Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:44:39 (6485)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég bið nú hv. þm. Hjörleif Guttormsson að spara sér áhyggjur af minni pólitísku framtíð eða í hvaða sambandi ég sé við mitt bakland. Þar hef ég komið fram á fullkomlega heiðarlegan hátt, skýrt út mín sjónarmið, og það ræðst síðan á sínum tíma hvernig við því verður brugðist. Að sjálfsögðu axla ég pólitíska ábyrgð í þessu eins og hverju öðru máli. Ég hlýt hins vegar að vekja athygli á því að hv. þm. vék sér undan að svara spurningu minni þess efnis hvort sá skilningur minn væri réttur að í þeirri samþykkt sem Alþb. gerði á síðasta sumri væri byggt á fjórfrelsinu, það er hér allt saman talið upp, og hinum innri markaði Evrópu sem verið er að tala um. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi þegar rætt er um að þetta eigi að byggjast á viðskiptaþætti EES og allir þættir fjórfrelsisins taldir upp, hver og einn einasti. Ég hlýt að ítreka spurningu mína: Er samþykkt Alþb. frá 28. júní 1992 sá grunnur sem hv. þm. hefur margsinnis lýst yfir að sé sú stefna sem Alþb. standi einhuga að? Ég hlýt að spyrja að því vegna þess eins og ég sagði áðan þá kemur það hér skýrt fram að þar eigi að byggja á fjórfrelsinu og innri markaðnum og það getum við ekki öðruvísi, hv. þm., en að yfirtaka að verulegu leyti þær viðskiptareglur sem þar gilda. Stóri munurinn hins vegar er sá að í tvíhliða samningi losnum við við stofnanaveldið. Og um það erum við væntanlega hjartanlega sammála að er jákvætt fyrir okkur.