Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 15:56:28 (6489)

     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson orðaði það svo eitthvað á þá leið að hann fagnaði þessari umræðu að frádregnu því sem hann kallar þráhyggju minni í sambandi við þetta mál. Það væri æskilegt að hv. þm. fyndi þessum orðum sínum betri stað, þ.e. rökstyddi það hvað það er sem hann á við þegar hann talar um þráhyggju mína í sambandi við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði.
    Ég hef vissulega oft skipst á skoðunum við hv. þm. um þetta efni, m.a. þegar hann var forsrh. og varaði eindregið á þeim tíma, m.a. í hans eigin flokksblaði í grein 8. febr. 1991, við þeim samningi sem unnið var þá að og ég fékk svar frá hæstv. þáv. forsrh. og ég mat það mikils að mér var svarað. En niðurstaðan var auðvitað sú að við mátum þetta mjög álíkt. Hins vegar hefur það gerst á þeim tíma sem síðan er liðinn að við erum sammála um meginatriði málsins, ég og hv. þm. Steingrímur Hermannsson, í andstöðu við þennan samning og ég get ekki skilið það að í því felist þráhyggja að við höfum náð saman þótt seint og um síðir sé í afstöðu til þessa máls þó að hv. þm. ekki hefði sinn flokk heilan að baki sem ég harma vissulega að ekki gerðist. Það skiptir auðvitað máli upp á stöðuna hér.
    Það ætti að vera mönnum ljóst hvert ríkisstjórnin er að fara og ég veit að hv. þm. hefur lesið skýrslu utanrrh. fyrir ári síðan sem var einn samfelldur rökstuðningur fyrir því að við ættum að sækja um aðild að Evrópubandalaginu og ég geri ráð fyrir því að hv. þm. hafi lesið greinar formanns efh.- og viðskn. sem hefur skrifað tvær kjallaragreinar, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, í þessum mánuði sem er eitt allsherjarákall um það að nú sé rétti tíminn til þess að sækja um aðild að Evrópubandalaginu. Þetta eru engir huldumenn. Þetta eru valdaaðilar í viðkomandi flokkum, formaður Alþfl. og formaður fjárln. og formaður efh.- og viðskn. sem tala hér fullum hálsi í þessu efni.