Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 12:40:02 (6449)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki nauðsynlegt að hafa mörg orð um þessa tillögu. Efnislega er hér lagt til að Alþingi hefji undirbúning að samningi milli Íslands og Evrópubandalagsins og viðræður hefjist hið fyrsta. Um þetta er það að segja að undirbúningur að samningum við Evrópubandalagið, milli Íslands og þess, um viðskiptaþátt EES-samningsins er löngu hafinn og reyndar lokið. Viðræður um hvernig form þeirra samninga verði ef og þegar hin EFTA-ríkin hafa gengið í Evrópubandalagið eru löngu hafnar líka. Hér er því verið að vísa til sjálfsagðra hluta sem eru í vinnslu, þegar lokið eða hafnir.
    Samt sem áður er ástæða til þess að vara við einu. Ef menn eru að reyna að vekja upp þá hugmynd að það eigi að byrja upp á nýtt tvíhliða samninga við Evrópubandalagið þá eru menn væntanlega að setja þar á oddinn óskir um markaðsaðild fyrir sjávarafurðir og hugsanlega fríverslun með sjávarafurðir, þá vita menn hver stefna Evrópubandalagsins er í tvíhliða samningum. Hún er að vísa til sameiginlegrar fiskveiðistefnu og heimta veiðiheimildir í staðinn fyrir markaðsaðgang. Ástæðan fyrir því að miklu betri árangur náðist í EES-samningunum var sú að fórnarkostnaður sem tryggði jafnvægið í samningunum var greiddur af bandalagsþjóðum okkar.
    Hér gæti því tillagan vakið margvíslegan misskilning sem ég vona hins vegar að sé ekki fyrir hendi. Menn gera sér ljóst að samningsniðurstaðan í EES-samningunum var miklu hagstæðari Íslendingum einmitt vegna þess að við höfðum ekki farið í tvíhliða samning á þessum grundvelli. Ég minni á að fjölmargar ríkisstjórnir hafa reynt árum saman að bæta bókun 6 í tvíhliða viðræðum og árangur verið enginn.
    Út af fyrir sig er ekki mikið meira um þetta að segja. Það hafa farið fram viðræður um formbreytingu samningsins við forsvarsmenn Evrópubandalagsins, ekki einu sinni, ekki tvisvar heldur þrisvar, fjórum sinnum. Í tvígang við Andriessen, þáv. utanríkisráðherra EB, því næst við þá sem gegnt hafa forustu Evrópubandalagsins, Douglas Hurd í desember sl., því næst Henning Christophersen í byrjun febrúar og nú loks fyrir nokkrum dögum við Hans van den Broek. Það liggja fyrir fundargerðir af öllum þessum viðræðum og öllum ber þessum fulltrúum Evrópubandalagsins saman um það að ef EFTA leggst niður, þá sé einfalt mál að semja um stofnanaþáttinn upp á nýtt en Íslendingar megi ganga út frá því sem gefnu að samningsskuldbindingar og réttindi EES-samningsins haldist þótt formið breytist í tvíhliða samning.