Ferða- og risnukostnaður

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 10:42:54 (6425)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir afar skýr svör og jafnframt það að fram kom í máli hans að nú er verið að taka á þessum málum með ýmsum hætti. Ég geri mér mætavel grein fyrir því að þó að ég hafi lagt áherslu á að það þurfi að draga úr þessum kostnaði, þá er kannski þar hægara um að tala en í að komast. Sannleikurinn er sá að við erum eins og ég sagði stöðugt að tengjast æ alþjóðlegra umhverfi og þar er um að ræða að mínu mati nánast óumflýjanlega þróun. Ég bendi á það að í þessari miklu þrætu sem fram fór um hið Evrópska efnahagssvæði á sínum tíma, þá kom það aldrei fram hjá andstæðingum þeirrar þátttöku að þeir vildu auka á einangrun þjóðarinnar eða hverfa frá samstöðu eða viðskiptum við aðrar þjóðir. Þess í stað bentu menn ýmist í austur eða vestur til aukinnar sóknar, aukinna samskipta og þar með aukinna ferðalaga. Ég segi þetta ekki til þess að gera á nokkurn hátt lítið úr mikilvægi samskipta okkar við aðrar þjóðir, öðru nær. Fremur vil ég nota þetta til að benda á að samfara auknu alþjóðlegu samstarfi þjóðríkja hvort sem það birtist á grundvelli samstarfs þjóðþinga, framkvæmdarvalds eða annars, þá munu slík samskipti hafa í för með sér útgjöld, m.a. vegna ferðalaga sem menn hljóta þó að ætlast til að skili einhverju til baka, helst í margföldu formi á einn eða annan hátt.
    Ég held að það sé hins vegar afar mikilvægt þegar við erum að fjalla um þessi mál þó að við gerum okkur auðvitað grein fyrir því að hér er kannski ekki um að ræða þá litlu þúfu sem veltir hinu stóra hlassi, vegna þess að hér er ekki um að ræða nema lítinn hluta af heildarútgjöldum ríkisins, þá skiptir það hins vegar mjög miklu máli í þeirri þröngu stöðu sem ríkisbúskapurinn er í, að við hugum líka að þessum efnum og þá alveg sérstaklega því að hér er oft og tíðum kannski um að ræða hluti sem ýmsir telja að sumu leyti ranglega um hreinan óþarfa að ræða. Ég held að hér eigi nefnilega við orð sálmaskáldsins Halldórs Péturssonar og það eru mín lokaorð: Hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.