Ferða- og risnukostnaður

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 10:35:56 (6424)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Sem svar við fyrri lið fsp. vil ég segja þetta: Sem kunnugt er hefur ríkisstjórnin þegar gripið til ýmissa aðgerða til þess að draga úr risnu- og ferðakostnaði. Nýlega voru kynntar reglur um risnu. Samningar hafa verið gerðir við Flugleiðir og ferðaskrifstofur sem fela í sér lækkun ferðakostnaðar, þ.e. hvort tveggja, Flugleiðir og ferðaskrifstofur, en það felur í sér lækkun ferðakostnaðar og aukið aðhald í ferðalögum ríkisstarfsmanna og unnið er að lækkun bifreiðakostnaðar ríkisins.
    Um miðjan desember sl. voru gefnar út reglur um risnuhald hjá ríkisstofnunum. Tilgangur reglnanna var að auka aðhald að risnu stofnananna og ráðuneyta. Skýr ákvæði er um skilyrði risnuhalds, frágang reikninga og hlutverk Ríkisendurskoðunar við að framfylgja þessum reglum. Í árslok 1992 var gerður samningur við Flugleiðir um fargjöld ríkisstarfsmanna í ferðalögum á vegum ríkisins. Samningurinn fól m.a. í sér eftirfarandi:
    1. Svokölluð bónusstig, sem viðskiptamenn Flugleiða geta áunnið sér með tíðum ferðum, verða eign ríkisins og verður hægt að ná hámarksnýtingu þeirra með því að færa þau á milli starfsmanna og jafnvel stofnana. Sá afsláttur sem bónusstigin fela í sér er meiri til ríkisins en annarra.
    2. Áunninn afsláttur verður eign stofnana og njóta þær þannig beint afsláttarins. Í framhaldi af gerð samningsins við Flugleiðir voru gerðir samningar við fjórar ferðaskrifstofur um afslátt og sérþjónustu við afgreiðslu farseðla fyrir ráðuneyti og ríkisstofnanir. Innkaupastofnun ríkisins sendi fyrirspurn til allra ferðaskrifstofa þar sem óskað var eftir hugmyndum þeirra um hvernig þær gætu þjónustað ríkið þannig að kostnaður lækkaði og að þjónusta væri sem best. Tíu ferðaskrifstofur svöruðu og var ráðuneytum boðið að velja á milli fjögurra þeirra. Hvert ráðuneyti skyldi velja eina ferðaskrifstofu fyrir sig og sínar stofnanir. Samningarnir við ferðaskrifstofurnar eiga m.a. að skila eftirfarandi:
    1. Koma á fram afsláttur af heildarviðskiptum.
    2. Ferðaskrifstofurnar eiga að halda utan um upplýsingar um ferðalög á vegum ríkisins og skila þeim til viðkomandi ráðuneytis og stofnunar. Auk þess sjá þær um ýmiss konar pappírsvinnu sem áður var unnin í ráðuneytum og stofnunum og er því hagræði af því.
    3. Ferðaskrifstofurnar skuldbinda sig til að finna ávallt hagstæðasta fargjald auk þess sem þær sjá um að fara að öllu eftir samningi ríkisins við Flugleiðir.
    Öll ráðuneyti utan eitt hafa gengið frá samningum sínum og hefur framkvæmd þeirra gengið vel það sem af er. Ástæða þess að ákveðið var að beina öllum viðskiptum hvers ráðuneytis og stofnunar þess til sömu ferðaskrifstofu var að með því væri auðveldara að halda utan um áunninn afslátt hjá Flugleiðum og upplýsingar um ferðalög á vegum hvers ráðuneytis. Í fjmrn. er verið að kanna hvort ná megi frekari sparnaði í ferðakostnaði ríkisins, m.a. með samningum við erlend flugfélög um framhaldsflug.
    Í forsendum fjárlaga 1993 er gert ráð fyrir að bifreiðakostnaður ríkisins lækki um 5--10% frá því sem hann var á árinu 1991. Vegna þessa hefur fjmrn. sent öllum ráðuneytum og stofnunum bréf þar sem

óskað var eftir tillögum um það hvernig lækka megi þennan kostnað. Bílanefnd hefur verið falið að halda um þær áætlanir sem berast og fylgjast með árangri. Bifreiðakostnaði ríkisins má skipta í fernt, þ.e. kostnað vegna eigin bíla, leigubíla, bílaleigubíla og bíla í eigu starfsmanna. Innkaupastofnun hefur gengist fyrir útboði á leigubílaakstri og bílaleigum og hefur það skilað verulegum sparnaði á unanförnum árum. Nýlega voru undirritaðir nýir samningar sem fela í sér enn lægri kostnað en þeir sem í gildi voru fyrir. Nokkuð hefur skort á að ríkisstofnanir notfæri sér þá afsláttarsamninga sem eru í gildi en unnið er að frekari kynningu þessara samninga. Þá hafa Ríkisendurskoðun verið kynntir þessir samningar þannig að stofnunin geti við endurskoðun kannað hvort stofnanir ríkisins nýti sér lægsta verð hverju sinni.
    Fyrirhugað er að kanna fleiri möguleika til sparnaðar í bílakostnaði og kemur þá m.a. til álita útboð á bílaþjónustu og rekstur bílamiðstöðva. Einnig er verið að skoða útboð á ýmsum rekstrarvörum fyrir bíla ríkisins.
    Sem svar við annarri spurningu vil ég segja þetta og byrja þá á risnunni. Ekki liggur fyrir hver sparnaður vegna nýrra reglna um risnu verður á þessu ári eða í framtíðinni, en vafalaust mun aukið aðhald leiða til lægri kostnaðar. Mér sýnist, með því að hafa aðeins litið á þetta í fljótheitum, að tilefnum hafi heldur fækkað og dregið hafi úr risnukostnaði af þeim sökum.
    Sé litið til ferðakostnaðarins má áætla að samningarnir við Flugleiðir og ferðaskrifstofur muni lækka ferðakostnaðinn um 30--40 millj. kr. Auk þess má gera ráð fyrir að aukið aðhald með tilkomu þeirra upplýsinga sem samningarnir gera ráð fyrir muni leiða til sparnaðar. Þessar upplýsingar verða einnig mikilvægar til að nota við frekari útboð og samninga vegna ferðalaga ríkisstarfsmanna.
    Þá má geta þess að í tengslum við viðræður fjmrn. við Flugleiðir kynnti félagið nýtt fargjald fyrir þá sem þurfa að ferðast á dýrari flugmiðum, þ.e. á Sagafarrými. Þau fargjöld eru 20% lægri en þau sem fyrir eru og munu væntanlega lækka ferðakostnað ríkisins enn frekar.
    Hæstv. forseti. Að allra síðustu vegna bifreiðakostnaðar. Ef markmið fjárlaga 1993 um lækkun bifreiðakostnaðar ganga eftir mun sparnaður nema 75--150 millj. kr. Ekki hefur verið áætlað hvað útboð eða rekstur bílamiðstöðvar muni spara ef af verður. Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. og reyndar leiðarahöfundi Morgunblaðsins um að það er nauðsyn að taka á þessum málum. Það verður ekki gert í einu átaki heldur verður að gerast jafnt og þétt.