Evrópskt efnahagssvæði

141. fundur
Miðvikudaginn 24. mars 1993, kl. 18:59:02 (6421)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að þarna á að ræða þá staðreynd að það er verið að færa EB til norðurs. Það á ekki að koma neinum á óvart. Það er ekki nein uppfinning kengúruhópsins. Það er staðreynd að það er verið að færa EB til norðurs og það hafa þau ríki, sem hafa sótt um aðild, staðfest. Það er auðvitað hægt að ræða það mál frá ýmsum hliðum, hv. þm., og leggja ýmislegt inn í þá umræðu. Það geta bæði stuðningsmenn og andstæðingar Evrópska efnahagssvæðisins og Efnahagsbandalagsins gert.
    Þingmaðurinn sagði að ég væri þarna ásamt ýmsum forustumönnum í íslenskum stjórnmálum sem væru að gæla við aðild að Evrópubandalaginu. Nú er einn af þeim sem þarna talar hæstv. sjútvrh. Er Hjörleifur Guttormsson að halda því fram að sjútvrh. Þorsteinn Pálsson sé í þeim hópi sem gælir við aðild að Evrópubandalaginu? Mér vitanlega hefur það aldrei komið fram. Það væri gott ef þingmaðurinn vildi staðfesta það.