Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:32:35 (6480)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. lýsti eftir jákvæðari undirtektum en fram hefðu komið hingað til frá utanrrh. við þessari tillögu. Nú er það svo að tillagan er um það að óska eftir tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið á grundvelli viðskiptaþáttar EES og hefja að því undirbúning. Ég hef svarað því til að undirbúningurinn að því að koma viðskiptaþætti samskipta okkar við EB á traustan grundvöll hófst fyrir fjórum árum, þannig að það þarf ekki að hefja þann undirbúning. Þeim undirbúningi er lokið vegna þess að samningurinn liggur fyrir. En þá segja menn: Er ekki tímabært að taka upp viðræður um hvað taki við þegar hin löndin hafa yfirgefið EFTA og eru komin í EB? Jú, jú og þær viðræður hófust fyrir ári. Þær hafa farið fram í fjórgang og leitt til þeirrar niðurstöðu að það virðist ekki vera ágreiningur milli Íslands og Evrópubandalagsins um það hvað taki við, þ.e. þá gera báðir aðilar ráð fyrir því að samningurinn, þar með talinn viðskiptaþátturinn, standi óbreyttur en um formsatriði, eftirlit og lausn deilumála, þurfi að semja um breytingar. Þá segja flm., já en er ekki ráð í tíma tekið og best að byrja þessar viðræður strax? Svar við því er: Því miður ekki hægt. Hvers vegna ekki? Vegna þess að EES-samningurinn liggur ekki fyrir núna. Við vitum ekki hvort eða hvenær hann tekur gildi og við tökum hann ekki upp aftur, við tökum ekki upp viðræður við EB á grundvelli viðskiptaþáttar EES fyrr en í fyrsta lagi þegar það liggur fyrir að samningurinn hafi tekið gildi.
    En það er fleira, það er meiri óvissa í málinu. Eins og margir hafa vikið hér að og þar á meðal hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá er alls ekki unnt að slá því föstu að ríkin sem nú eru í biðröðinni, Noregur, Svíþjóð, Finnland o.s.frv., nái inngöngu í Evrópubandalagið. Þannig að það er ekki hægt að slá því föstu að EFTA lognist út af. Það má vel vera að EES-samningurinn standi lengur í heild sinni og þess vegna er ekki tímabært að taka neina ákvörðun um að taka upp tvíhliða viðræður meðan óvissan um þetta er jafnmikil og raun ber vitni. Þess vegna er hér verið að fjalla um sjálfsagða hluti eða að spjalla um daginn og veginn. En ekkert er við það að athuga þó þessari tillögu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.