Starfsskilyrði ferðaþjónustunnar

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:16:22 (6438)

     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. sagði að svar mitt væri hið kostulegasta. Það má kannski segja út frá hans sjónarmiði, enda var svarað mjög beint og skýrt og öllu því sem um var spurt án undandráttar svo að það er ekki kostulegt heldur hreinskilið sem þýðir ekki alveg það sama.
    Það er vitaskuld alveg laukrétt að það er samdráttur í ferðaþjónustu. Hann er ekki tilkominn vegna einhverra aðgerða sem á að grípa til síðar meir á næsta ári heldur af öðrum sökum vegna þess að það opnast ný landsvæði sem ferðamenn eru forvitnir að komast inn í og geta farið þar frjálsir ferða sinna, í Austur-Evrópu, austan múrsins mikla sem menn þurftu áður að hafa sérstakar heimildir til að fara til sem hv. fyrirspyrjandi er kunnugri en ég hvernig var háttað.
    Eins er það svo að ýmis önnur lönd eins og Finnland nú svo að ég taki eitt Norðurlanda er auðvitað mun ódýrara en áður og þeir sem vinna í ferðaþjónustu hafa einmitt orð á því að að þessu leyti sé Ísland orðið dýrt og öðruvísi en áður. Það kom raunar fram á ráðstefnu um ferðamál sem fyrir skömmu var haldin í Berlín og raunar líka í september á ferðaráðstefnunni á Akureyri að það er mikil forvitni á ferðum til Íslands en versnandi efnahagur í helstu viðskiptalöndum okkar veldur því að minna er um pantanir en búist hafði verið við.
    Ég vil minna á að ferðaþjónustan nú á þessu ári býr við minni skatt en áður. Það hafa verið felld niður aðstöðugjöld á ferðaþjónustu og til stendur að lækka tryggingagjald þannig að það að fækkað hafi ferðamönnum til landsins á síðasta ári og e.t.v. á þessu á ekkert skylt við það sem hv. þm. talaði mest um.