Lokuð deild fyrir síbrotaunglinga

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 15:48:24 (6411)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Úrræði fyrir börn og unglinga sem leiðast út í afbrot og umræðan um aldursmörk sjálfræðisaldurs eru tvær sjálfstæðar umræður sem ég tel alls ekki sjálfgefið að tengja saman. Báðar eiga fullan rétt á sér. Hins vegar ekki ástæða út af fyrir sig að hækka sjálfræðisaldurinn til þess að koma 16--18 ára unglingum í lokaða vistun. Þar er um ýmsar fleiri leiðir mögulegar að ræða einnig. Jafnframt

er verið að blanda saman að nokkru leyti sakhæfi og sjálfræði.
    Ófremdarástand ríkir í málefnum þeirra unglinga sem hafa lent í afbrotum og það ástand þarf að bæta. Hins vegar verður það ekki gert með einni lausn heldur mörgum, t.d. með auknu forvarnastarfi, bættum aðbúnaði barnaverndarnefnda, en aðeins 10% þeirra njóta þjónustu fagfólks samkvæmt upplýsingum hæstv. félmrh., svo og þarf að veita stóraukna fjármuni í unglingaráðgjöf og neyðarþjónustu fyrir unglinga og þar með talin er að sjálfsögðu lokuð deild. Ég vil einnig nefna vímuefnavarnir og átak gegn einelti sem Alþingi hefur ályktað um að gert verði. Allar þessar leiðir þarf að fara til þess að bæta úr brýnni þörf.
    Hækkun sjálfræðisaldurs er annað mál sem einnig þarf að fjalla um og þá sjálfstætt. Önnur Norðurlönd binda sjálfræðis- og lögræðisaldur við 18 ár en þau gera það með öðrum rökum en þeim einum að þar sé verið að fjalla um hvenær afbrotaunglingar þurfi að komast undir manna hendur. Samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar hafa fullgilt nær skilgreiningin á barni til 18 ára aldurs og í því felst ekki síður að fjölskyldu og samfélagi beri að rækja skyldur sínar við börn og unglinga upp að þessum aldri en sú umræða verður að fara fram á öðrum forsendum en við eiga í dag. Ekki síst þess vegna finnst mér ástæða til að taka upp sjálfstæða umræðu um sjálfræðisaldur.