Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 12:43:12 (6450)


     Flm. (Steingrímur Hermannsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér þótti heldur leitt að heyra upphafsorð hæstv. utanrrh. sem ég get ekki tekið öðruvísi en hálfgerðan útúrsnúning og hlýt að lesa tillögugreinina eins og hún er, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að stefnt skuli að því að ná tvíhliða samningi við Evrópubandalagið, fyrst og fremst á grundvelli viðskiptahluta þess samnings sem fyrir liggur um Evrópskt efnahagssvæði. Því felur Alþingi ríkisstjórninni að hefja undirbúning að slíkri samningsgerð og fara þess á leit við framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins að viðræður hefjist hið fyrsta.``
    Það væri fróðlegt að heyra frá utanrrh. nánar hvað hann telur að framhaldið verði þegar hin ríkin eru komin inn. Svo langar mig til að heyra, fyrst hann segir nú að það séu engin vandræði með að ná tvíhliða samningi og hann hafi rætt þetta við van den Broek og Andriessen og fleiri, sakar þá að Alþingi marki þessa stefnu svo að hún liggi örugglega fyrir? Ég get ekki séð annað en það ætti að styrkja hæstv. utanrrh. í þeirri viðleitni hans að undirbúa slíkan tvíhliða samning.
    Ég er sammála því að slíkur tvíhliða samningur hlýtur að byggjast á viðskiptahluta EES-samningsins en ég vil alls ekki taka undir það að viðskiptahlutinn geti ekki tekið einhverjum breytingum. Hæstv. utanrrh. varpar fram þeirri grýlu að þeir muni heimta veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar. Hafa þeir ekki þegar fengið þær? Eru þeir ekki að fá þær með sérstökum samningi? Ég sé ekki nokkra ástæðu til að ætla að við þyrftum að veita þeim frekari veiðiheimildir. A.m.k. væri þá nauðsynlegt að hafa það svart á hvítu áður en lokadægur EES rennur upp og menn standa frammi fyrir því að þurfa að breyta samningunum.