Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 13:07:03 (6456)

     Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki efni til að vera með efnislegt andsvar við ræðu hv. 8. þm. Reykn. Það sem ég hef hlustað á af umræðunni sem hefur átt sér stað nú og í gær hefur mjög verið endurtekning á því sem við erum búin að fara í gegnum áður. Hins vegar vil ég árétta þá skoðun okkar alþýðuflokksmanna að við erum mjög sannfærð um það að við munum standa eftir með góðan tvíhliða samning eftir EES-samninginn ef fer svo sem horfir og hv. þm. vísar í.
    Hins vegar kom ég upp til að taka af allan vafa um það að hv. þm. Alþfl. Karl Steinar Guðnason gegnir trúlega einhverju veigamesta embætti utan ráðherrahóps sem hægt er að hafa og nýtur mikils trausts okkar þingmanna Alþfl.