Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 14:18:28 (6464)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. utanrrh. upplýsti hér að hann hefði oft rætt þetta mál við forustumenn Efnahagsbandalagsins og þá met ég það svo að hann hafi ekki talið mjög hættulegt að gera það og fagna ég því. Það er hins vegar mikill munur á því hvort það er gert með þeim hætti eða það er beðið um það formlega og í því felist mat Íslands á því að EFTA eigi ekki framtíð fyrir sér. Það er vissulega alveg rétt að það er óvissa um það hvort EES-samningurinn gengur í gildi. Hins vegar teldi ég nú ástæðu fyrir hæstv. utanrrh. að hafa meiri trú á því en hér kom fram.
    Hins vegar er ég ekki sammála því mati hæstv. utanrrh. að þetta muni bara gerast sjálfkrafa og það þurfi ekki að hafa neinar sérstakar áhyggjur af því. Er ekki ástæða til þess, hæstv. utanrrh., fyrir okkur Íslendinga að fara fram á breytingar í ýmsum efnum að því er varðar EES-samninginn okkur í hag þannig að væntanlegur tvíhliða samningur milli okkar og EB verði okkur hagstæðari? Ég leyfi mér að vona að ég hafi þá misskilið hæstv. utanrrh. þegar hann sagði að þetta muni bara gerast sjálfkrafa og eftirlitsstofnunin og dómstóllinn sem varla geta gengið undir því nafni að það sé um dómstól að ræða, það muni leggjast af og allt annað verði óbreytt. Það er ekki fullnægjandi niðurstaða fyrir okkur Íslendinga og þess vegna þurfum við að skilgreina það nú þegar hvað það er sem við ætlum að fara fram á í slíkum viðræðum og það þarf alllangan undirbúningstíma. Ég reikna ekki með því að þetta geti gerst í næsta mánuði og þess vegna þarf að undirbúa það nú þegar.