Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 12:45:15 (6451)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er um það bil ár síðan viðræður voru teknar upp við æðstu menn Evrópubandalagsins um það hvort og hvernig EES-samningurinn að því er Ísland varðar gæti breyst í tvíhliða samning ef og þegar hin ríkin í EFTA hefðu gengið í Evrópubandalagið. Nú er það svo að enginn getur slegið neinu föstu um hvort það verður né hvenær það verður. Á það lagði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ríka áherslu í ræðu sinni hér í gær. Engu að síður voru þessar viðræður teknar upp í tvígang við utanríkisráðherra Evrópubandalagsins, Andriessen, við þá sem gegndu forustu Evrópubandalagsins á seinasta formennskutímabili og því núverandi, þ.e. Douglas Hurd og Niels Helveg Petersen, utanríkisráðherra Dana, og nú fyrir nokkrum vikum við hinn nýja utanríkisráðherra EB, Hans van den Broek.
    Fundargerðir af þessum viðræðum liggja allar fyrir og efnislega eru svörin þessi: Við sjáum enga ástæðu til annars en Ísland mundi í þessu tilviki, sem er hins vegar ,,hypótetískt`` í framtíðinni, halda réttindum sínum og skuldbindingum gagnvart þessum samningi. Ef EFTA hins vegar leggst af, þá segir sig

sjálft að við mundum leggja niður dómstól og eftirlitsstofnun EFTA og semja um stofnanaþáttinn upp á nýtt. Þá má spyrja: Hvers vegna er ekki gengið frá þessu nú þegar? Og svarið við því er mjög einfalt. Það er samdóma mat manna að það sé ótímabært fyrr en fyrir liggur að EES-samningurinn sé kominn í gildi. Þess vegna er ekki unnt að taka slíkar viðræður upp fyrr en það liggur fyrir. Það er meira að segja að mínu mati varasamt að gera það vegna þess að þá gætum við verið að kalla yfir okkur opnun á tvíhliða grundvelli sem gæti orðið okkur afar óhagstætt.