Bótaréttur atvinnulausra í veikindum

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:22:14 (6440)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það svar sem ég flyt byggist á áliti lögfræðinga þeirra sem fjallað hafa um atvinnuleysismál í heilbrrn. um margra ára skeið. Fyrri fsp. hv. þm. hljóðar svo: ,,Á hvaða lagaheimild byggist sú framkvæmd að greiða ekki atvinnuleysisbætur fyrir veikindadaga þó bótaþegi njóti ekki sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins?``
    Svarið við þessari spurningu er svohljóðandi: Frá upphafi hafa verið skýr ákvæði um það í lögum um atvinnuleysistryggingar að þeir sem njóta sjúkrabóta samkvæmt almannatryggingalögum fái ekki atvinnuleysisbætur. Þá voru í fyrstu lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 29/1956, ákvæði um það að bætur greiddust ekki þeim sem væru ófærir til vinnu eða neituðu vinnu sem þeim bauðst að tilhlutan vinnumiðlunarskrifstofa. Ákvæði þetta var óbreytt fram til 1981 er lögin voru endurskoðuð öðru sinni. Þá var orðalagi breytt í þá veru að bætur greiddust ekki þeim sem voru ófærir til vinnu af heilsufarsástæðum. Í greinargerð með frv. er þetta ákvæði sagt efnislega samhljóða eldra ákvæði sem eingöngu kvað á um að viðkomandi væri ófær til vinnu. Af þessu er ljóst að eitt skilyrði bótaréttar er að hlutaðeigandi sé vinnufær af heilsufarsástæðum. Þetta kemur skýrt fram í áður tilvitnuðum 5. tölul. 21. gr. Sömuleiðis kemur þetta fram í 17. gr. þar sem segir að sá sem hafi áunnið sér rétt til bóta verði að hverfa frá vinnu vegna veikinda haldi þeim bótarétti þegar hann verður vinnufær á ný, enda sanni hann veikindi með læknisvottorði, svo og vinnuhæfni sína ef hann sækir um atvinnuleysisbætur að loknum veikindum.
    Í 20. gr. er einnig vikið að afleiðingum þess að umsækjandi getur ekki látið skrá sig vegna veikinda og skal hann þá skrá sig næsta dag sem honum er unnt að viðlögðum missi bóta. Ástæðan fyrir þessu er augljós. Atvinnuleysisbætur eru eingöngu ætlaðar þeim sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit. Veikur maður er ekki í atvinnuleit þá daga sem hann er veikur og getur því ekki sinnt atvinnutilboði eða tilboðum sem honum bjóðast meðan á veikindum stendur.
    Í öðru lagi var spurt: ,,Hvernig er háttað bótarétti þegar atvinnulaust foreldri kemst ekki til vikulegrar skráningar vegna veikinda barna?``
    Svarið hljóðar svo: Hér að framan var vikið að afleiðingum þess þegar bótaþegi getur ekki sinnt vikulegri skráningarskyldu hjá vinnumiðlun vegna veikinda. Lögin gera ekki ráð fyrir því að aðrar aðstæður en veikindi bótaþega sjálfs hindri hann í að koma til skráningar. Í framkvæmd hefur þetta ákvæði þó verið túlkað svo að ef bótaþegi kemst ekki til skráningar vega veikinda barns eða barna, þá gildi sömu reglur og ef hlutaðeigandi sjálfur væri veikur.
    Enn er hér rétt að ítreka tilgang atvinnuleysisbóta. Þær eru ætlaðar þeim einstaklingum sem eru atvinnulausir og í atvinnuleit. Ef bótaþegi er bundinn heima, annaðhvort vegna veikinda sjálfs sín eða veikinda barns eða barna er hlutaðeigandi þá daga ekki í atvinnuleit og uppfyllir því ekki skilyrði laganna um bótarétt. Samantekt lögfræðinganna hljóðar svo:
    ,,Réttur til atvinnuleysisbóta hefur frá því að fyrstu lögin um þetta efni gengu í gildi verið með ótvíræðum hætti bundin því skilyrði að hlutaðeigandi væri vinnufær af heilsufarsástæðum. Skilyrði greiðslu atvinnuleysisbóta hefur ætíð verið það að hlutaðeigandi sé atvinnulaus og í atvinnuleit og geti sinnt þeim vinnutilboðum sem honum kunna að bjóðast fyrir milligöngu vinnumiðlunar. Tilgangur vikulegrar skráningar er tvíþættur. Annars vegar sá að viðhalda bótaréttindum og hins vegar sá að bótaþegi gefur með því til kynna að hann sé enn í atvinnuleit og geti fylgt eftir hugsanlegum atvinnutilboðum. Bótaþegi sem er veikur er ekki í atvinnuleit þann tíma sem veikindin vara. Sama gildir um bótaþega sem bundinn er heima vegna veikinda barns eða barna.``
    Við þetta vil ég bæta að það er rétt sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda að þær fjölmörgu úthlutunarnefndir sem starfa beita nokkuð mismunandi skilningi um ýmis framkvæmdaratriði í sambandi við greiðslu atvinnuleysisbóta. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er nú að gera átak til þess að samræma þessa túlkun, en það er enginn vafi á því að rétt túlkun og rétt framkvæmd laganna eins og þau eru úr garði gerð hér á hinu háa Alþingi er sú sem hér var lýst. Sá einn getur notið bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem sannanlega er í atvinnuleit og getur tekið atvinnutilboði ef honum skyldi bjóðast það.