Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 14:29:40 (6469)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ábyrgð þeirra þingmanna á Alþingi sem hafa greitt götu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, þar á meðal 6 þm. úr Framsfl., er vissulega mjög mikil. Ég hef hins vegar ekki orðið var við að þessi samningur nyti stuðnings meiri hluta þingflokksins, það var minni hluti sem greiddi götu samningsins í janúarmánuði, að vísu ekki hinnar endanlegu lögfestingar. Ég verð að segja að spurningin um samninga við Evrópubandalagið þar sem við stæðum utan við EES og utan við EB reynir að sjálfsögðu á þolgæði og stefnufestu. En það er ekki í kaup takandi að fara inn í Evrópskt efnahagssvæði og binda sig þeim böndum sem í því felast til þess að eiga einhverja samningsstöðu síðan á grundvelli þess. Að mínu mati er það allt of dýru verði keypt. Þar fyrir utan blasir það svo við að æ fleiri þingmenn koma úr kafinu á Alþingi sem vilja ganga alla leið. Auðvitað verður það málið hér mjög innan skamms að elta hin Norðurlöndin sem vonandi fara þó ekki inn í bili, inn í Evrópubandalagið, vera þeim samferða í samningaviðræðum og það er ekki mjög glæsilegt sem þar blasir við Norðmönnum, Svíum og Finnum núna eftir að samningsstaðan, svokölluð ,,avi``, er komin frá Brussel í þeim efnum. Ég harma það að Framsfl. að hluta til skuli skipa sér í þá sveit og skapa þá hættu sem er á því að Ísland verði keyrt inn í Evrópubandalagið á næstu árum.