Skráning og bótaréttur atvinnulausra

142. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:41:14 (6445)

     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Mér finnst það bera vott um að hæstv. ráðherra hafi vondan málstað að verja þegar hann þarf í báðum svörum að koma upp með sama dæmið um eitthvert tiltekið fólk sem hafi verið erlendis þegar það átti að vera skráð atvinnulaust og mæta þá væntanlega vikulega til skráningar og þannig væri nú framkvæmdin í þessum málum. Mér finnst að þegar menn tönnlast á slíkum hlutum þegar um mál eins og þetta er að ræða beri það vott um að þeir hafi vondan málstað að verja og auðvitað hefur ráðherrann það og ég vorkenni honum það vissulega.
    Ráðherra sagði að það væri víða hér í kringum okkur að fólk þyrfti að mæta til daglegrar skráningar. Þannig væri það víðast hvar í lögum. Mér er vel kunnugt að sums staðar er það mánaðarlega, sums staðar er það hálfsmánaðarlega. Það er allur gangur á því, hæstv. ráðherra. Og ég vil beina því til hans og annarra ráðherra sem með þetta mál fara hvernig þeir ætla að haga sér á hinu Evrópska efnahagssvæði þegar það verður að veruleika. Samkvæmt því og samkvæmt þeim lögum sem við erum að samþykkja hér getur atvinnulaus einstaklingur farið í annað land, leitað sér þar að vinnu í þrjá mánuði og fengið greiddar bætur. Hvernig ætla þeir að fara með þetta? Ætla þeir að passa upp á það að Íslendingur sem fer til Spánar mæti akkúrat á sama vikudegi til skráningar þar einu sinni í viku? Hvernig hafa menn hugsað sér framkvæmd þessara hluta? Þetta held ég að menn verði að fara að taka til skoðunar ef þeir meina eitthvað með því að það eigi að vera frjálst flæði vinnuafls á milli þessara landa.
    Þá vil ég segja að mér fannst ekki koma fram hér í svari ráðherra einhver óyggjandi túlkun eða merking á hugtakinu ,,vikulega`` því að ég held að í hugum okkar flestra geti vikulega alveg eins verið þessar númeruðu vikur, að maður geri eitthvað einu sinni í hverri númeraðri viku ársins. Mér finnst þetta því ekki vera óyggjandi túlkun og ég furða mig á því ef ekki hafa fallið einhverjir dómar vegna túlkunar á þessum lögum. Það er þá ábyggilega orðið tímabært að farið væri með slík mál fyrir dómstóla til þess að fá einhverjar túlkanir.