Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 13:04:04 (6454)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Frsm. þessarar tillögu hefur lagt á það áherslu að tilgangurinn með flutningi hennar sé að eyða óvissu í samskiptum Íslands og Evrópubandalagsins. Í hverju felst sú óvissa? Hún felst í því hvort EES-samningurinn tekur gildi. Ef EES-samningurinn tekur gildi þá er óvissunni eytt, þar á meðal um viðskiptaleg samskipti Íslands og Evrópubandalagsins. Hið næsta er, hversu lengi stendur þessi samningur í gildi? Um það er óvissa sem enginn getur fullyrt um á þessu stigi máls, það gætu verið tvö ár, það gæti orðið lengri tími. Þegar hér er flutt tillaga um að taka upp samningaviðræður við EB um það sem er búið að semja við þá um, þ.e. viðskiptaþátt EES, þá er það óþarft vegna þess að það er búið að ljúka því verki. Þegar síðan er ályktað um að viðræður hefjist hið fyrsta um hvað taki við í framhaldi af EES, þá er svarið þetta: Viðræður um það eru þegar hafnar eins og ég hef þegar margoft lýst, en samningaviðræður um það verða ekki teknar upp fyrr en EES-samningurinn er genginn í gildi. Svo einfalt er það vegna þess að það er ekki um neitt að semja um breytingar á viðskiptaþætti EES-samningsins ef sá samningur er ekki kominn í gildi. Og allar hundakúnstir hv. 8. þm. Reykn. til þess að flækja og þvæla þetta einfalda mál breyta engu um það. Þetta er ákaflega einfalt. Þess vegna er þetta ótímabært og reyndar óþarft, kannski saklaust og skaðar ekki þótt því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.