Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:44:20 (6506)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og heyra má á ég fullt í fangi með uppfræðsluna á hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni og hef tekist mun betur til með Karl Steinar Guðnason. Í alvöru að tala er ástæða til þess að vekja athygli á því að í aðildarviðræðum Svía og Norðmanna við Evrópubandalagið er mjög líklegt að þetta mál komi upp. Ég segi líklegt vegna þess að við höfum heyrt því hreyft af hálfu embættismanna að það verði mjög erfitt að bæta þeirri kvöð á kerfið í Evrópubandalaginu að eiga að þýða allt mál af norsku og sænsku eins og hingað til hefur verið gert á dönsku. Þeir sem þetta skilja vita að stærsti hluti af mannafla EB fæst við að þýða af einni tungu yfir á aðra. Því hefur jafnvel verið hreyft að þegar allar stofnanir og starfsaðferðir Evrópubandalagsins verði endurskoðaðar eftir 1996 verði þær kröfur uppi að hinar fámennari þjóðir í Evrópu verði að láta af kröfunni um jafnan rétt bæði að því er varðar framkvæmdastjóra, fjölda þingmanna í Evrópuþingi, embættismenn á æðstu stigum eins og í dómstól, en jafnvel líka það að þeir yrðu að fallast á það að þeir hefðu ekki sama rétt og þjóðtungur hinna stærri þjóða varðandi þessa þýðingarkvöð. Það hefur verið rætt í dönskum fjölmiðlum að Danir megi búast við því --- og það hafði t.d. áhrif á Maastricht-atkvæðagreiðsluna --- að danska verði ekki þar jafnrétthá og t.d. enska. Þetta eru nokkrar staðreyndir um málið en breytir því ekki að jafnvel á vettvangi smáþjóða eins og í Norðurlandaráði hafa Íslendingar látið bjóða sér það varðandi sína göfugu tungu að þurfa að haltra þar í þriðja gír á norskum mállýskum um hin flóknustu sérfræðilegu málefni. Það þýðir ekki að menn hafi afsalað sér íslenskri tungu. Menn gera meiri kröfur til sjálfra sín en til annarra. En þetta skyldu menn gjarnan hafa í huga og ég tel mig ekki vera að fræða einn eða neinn, nema ef vera skyldi hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson, um þessi mál vegna þess að þetta er altalað í þeim samningaviðræðum sem nú fara fram.