Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

143. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 13:08:07 (6457)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að það hefur verið staðfest að ég fór rétt með þegar ég taldi hv. þm. Karl Steinar Guðnason vera áhrifamestan utan ráðherrahóps Alþfl. En hitt var hins vegar rangt hjá hv. þm. að þingmenn Alþfl. væru fullvissir um það að Íslendingar mundu standa eftir með góðan tvíhliða samning í kjölfar EES því einmitt margnefndur þingmaður Karl Steinar Guðnason hefur talið alveg sérstaklega nauðsynlegt að lýsa annarri skoðun, þannig að það er alveg ljóst að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talar ekki í þessum efnum fyrir hönd hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar vegna þess að hann er engan veginn sáttur við það að samskiptum Íslands og EB verði skipað með tvíhliða samningi, það hefur hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagt alveg ótvírætt. Meira að segja hér í ræðustól á Alþingi. Hann vill hefja aðildarviðræður að EB. Það er dálítið merkilegt að hæstv. utanrrh. hefur ekki séð ástæðu til þess að koma mér vitanlega hér upp í ræðustólinn til þess að tilkynna samflokksmanni sínum, formanni fjárln., að slíkt sé ekki tímabært. Fyrst verði a.m.k. EES að taka gildi, þar með að ávítanir um að ekki sé tímabært að tala við EB eiga greinilega bara við þegar verið er að tala um tvíhliða samning en ekki um aðildarviðræður. Svo það verður ekkert hægt að eyða þeirri staðreynd að þessi áhrifamesti þingmaður Alþfl. utan ráðherra er ekki sammála því að Íslendingar eiga að láta sér nægja tvíhliða samning í kjölfar EES. Hann vill beina aðild að EB.