Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:37:46 (6482)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulei forseti. Að gefnu tilefni vil ég taka undir það að nauðsynlegt er að vilji Alþingis varðandi samskiptin við Evrópubandalagið liggi fyrir. Það vill svo til að hann liggur fyrir. Meiri hluti Alþingis, mjög traustur meiri hluti, hefur samþykkt lögin um aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og í því birtist vilji Alþingis. Það sem hér er á dagskrá er að vekja máls á spurningunni um hvernig við eigum að bregðast við, ekki ef samningurinn nær ekki gildi, heldur ef hann breytist að formi til vegna þess að aðrir samningsaðilar hverfi frá honum. Það er enginn ágreiningur um það að ef við gefum okkur að hin EFTA-ríkin gangi í EB, öll önnur en Ísland, þá er það svo að þessi fjölþjóðasamningur sem gerður var breytist að formi til í tvíhliða samning. Um það er enginn ágreiningur, það er sjálfsagður hlutur, þótt það þurfi að sjálfsögðu að vera staðfest með formlegum hætti. Úr því að það er út af fyrir sig enginn ágreiningur um þetta, er þá nauðsynlegt núna að taka ákvörðun um það að við viljum ræða þetta við Evrópubandalagið? Nei, nei, það þarf enga ákvörðun að taka um það vegna þess að þetta hefur verið rætt við Evrópubandalagið. En eigum við að óska eftir samningaviðræðum við Evrópubandalagið um þetta núna, jafnvel þó okkur verði bent á að EES-samningurinn hafi ekki tekið gildi og það liggi ekkert fyrir um það að hin EFTA-ríkin séu komin inn í EB? Ég segi: Nei, það er ekki tímabært. Þá segja flm.: Við getum fallist á að vera til viðtals um hvenær þetta skuli gert. Fínt. Það er þá tímabært þegar við vitum hvort EES-samningurinn breytist í tvíhliða samning, hvort hin löndin hverfa frá honum, hvort EB stækkar. En það eru bara engar líkur á að þessum spurningum verði svarað í reynd, ekki þetta árið, ekki næsta árið og guð má vita hvenær.