Tvíhliða samskipti við Evrópubandalagið

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 16:57:41 (6511)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Einhvern tímann var sagt: ,,Hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lýgi.`` Tvíhliða samning við Evrópubandalagið gerðu Íslendingar til að efna loforð sem þeir gáfu þegar þeir gerðu fríverslunarsamning við bandalagið 1972 og varð virkt undir nafninu bókun 6 1976. Það var með öðrum orðum til að efna loforð fyrri ríkisstjórnar, standa við kvöð sem íslensk stjórnvöld höfðu tekið á sig, sem þessi samningur var gerður. Hv. þm. er búinn að fara með þau ósannindi úr þessum ræðustól að þar með hafi Íslendingar samþykkt kröfu EB um að láta veiðiheimildir fyrir tollalækkanir. Þetta eru ómerkileg ósannindi og fleipur sem hv. þm. getur að sjálfsögðu ekki staðið við vegna þess að þessi tvíhliða samningur er um að skiptast á gagnkvæmum veiðiheimildum. Og jafnvel þótt hv. þm. kunni að hafa einhverja skoðun á því að mælikvarðar sjútvrn. í því efni séu ekki réttir að einhverju leyti breytir það engu um að samið var um skipti á gagnkvæmum veiðiheimildum. Hv. þm. hefur aldrei viðurkennt þessa staðreynd, aldrei farið rétt með þessa staðreynd og hér úr þessum ræðustól endurtekið í síbylju í von um að menn tryðu honum það sem er sannanlega ósatt. Er úr vöndu að ráða að eiga orðastað við slíkan mann.