Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:03:54 (6474)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég skal gjarnan reyna að tala skýrar. Ef Maastricht-samkomulaginu verður hafnað, hvort sem að því standa Danir, Bretar eða aðrir, mun það hafa víðtækar pólitískar afleiðingar. Innan EB tel ég að þetta þýði í fyrsta lagi að hugmyndum um stækkun bandalagsins með samningaviðræðum við þau ríki sem í biðröðinni eru verði öllum slegið á frest og vísað frá.
    Í annan stað held ég að höfnun Maastricht muni herða á skoðanaágreiningnum innan EB þannig að þeir sem vilja í framtíðinni einbeita sér að breytingum á samstarfinu innan EB, þ.e. hinn harði kjarni Evrópubandalagsins, sem stefnir að nánara pólitísku samstarfi aðildarríkjanna, muni ná yfirhöndinni. Jafnframt tel ég líklegt að höfnun Maastricht muni þýða fyrst í stað að suðurríkin tregðist við að samþykkja EES-samkomulagið. En að lokum muni þeir, sem ætla að byggja upp hinn harða kjarna EB á grundvelli nánara pólitísks samstarfs, sjá hag sinn af því að halda þessum ríkjum utan en gefa þeim lausn sem væri fólgin í aðgangi að innri markaðnum sem er EES og EES snýst um. Ég held hins vegar að það muni samt þurfa nokkurn tíma til þess að ná þessu fram.
    Það er því fyrst og fremst á þeim forsendum sem ég treysti mér ekki til að slá því föstu að EES nái gildistöku fyrir áramót. Það er fyrst og fremst Maastricht sem kann að flækja þá stöðu og breytir þá engu að fyrir liggja pólitískar yfirlýsingar beggja aðila, allra samningsaðila í EES, um það að hvetja öll þjóðþing til þess að hafa lokið staðfestingunni og að stefnt skuli að gildistöku 1. júlí. Ég hef enga trú á því að það takist 1. júlí.