Ólympískir hnefaleikar

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 11:48:11 (6447)

     Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir það tækifæri að fá að flytja framsöguræðu á þessum fundi og mun miða hana við að hún standi ekki lengur en til kl. 12.
    Ég mæli hér fyrir till. til þál. um ólympíska hnefaleika á þskj. 682 sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þriggja manna nefnd til þess að kanna hvort rétt sé að leyfa ólympíska hnefaleika sem íþróttagrein hér á landi.
    Nefndin skal afla upplýsinga um keppnisreglur, slysatíðni miðað við aðrar ólympískar íþróttagreinar og með hvaða skilyrðum ólympískir hnefaleikar eru leyfðir erlendis. Að fengnu áliti Íþróttasambands Íslands skili nefndin tillögum til ríkisstjórnarinnar. Nefndin ljúki störfum fyrir nk. áramót.``
    Með þessari tillögu fylgir svohljóðandi greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Allt frá árinu 1956 hafa hnefaleikar verið bannaðir hér á landi en fram að þeim tíma voru þeir allnokkuð iðkaðir. Rétt er að gera skýran greinarmun á ólympískum hnefaleikum og atvinnumannahnefaleikum sem stundaðir eru m.a. í Bandaríkjunum. Reglur og öryggiskröfur eru afar ólíkar, m.a. er skylt að nota höfuðhlífar í ólympískum hnefaleikum og hver leikur stendur í þrjár lotur í stað allt að tólf lotum í atvinnumannahnefaleikum. Einungis er lagt til að athugað verði hvort tímabært sé að aflétta banni við hnefaleikum samkvæmt þeim keppnisreglum sem gilda á Ólympíuleikum.
    Samkvæmt tiltækum upplýsingum er ekki vitað til þess að ólympískir hnefaleikar séu bannaðir erlendis og geta má þess að í Svíþjóð var farið fram á það 1983 að þessi íþróttagrein yrði bönnuð. Þá fór fram ítarleg könnun og var gerð skýrsla um ólympíska hnefaleika. Niðurstaða Svía var greininni mjög jákvæð.

    Í ljósi þess og þeirrar staðreyndar að umtalsverður hópur ungmenna hefur áhuga á því hérlendis að iðka ólympíska hnefaleika þykir rétt að fram fari skipuleg upplýsingaöflun um þessa íþrótt og að leitað verði álits Íþróttasambands Íslands; verði niðurstaða nefndarinnar jákvæð verði í framhaldi af því gerð tillaga um að leyfa ólympíska hnefaleika sem keppnisgrein.``
    Almenna lagaumgerð um íþróttagreinar hér á landi er að finna í lögum sem nefnast íþróttalög. Þar kemur fram að íþróttagreinar eru leyfðar. Við búum því við þá lagalegu stöðu að allar íþróttagreinar sem menn iðka hér á landi eða kunna að taka upp síðar eru leyfðar nema þær verði sérstaklega bannaðar með sérstökum lögum. Eina frávikið frá þessu eru hin sérstöku lög nr. 92 frá 1956, sem banna hnefaleika. Mér þykir rétt að fram fari skipuleg athugun á því hvort þessi undantekning frá reglunni eigi rétt á sér á þeim tímum sem nú eru í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa frá þeim tíma á keppnisreglum og í ljósi þess að þetta er afar vinsæl íþróttagrein erlendis. M.a. má geta þess að á Ólympíuleikunum 1988 sendu 140 lönd keppendur í ólympíska hnefaleika sem kepptu í 12 mismunandi þyngdarflokkum en samtals voru keppendur 450 frá þessum 140 löndum eins og fyrr greinir.
    Ég vil aðeins víkja að því að ástæðan til þess að ég tel rétt að málið verði tekið til athugunar er að gögn erlendis, þar sem menn hafa verið hvað gagnrýnastir á þessa íþróttagrein, hafa leitt í ljós aðra niðurstöðu en menn byggðu sína afstöðu á árið 1956. Þá var m.a. að finna í röksemdum manna fyrir því að banna þessa keppnisgrein að menn hefðu gögn sem sýndu að allstór hluti þeirra sem iðkuðu hnefaleika biðu af því varanlegt og óbætanlegt tjón, í öðru lagi að keppendur sem stunduðu þessa íþróttagrein yrðu árásargjarnir og dómgreind þeirra brenglaðist og í þriðja lagi voru efnislegu rökin þau að það væri hægt að veita þyngri högg með svokölluðum hönskum eða glófum en með berum höndum.
    Ég hef aflað mér skýrslu um þetta mál frá Svíþjóð þar sem, eins og fyrr greindi, voru allnokkrar umræður fyrir nokkrum árum hvort ætti að banna þessa íþróttagrein eða ekki og í framhaldi af þeirri umræðu var gerð mjög ítarleg könnun um áhugamannahnefaleika. Þar var gerð könnun á þremur hópum íþróttamanna. Í fyrsta lagi hnefaleikamönnum sem höfðu keppt um tíma en höfðu allir hætt keppni þegar könnunin fór fram. Í öðru lagi var valinn hópur knattspyrnumanna og í þriðja lagi hópur frjálsíþróttamanna. Á þessum þremur hópum voru gerðar allvíðtækar læknisfræðilegar og félagslegar rannsóknir og til að stýra þeim voru fengnir sérfræðingar frá Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð. Þær deildir innan stofnunarinnar sem stóðu að þessari skýrslugerð voru m.a. bæklunarskurðlækningadeild, íþróttalækningadeild og klínísk taugaeðlisfræðideild og taugageislalækningadeild. Það er skemmst frá því að segja að niðurstaða þessara sérfræðinga varð sú að það væru engin merki þess að þeir sem iðkað höfðu hnefaleika í þessu formi hefðu orðið fyrir heilaskaða eða líkamlegum spjöllum umfram aðra hópa, knattspyrnumenn og frjálsíþróttamenn, og reyndar engin merki þess að þeir hefðu beðið neitt tjón á sál eða líkama.
    Mér þykja þetta afar athylgisverðar niðurstöður sem eru framkvæmdar af gagnrýnum sérfræðingum. Þær hnekkja í raun og veru þeim efnislegu forsendum sem lögin frá 1956 byggja á og leiða að mínu viti til þeirrar niðurstöðu að eðlilegt sé að taka málið upp til athugunar. Við flm. viljum fara varlega af stað í þeim efnum og teljum því rétt að sinni að athugun fari fram en ekki að skrefið verði stigið til fulls heldur verði ákvörðun um hvort tillaga verði lögð fram um að greinin verði leyfð tekin á grundvelli þeirrar athugunar sem fram á að fara.
    Á þeim tíma sem þetta frv. var hér til meðferðar 1956 bárust mótmæli frá Íþróttasambandi Íslands sem mótmælti því harðlega og benti á athuganir sem fram höfðu farið á öllum Norðurlöndunum nema Íslandi á iðkendum hnefaleika, bæði læknisfræðilegar og félagslegar athuganir. Upplýsingar úr þeim athugunum bentu til hliðstæðrar niðurstöðu og hefur verið staðfest í sænsku skýrslunni frá 1990. Á þeim tíma var því ágreiningur um þetta af hálfu íþróttahreyfingarinnar við löggjafarvaldið og íþróttahreyfingin tefldi fram rökum í málinu. Það gefur líka tilefni til þess að taka málið til athugunar.
    Það sem ég vildi leggja áherslu á, virðulegi forseti, á þeim fáu mínútum sem ég ætla mér til að mæla fyrir tillögunni er að það skiptir máli eftir hvaða reglum menn leyfa íþróttagreinar. Það á ekki bara við um ólympíska hnefaleika heldur á það líka við um aðrar íþróttagreinar eins og knattspyrnu, handknattleik, júdó, karate, skylmingar og fleira má nefna sem eru allar leyfðar hér á landi og menn hafa séð að eru fjarri því að vera hættulausar. T.d. mátti þeir sjá það sem fylgdust með útsendingum á síðustu heimsmeistarakeppni í handknattleik að meiðsl iðkenda voru alltíð og leikurinn mjög harður og keppendur óragir við að gefa hver öðrum mikil og þung högg.
    Þær reglur sem gilda í svokölluðum ólympískum hnefaleikum, eða áhugamannahnefaleikum, eru í megindráttum þær að hver hnefaleikari þarf að halda sérstaka keppnisskrá, hafa sérstaka bók sem hann færir inn í allar sínar keppnir, læknisrannsóknir og fleira sem máli skiptir til að hafa yfirlit yfir hans keppnisferil og heilsufar. Í öðru lagi eru mjög strangar reglur um leikinn sjálfan, bæði búnað keppenda og hvernig leikurinn fer fram. Fyrir utan dómara sem getur stöðvað leikinn hvenær sem honum hentar, þá er einnig læknir viðstaddur hverja keppni sem getur gripið fram fyrir hendur dómara og stöðvað leik ef honum þykir þess þurfa. Verði keppandi fyrir því að leikur er stöðvaður af því að talið er að hann geti ekki haldið áfram keppni, þá fer hann sjálfkrafa í keppnisbann og læknisrannsókn, sem er afar ítarleg, og fær ekki að hefja keppni að nýju fyrr en að henni lokinni og þá með jákvæðri niðurstöðu. Verði menn fyrir því öðru sinni, þá fara þeir í þriggja mánaða bann með sömu skilmálum og verði þeir fyrir því þriðja sinn að geta ekki lokið keppni, þá fara þeir í eins árs bann með sömu skilmálum um læknisrannsókn o.fl. Einnig eru

allir keppendur sem hafa náð því að keppa fleiri en 50 leiki sjálfkrafa sendir í ítarlega læknisrannsókn sem tekur bæði til líkamlegs og andlegs atgervis. Það skiptir því máli hver umgerðin um leikreglur er við mat á því hvort greinin er hættuleg eða ekki.
    Í sænsku skýrslunni sem ég gat um eru dregnar saman upplýsingar erlendis frá um slysatíðni og dánartíðni. Það kemur m.a. fram að slysatíðni í hnefaleikum er minni en t.d. í skíðaíþróttum, knattspyrnu, amerískum fótbolta, ,,rugby``, ísknattleik og mótorhjólakeppni. Dánartíðni er lægri en í kappreiðum, fallhlífarstökki, svifdrekaflugi, fjallaklifri, köfun, mótorhjólakeppni og amerískum fótbolta. Það er því ljóst að það er fjarri því að um sé að ræða keppnisgrein sem ber af öðrum hvað varðar slysatíðni eða dauðsföll.
    Þessar upplýsingar eru enn ein röksemdin fyrir því að taka málið til athugunar og safna gögnum um þessa íþróttagrein svo menn geti tekið afstöðu á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga.
    Ég vil svo, virðulegi forseti, að lokum láta það koma fram að niðurstaða skýrsluhöfunda var mjög athyglisverð hvað varðar félagslega afstöðu þeirra sem höfðu iðkað hnefaleika í Svíþjóð. Hún var sú, fyrir utan það sem áður greinir, að þeim virtist hafa gengið að mörgu leyti betur að koma sér fyrir í lífinu en öðrum ungmennum. Það kom í ljós hærri tíðni meðal hnefaleikaiðkenda sem höfðu neytt áfengis eða vímuefna áður en þeir hófu keppni en er meðal ungmenna sem hófu keppni í öðrum íþróttagreinum. Þeir höfðu látið af þessari notkun þegar þeir hófu keppni og ekki tekið hana upp á nýjan leik þegar þeir luku sínum keppnisferli og virtust hafa komið sér í mjög gott andlegt jafnvægi og lifðu mjög eðlilegu þjóðfélagslegu lífi. Á ensku er tekið þannig til orða að ,,they all lived a socially well arranged life``. Þeirri kenningu er varpað fram að hnefaleikaiðkunin með þeim kröfum sem hún gerir til keppenda hafi leitt það af sér að þeir náðu betri tökum á skapgerð sinni og andlegum styrk en áður en þeir hófu keppni. Það þykir mér mjög athyglisverð niðurstaða sem satt að segja kom mér mjög á óvart.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umr. og hv. menntmn. og láta þess getið að ég hef gert ráðstafanir til þess að fá fleiri skýrslur erlendis frá um þetta efni og mun koma þeim til nefndarinnar þegar þær berast.