Evrópskt efnahagssvæði

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 18:55:56 (6419)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að vera að þrefa mikið um EES-málið við þann þingmann sem hér talaði síðast, hv. 4. þm. Austurl., Hjörleif Guttormsson. Í mínum huga er það svipað og að tala við vegginn að reyna að gera það. Ég hins vegar hlýt að spyrja þingmanninn að því hvaða dulda eða opinskáa pólitíska merking felst í því að vera í panel hjá hinum svokallaða kengúruhóp. Ég vil spyrja þingmanninn hvort í því felst einhver meiri pólitísk merking og dýpri en t.d. það að sitja í panel og segja skoðun sína á einhverju máli hjá Verslunarráði Íslands eða taka þátt í fundi hjá Verslunarráði Íslands sem ég reikna með að menn úr hans flokki hafi gert og geri, standi þeim það yfirleitt til boða. Ég reikna með að þeir hefðu ekki fúlsað við því að sitja í panel hjá kengúruhópnum hefði þeim staðið það til boða.
    Þá vil ég líka spyrja hvaða pólitíska merking felist í því að hv. þingflokksformaður og mikill andstæðingur EES, Páll Pétursson, hefur mér vitanlega verið sá eini ásamt Vilhjálmi Egilssyni úr hópi þingmanna sem hafa sótt fundi hjá kengúruhópnum. Hvaða djúpa pólitíska merking felst í því, virðulegur þingmaður?