Starfsskilyrði ferðaþjónustunnar

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:14:03 (6437)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Þetta er nú allt hið kostulegasta verð ég að segja. Hér svarar hæstv. ráðherra með því að lesa upp samþykkt, vel rökstudda, frá hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu þar sem eindregið er skorað á stjórnvöld að bæta starfsskilyrði greinarinnar með því að létta af henni sköttum og það rækilega rökstutt sem ég fór reyndar yfir í minni framsögu áðan að það er alveg ljóst að búast má við samdrætti í

ferðaþjónustu á næstu árum ef starfsskilyrði hennar verða ekki bætt. Það er sameiginlegt mat allra þeirra sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál.
    Og hvað gerist svo í framhaldinu 3. sept.? Það er mikilvægt að fá þessar dagsetningar fram. Þær eru það eina sem er hönd á festandi í þessu, það eru dagsetningarnar og svo það að Kjartan Gunnarsson í viðskrn. er í nefndinni.
    3. sept. skipar ríkisstjórnin starfshóp þriggja ráðuneyta., ekki bara tveggja eins og ég hafði nú haldið, þriggja ráðuneyta og þeim er akkúrat uppálagt með erindisbréfi að hafa hliðsjón af þessari samþykkt hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. En hvað gerist svo? Það næsta sem gerist í málinu er að ríkisstjórnin tekur ákvörðun um að leggja virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna. Það er svarið við tilmælum aðila um að lækka skatta í greininni og það eru skilaboðin til nefndarinnar sem er að störfum. Það er nú ekki nema von að það líti ekki út fyrir sameiginlega niðurstöðu í nefndinni eins og hæstv. ráðherra var að gera hér skóna. Reyndar held ég að ég minnist þess ekki að hafa fengið slík skilaboð um starf eins og komu áðan frá hæstv. ráðherra sem sagði: ,,Ekkert bendir til þess að nefndin komist að sameiginlegri niðurstöðu.`` Þetta er nú meira ástandið, verð ég að segja. Ef ekki bregður til betri tíðar í þessu, þá held ég að einhvern veginn verði að koma þessum málum í annan farveg en þann að láta hæstv. samgrh. nudda við þetta, skipa starfshópa og taka við ályktunum og svo gerir ríkisstjórnin eða fjmrn. hið gagnstæða, fer sínu fram og gerir ekkert með þetta sem samgrh. er að fjalla um. Ég held að Alþingi verði þá að taka þessi mál í sínar hendur og leysa samgrh. undan þessari píslarkvöð og þrautagöngu sem hann greinilega er á.