Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:08:42 (6476)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vissulega er máttur Kvennalistans mikill en hann er þó ekki orðinn þannig að hann sé á stórevrópskan mælikvarða. Það sem ég var að tala um hér áðan var staðan í Evrópu almennt. Ég var að tala um að það vantaði skýran valkost í Evrópu við þá stefnu sem rekin er af valdhöfum í þessum ríkjum öllum. Ég held að þingmaðurinn ætti að vera mér sammála um að eftir að kerfið hrundi í austri, annar póllinn hvarf, hefur verið ákveðin ringulreið, getum við sagt, í álfunni og markaðsöflin hafa haft þar mikið forskot og haft miklu meiri áhrif á stefnumörkun í álfunni en þau öfl sem vilja kenna sig við einhverja félagshyggju. Ég verð bara að segja að þegar ég lít yfir sviðið og það sem ég les um þessi mál og það sem ég fylgist með að mér finnst vanta tilfinnanlega einhvern gegnumhugsaðan valkost við þá stefnu sem uppi er í þessum málum í dag. Og ég segi það ekki neinum til hnjóðs. Þetta er einfaldlega staðreynd sem mér finnst blasa við.