið að taka tvíhliða samninginn til umræðu fyrst því hér er ekki um afgreiðslu að ræða heldur einungis að senda bæði málin til hv. utanrmn. Það er ekki aðgerðarleysið núna hjá hæstv. ríkisstjórn. Það er ekki verið að sitja með hendur í skauti um Evrópumálin. Atvinnumálin hins vegar eru látin danka von úr viti og aðgerðarleysi í innanlandsmálum er algjört einkennismerki hæstv. ríkisstjórnar. Hún horfir á atvinnulífið dragast upp og hún horfir á atvinnuleysið vaxa hröðum skrefum. Hún veit af því að skuldir heimilanna munu samkvæmt spá Þjóðhagsstofnunar vaxa um nærri 50 milljarða á þessu ári en hún má ekkert vera að sinna því. Evrópumálin hafa algjöran forgang.
    Frjálshyggjan á að leysa málin innan lands á meðan verið er að fjötra okkur erlendis. Það er að vísu gert ofurlítið ,,fírverkerí`` út af Landsbankanum og reyndar slegnar þar margar flugur í einu höggi. Það er séð til þess að koma skilaboðum til aðila vinnumarkaðarins um að ekki sé svigrúm til kauphækkana og það sé betra fyrir verkalýðshreyfinguna að vera ekki að láta sig dreyma um neitt slíkt jafnframt því að hafa rýmilega heimild þannig að hægt sé að bjarga Íslandsbanka þegar þar að kemur.
    Á meðan allt er að fara um koll innan lands þá er eina úrræðið hjá hæstv. ríkisstjórn að benda á að þetta muni allt saman lagast þegar við verðum orðnir aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Það er vonarstjarnan. Því miður þá er málflutningurinn byggður á blekkingum og Evrópskt efnahagssvæði verður örugglega ekki sá bjargvættur sem hæstv. ríkisstjórn lætur sig hafa að reyna að telja þjóðinni trú um.
    Hæstv. utanrrh. hefur látið það eftir sér illu heilli að fara í þessum ræðustól með algjörlega staðlausar fullyrðingar í útvarps- og sjónvarpsumræðu um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Þar fullyrti hann að samkvæmt varfærnu mati Þjóðhagsstofnunar væri um að ræða 7 milljarða hagnað af samningsgerðinni á ári. Þessar tölur voru auðvitað úr lausu lofti gripnar. Þessar tölur áttu sér engan stað í raunveruleikanum. Þjóðhagsstofnun hafði aldrei látið neitt slíkt frá sér fara og þaðan af síður að hún setti það fram sem eitthvert varfærið mat. Hæstv. utanrrh. lét sig hafa það að leyna því að það mat sem Þjóðhagsstofnun hafði látið frá sér fara miðaðist við að þetta gæti skeð undir aldamót, eftir mörg ár. Svo er verið að reyna að hugga fólkið í landinu í vandræðum sínum, sem sér fram á skuldaaukningu heimilanna upp á nærri 50 milljarða á þessu ári, með svona dúsu.
    Þetta er ekki falleg saga. Meiri hluti Alþingis hefur sagt sitt orð um þetta mál. Meiri hluti Alþingis hefur ákveðið að koma okkur inn á Evrópskt efnahagssvæði og lét sig hafa það að samþykkja bastarðinn í janúar. Ég á svo sem von á því að eins fari fyrir því frv. sem hér er til umræðu og vafalaust skrifar forseti Íslands undir þessi lög líka. Stjórnarskráin vefst ekkert fyrir mönnum. Framtíðarheill þjóðarinnar vefst ekkert fyrir mönnum, nei, nei.
    Það kann að vera að Evrópskt efnahagssvæði verði einhvern tíma að veruleika. En verði það að veruleika, er þar tjaldað til einnar nætur. Önnur ríki Evrópsks efnahagssvæðis eru á fleygiferð inn í Evrópubandalagið og líta á Evrópskt efnahagssvæði sem fordyri Evrópubandalagsins. Það er hugsanlegt að einhverjar Austur-Evrópuþjóðir hafi viðkomustað á þessu Evrópska efnahagssvæði þar sem Íslendingar verða kannski einir eftir þangað til Evrópubandalaginu þykir þær tækar til fullrar innlimunar án þess að það sé að neinu leyti víst. Hitt er aftur á móti víst að hér er um að ræða rangan áningarstað og meira að segja hættulegan áningarstað sem leiðir eingöngu af sér vandræði fyrir íslenskt þjóðfélag.
    Það er eins og þessir menn í ríkisstjórninni og stuðningsmenn þessarar herfarar í stjórnarliðinu geri sér ekki grein fyrir framtíðinni, geri sér ekkert grein fyrir hvernig hér verður umhorfs eftir 30 ár með öllu frelsinu. Við erum að gerast aðilar að evrópsku atvinnuleysissvæði. Við erum að gefa íbúum Evrópsks efnahagssvæðis, eða íbúum evrópsks atvinnuleysissvæðis ef menn vilja hafa það heldur svo, jafnan rétt í flestöllum greinum við okkur hér á okkar landi. Og þetta er allt saman gert á ábyrgð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.
    Ég ætla ekki, frú forseti, að endurtaka mikið af því sem ég sagði þegar samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði var til umræðu hér á hinu háa Alþingi. Sú stefna ríkisstjórnarinnar hefur ekkert breyst að hella okkur ofan í þessi evrópsku vandræði þar sem atvinnuleysið vex, þar sem hagvöxturinn er þverrandi og þar sem vandamálin hrannast upp. Þetta finnst mér engin þjóðhollusta hvað þá heldur framsýni hjá hæstv. ríkisstjórn. Ríkisstjórnin er ákveðin í því að fjötra okkur svo sem kostur er við Evrópubandalagið. Kosti það hvað sem kosta vill. Hún segir eins og skáldið:
       Það er ókeypis allt
       og með ánægju falt ---
       og ekkert að þakka, því gullið er valt!
    Við fáum sáralítið í staðinn fyrir allar þær fórnir og öll þau óþægindi sem við tökum á okkur. Menn víla ekki fyrir sér að brjóta stjórnarskrána og rjúfa sín drengskaparheit. Þeir skerða stjórnarfarslegt fullveldi þjóðarinnar. Þeir afsala að hluta til löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi alveg eins og ekkert sé. Allt skal tilvinnandi til þess að við verðum sem nánast tengd Evrópu.
    Það hefur reyndar ýmislegt skeð síðan í janúar, m.a. það að Evrópubandalagssinnarnir koma nú út úr skápunum hver um annan þveran. Þeir tala miklu berar og lýsa sínum löngunum mikl hreinskilnislegar en þeir gerðu hér fyrir jólin. Fyrstur kom hv. þm. Karl Steinar Guðnason út úr skápnum og lýsti kappi sínu að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Ungir kratar hafa verið að gera svona ályktanir. Hæstv. utanrrh. sagði á blaðamannafundi úti í Danmörku, þegar hann var spurður að því af hverju Íslendingar sæktu ekki um aðild að Evrópubandalaginu eins og aðrar þjóðir á Evrópsku efnahagssvæði, að Íslendingar væru tíu árum á eftir öðrum, þ.e. hann boðaði hinum útlendu blaðamönnum og reyndar einhverjum íslenskum líka að innan tíu ára mundum við nú manna okkur í að stíga það skref að sækja um aðild. En ef þessir menn sem núna stjórna þjóðfélaginu fá að ráða, þá líða engin tíu ár. Þá var þetta varfærið mat hjá hæstv. utanrrh.
    Hv. 3. þm. Reykv. Björn Bjarnason er kominn út úr skápnum og skrifar hverja greinina eftir aðra af sinni alkunnu elju þegar hann þarf ekki að vera að berja á kommúnistum og stríða úti í heimi, eins og hann er núna, eða berja á kommúnistum innan lands. Hann er farin að skrifa hverja greinina eftir aðra um hvað það sé notalegt fyrir okkur og mjög athyglisvert að sækja nú um aðild að Evrópsku efnahagssvæði.
    Hv. 5. þm. Norðurl. v., Vilhjálmur Egilsson, lætur ekki deigan síga heldur og er nú aldeilis kominn út úr skápnum. Hann, sem framkvæmdastjóri Verslunarráðs Íslands, boðaði til sérstakrar ráðstefnu til að ræða það mál hvort Íslendingar ættu að sækja um aðild eða ekki. Og meiri hluti fundargesta var heldur á því að það væri skynsamlegt fyrir okkur að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Hv. 5. þm. Norðurl. v. er eljumaður og skrifar grein í DV í dag sem heitir: ,,Af hverju vilja Svíar í EB?`` Það er verst að hv. þm. er ekki á þinginu í dag, hann er væntanlega að undirbúa nýja ráðstefnu uppi í Verslunarráði, en ég hefði haft ánægju af því að eiga orðastað við hann undir þessum dragskrárlið. ( HG: Hann er að undirbúa komu kengúruhópsins.) Hann er kannski að undirbúa komu kengúruhópsins, vel á minnst og ég kem að því síðar. Hv. þm. segir í þessari grein sinni og hefur það eftir utanríkisviðskiptaráðherra Svía sem heitir Ulf Dinkelspiel að Svíar sæki um aðild vegna þess að þeir vilji taka þátt í að skapa sameinaða Evrópu friðar, framfara og félagslegs réttlætis sem tekur tillit til nágranna sinna og er sér meðvituð um ábyrgð sína

á þróun alþjóðamála. Ja, sér er nú hver lýsingin á Evrópubandalaginu.
    Er þetta það Evrópubandalag sem menn þekkja? Er þetta það Evrópubandalag sem við höfum reynsluna af sem utanríkisviðskiptaráðherra Svía er hér að lýsa? Ég er ansi hræddur um ekki. Það getur vel verið að hæstv. ráðherrar haldi það. Það getur vel verið að hv. þm. Björn Bjarnason haldi það. Það getur vel verið og er ábyggilegt að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson trúir þessu því að hann er hreinskiptinn maður og hefur það fram yfir marga af þessu skápaliði að hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Hann verður að vísu dálítið sár og alveg hissa ef menn fallast ekki á þessar vitlausu röksemdir hans. En allir þessir menn hafa rangt fyrir sér og allir þessir menn eru að stefna framtíð þjóðarinnar í voða. Síðan segir hv. þm. í niðurlagi greinar sinnar þegar hann er búinn að ræða um afstöðu Svía, með leyfi forseta:
    ,,Því hlýtur sú spurning að vakna hvort við þurfum ekki að leita eftir aðild að EB eins og Svíar til þess að fá einhver áhrif á mótun þessara leikreglna og gæta hagsmuna okkar eins og kostur er.``
    Hvernig skyldi svo okkur Íslendingum ganga að hafa áhrif á mótun leikreglnanna? Það vill svo til að við höfum pínulitla persónulega reynslu af því, hv. 5. þm. Norðurl. v. og ég ásamt með öðrum þingmönnum Alþingis sem höfum setið í þingmannanefnd EFTA. Þingmannanefnd EFTA gekk á síðasta fundi frá skipan í sameiginlega þingmannanefnd Evrópsks efnahagssvæðis. Við höfum mætt á jafnréttisgrundvelli innan EFTA og hver þjóð hefur haft fimm fulltrúa. Okkur hefur þar verið sýndur fullur sómi og tekið tillit til skoðana okkar a.m.k. að einhverju marki. Nú er verið að skipuleggja nýja þingmannanefnd og fækka fulltrúunum þannig að í þessari sameiginlegu þingmannanefnd EES og EB er fyrirhugað að verði 33 þingmenn frá hvorum, þ.e. 66 þingmenn í allt. Eftir mikla togstreitu á þessum fundi þar sem hv. 5. þm. Norðurl. v. barðist eins og ljón --- og ég hef ekki trú á því að aðrir íslenskir þingmenn hefðu gert það betur en hann og er mér ánægja að því að lýsa því yfir hér í heyranda hljóði að hann hefur staðið sig með mikilli prýði á þeim vettvangi sem formaður íslensku sendinefndarinnar og naut algers stuðnings okkar Íslendinganna í baráttu sinni --- var gersamlega keyrt yfir okkur. Það sem verið var að togast á um voru fyrst og fremst þau sæti í nefndinni sem losnuðu þegar Sviss gekk úr skaftinu. Við lögðum til að þessum sex sætum sem Sviss hafði verið úthlutað yrði skipt á milli þjóðanna þannig að allir fengju eitthvað og á það féllst undirbúningsnefndin, þ.e. formenn sendinefndanna, að vísu með fyrirvara frá Finnlandi en síðar þegar til fundarins kom var gersamlega keyrt yfir okkur og skiptingin verður ekki á neinum jafnréttisgrundvelli eins og áður var heldur fá Svíar átta, Austurríksmenn átta, Finnar sjö, Norðmenn sex og Íslendingar fjóra, þ.e. til bráðabirgða vegna þess að við eigum að fá að geyma einn fulltrúa sem gengur til Liechtenstein þegar Liechtenstein verður búið að koma sínum málum í lag og gerist aðili að Evrópsku efnahagssvæði. Við biðum náttúrlega algeran ósigur og fengum bara það sem okkur var skammtað í atkvæðagreiðslu og ekkert meir. Ekkert tillit tekið til okkar þrátt fyrir hina drengilegu og vasklegu baráttu hv. þm. Vilhjálms Egilssonar. ( Gripið fram í: Þú hefur ekki stutt hann nóg.) Ég studdi hann eins og ég mögulega gat. Og svo er þessi maður að skrifa 24. mars 1993 og láta í það skína í niðurlagi orða sinna að við gætum kannski komið til með að hafa einhver áhrif á mótun leikreglna í þessu kompaníi. Nei, það er aldeilis ekki.
    Hv. 4. þm. Austurl. minnti á annan atburð sem hér er að dynja yfir. Það er ráðstefna kengúruhópsins svokallaða sem starfar innan Evrópubandalagsins. Það er mikil frjálshyggjugrúppa sem starfar innan Evrópubandalagsins og ætlar að efna til ráðstefnu á Íslandi í vor. Sú ráðstefna er merkileg fyrir margra hluta sakir. Fundarefnið er stækkun Evrópubandalagsins til norðurs, hvorki meira né minna. Og Verslunarráðið býður náttúrlega upp á veitingar og hæstv. utanrrh. býður gesti velkomna. Hæstv. forsrh. verður aðalræðumaður á hátíðarkvöldverði sem er fyrirhugaður og einn hv. þm. ætlar að sitja þar við hringborð og láta ljós sitt skína. Það er hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem ætlar að ræða stækkun Evrópubandalagsins til norðurs. ( Gripið fram í: Er hún komin í kengúruhópinn?) Hún er gestur kengúruhópsins. Hún er ekki meðlimur. Ég get látið ykkur vita af því, góðir þingmenn, að ég ætla að fara á þessa ráðstefnu, ekki til þess að segja frá því hvernig ég vilji berjast fyrir stækkun Evrópubandalagsins til norðurs heldur til að heyra ofan í það hvernig þeir hugsi sér að láta þetta fara fram og hlusta með athygli á hv. 10. þm. Reykv. segja sína skoðun á þeirri hernaðaráætlun.
    Þetta er í fyrsta skipti sem þingmenn Evrópubandalagsins gangast fyrir ráðstefnuhaldi utan vébanda Evrópubandalagsins þannig að hér er um merkan atburð að ræða. Mér þykir ekki ólíklegt þar sem ekki er langt vestur á Sögu að eitthvað eigi eftir að heyrast hér í þingsölum endurómur frá þessari ráðstefnu. ( Forseti: Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann eigi eftir langt mál þar sem lofað hafði verið að utandagskrárumræða hæfist kl. 3.30.) Frú forseti. Ég get svo sem lokið ræðu minni nú á einni mínútu.
    Slagurinn um aðild Íslands að Evrópubandalaginu er hafinn. Það er búið að ná áfanga. Það er verið að fullnusta áfangann, þ.e. ríkisstjórin er að verða búin að koma okkur inn í Evrópskt efnahagssvæði. Næsti áfangi er þegar byrjaður: Slagurinn um það hvort við gerumst aðilar að Evrópubandalaginu, fullir aðilar að Evrópubandalaginu eða látum innlima okkur í Evrópubandalagið, sökkva okkur ofan í Evrópubandalagið. Ég tel það ákaflega óráðlegt og mun halda áfram að berjast gegn því. Það var hneykslast á okkur framsóknarmönnum í síðustu kosningum, t.d. af hæstv. utanrrh., þegar við sögum X-B er nei við EB, en tilfellið var að í síðustu kosningum var teningunum kastað eða hér um bil kastað a.m.k. og á þessu kjörtímabili kemur það til með að ráðast hver framtíðarþróunin verður í málinu. ( Gripið fram í: Og ætlið þið í Framsókn að mótmæla?) Þú skalt spyrja hvern og einn. Ég er á móti.

    Ég tel að ríkisstjórn Íslands sýni ótrúlegan barnaskap. Ég tel að ríkisstjórnin gæti ekki hagsmuna Íslendinga. Nýjasta dæmið um það er ásælni sú sem hæstv. utanrrh. hefur sýnt af sér við að semja af okkur til þess að gefa innflutning landbúnaðarvara frjálsan. Hann óskar eftir því að fá alræðisvald til þess að heimila innflutning landbúnaðarvara til Íslands. Það hefur svo sem verið baráttumál hans og hans flokks um nokkur ár. Ég vona að sjálfstæðismenn sjái að sér og reyni að standa sig í stykkinu. Ég teldi illa komið fyrir íslenskri þjóð ef það vald væri komið í hendurnar á hæstv. utanrrh. Nóg er nú samt.