Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 14:25:09 (6467)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Þessi tillaga sem hér er rædd var fram komin af hálfu Framsfl. á því stigi þegar samningaviðræðurnar um EES voru í fullum gangi og reyndar búið að ganga frá samningi og endurspegla þörfina af þeirra hálfu til þess að veifa einhverju tré í þeim ágreiningi sem verið hefur í flokknum um afstöðuna til Evrópsks efnahagssvæðis. Það væri betur að menn hefðu tekið það sem stefnu fyrir nokkrum árum síðan að láta lokið viðræðum um þátttöku í Evrópsku efnahagssvæði og hefja kröfuna um tvíhliða samninga við Evrópubandalagið sem var auðvitað sjálfsagður kostur og sem t.d. Alþb. margoft gerði að sinni tillögu, m.a. í nóvember 1989. Og ég vil spyrja hv. þm. að því hvort hann óttist ekki að viðræður undir forustu núv. stjórnarflokka um samskipti okkar við Evrópubandalagið yrðu ekki notaðar til þess af þeim öflum hér á Alþingi og innan ríkisstjórnar sem í raun stefna að beinni aðild að Evrópubandalaginu til þess að taka það mál á dagskrá og leitast við að knýja fram afstöðu um það að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Það er sú þróun sem er í gangi, það er það sem mun koma í framhaldi af EES-samningi ef hann verður gerður. Ég held að Evrópskt efnahagssvæði, ef sá samningur verður gerður, muni standa um nokkurt skeið, ekki bara í eitt eða tvö ár vegna þess að ég tel engar líkur á því að hin Norðurlöndin, a.m.k. ekki Noregur, komist inn í Evrópubandalagið vegna andstöðu þar í landi og ég gæti trúað að það sama yrði uppi á teningnum að því er varðar Svíþjóð og Finnland og þá stæði EES samkvæmt samningi um eitthvert skeið.