Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:25:49 (6499)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef þegar beint þeirri spurningu með formlegum hætti til utanrrh. Evrópubandalagsins, þ.e. framkvæmdastjórnar, Hans van den Broek, þann 5. febr. og spurt hann einfaldlega: Hvernig yrði því tekið ef við óskuðum eftir formlegum samningaviðræðum á grundvelli viðskiptaþáttar EES um það að breyta honum í tvíhliða samning? Þetta var í fjórða sinn sem ég bar það erindi upp fyrir ráðamenn í EB. Og svarið var þetta: Við göngum að sjálfsögðu út frá því sem gefnu að eftir því verði ekki leitað meðan EES sjálft er í óvissu. Verði eftir því leitað eftir það, þá gerum við ráð fyrir því að það verði mjög auðsótt að eyða allri óvissu um stöðu Íslands alveg eins og gagnvart umsóknarríkjunum á eftirfarandi veg: Að við verðum fullvissaðir um það með formlegum hætti, það verði staðfest af hálfu EB, að við höldum réttindum og skuldbindingum EES-samningsins á viðskiptasviðinu og að EB lýsi því yfir að þeir muni verða reiðubúnir til þess að semja upp á nýtt um stofnanaþáttinn, ef á það reynir en það verður áreiðanlega alllangur millibilstími sem þetta, ef á það reynir, gildir.