Evrópskt efnahagssvæði

145. fundur
Fimmtudaginn 25. mars 1993, kl. 17:05:57 (6515)

     Guðmundur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það hafa orðið miklar umræður um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og þeim hefur vissulega verið haldið áfram hér í dag og mér sýnist með svipuðum hætti og oft áður. Það er kannski engin furða. Mér sýnist af þeim umræðum sem hér hafa verið í dag að menn haldi sig við sama heygarðshornið. Það getur vel verið að það sé einmitt vegna þess hvernig menn hafa hagað þessari umræðu hversu langdregin hún hefur verið. Mér skilst að í þessum sal hafi verið sett heimsmet í umræðum um þennan samning, hvort sem miðað er við höfðatölu þjóðarinnar eða eitthvað annað. Ég er satt að segja alveg steinhissa á því að hæstv. utanrrh. skuli eiginlega bæði leiða þessa umræðu og láta teyma sig í hana. Ég er alveg steinhissa á því. Hann flæmist út um víðan völl og helst einhvers staðar þar sem hlutirnir koma málinu ekkert við.
    Ég hef ekki haft tækifæri til að tjá mig um þetta mál fyrr á hinu háa Alþingi mig langar þess vegna að fara nokkrum orðum um þennan samning. Mig langar þá fyrst til að segja að þegar gengið er að samningi þarf að felast í honum ávinningur til þess að maður yfirleitt vilji ganga að samningnum. Auðvitað er það svo að margt gott er um þennan samning um Evrópskt efnahagssvæði að segja en ég held samt sem áður að ávinningurinn af honum sé ekki eins mikill og a.m.k. sumir vilja vera láta. Ég held reyndar að á sumum sviðum sé alls enginn ávinningur af þessum samningi. Það er auðvitað erfitt að meta heildaráhrif hans á íslenskt efnahagslíf og ekki síður á íslenskt þjóðlíf. Vegna þess að þessi samningur er ekki bara viðskiptasamningur heldur er hann líka samningur sem tekur til þjóðlífsins alls. Hann hefur áhrif á það hvernig við búum hér á landi og hann hefur áhrif á tilfinningar manna. Ég hef tekið eftir því að gerð samningsins leggst þungt í mjög marga Íslendinga. Ég geri ráð fyrir því reyndar að á þeim kantinum séu líka ókostirnir við samninginn upphafnir og jafnvel margfaldaðir.
    Nokkur orð um sjálfan samninginn og umgjörð hans. Samningur sem samþykktur er sem lög frá Alþingi verður að sjálfsögðu að vera í samræmi við stjórnarskrána. Ég held að öllum sé ljóst og allir séu sammála um að svo verður að vera. Það má ekki vera nokkur vafi á því að lög sem samþykkt eru á Alþingi séu í fullu samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Ef vafi leikur á um þessa hluti þá verður einfaldlega að láta þann vafa koma stjórnarskránni til góða, þ.e. annaðhvort verður að breyta lögunum eða stjórnarskránni. Hér getur ekki verið um það að ræða að menn ætli að keyra í gegn lög hvað svo sem líður stjórnarskránni.
    Samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði er ákaflega umfangsmikill. Hann tekur til svo margra þátta og það hefur verið svo mikið í hann lagt að ef hann verður að veruleika mun hann hafa svo mikil áhrif að hann verður að vera til frambúðar. Það er ekki ásættanlegt að slíkur samningur sé gerður einungis til mjög skamms tíma. En ég verð að segja að mér finnst ákaflega mikil óvissa um þennan samning bæði meðal EFTA-ríkjanna og ekki síður í Efnahagsbandalaginu. Þó það séu tvö sérstök mál, Maastricht-samkomulagið og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði, eru þau alveg örugglega skyld og það eru tengsl þar á milli. Afdrif annars málsins munu hafa áhrif á framgöngu hins. Átökin um Maastricht-samkomulagið, bæði í Frakklandi, Danmörku og nú síðast í Bretlandi endurspegla að mörgu leyti þá strauma sem fara um Evrópu og þann hug sem fólkið ber til þessarar þróunar sem valdamenn fyrst og fremst vilja berja fram og oft, eins og dæmin sanna, í andstöðu við íbúa landanna.
    Þetta er mál sem er innan Evrópubandalagsins en þau eru fleiri og tengjast miklu nánar og meira samningnum um EES. Spænsk stjórnvöld hafa sett fyrirvara um samþykkt EES-samningsins. Þau hafa í

rauninni sífellt dregið lappirnar. Það er greinilegt að þau eru óánægð með þennan samning eins og hann hefur komið fram. Það er ljóst að af honum verður ekkert á þeim bæ fyrr en eftir kosningar sem fram fara á Spáni nú í haust. Ég held að það sé alveg orðið ljóst. Í gær var þessi skoðun mín í rauninni styrkt með því að sendiherra Evrópubandalagsins talaði um að það séu a.m.k. innan við helmingslíkur á því að samningurinn um EES taki gildi núna í júlí nk.
    Ef við lítum hins vegar yfir til EFTA þá er ljóst að öll EFTA-löndin, eins og margoft hefur komið fram í dag og oft áður, sem samþykktu EES-samninginn nema Ísland eru á leið inn í Evrópubandalagið. Og ég held að það geti vel gerst innan tveggja ára. Og að halda að það muni gerast innan tveggja ára er a.m.k. ekkert meiri bjartsýni en þegar hæstv. utanrrh. telur að samningurinn um EES muni taka gildi í júlí. Það hafa verið settar fram margar dagsetningar um þetta EES-mál og hingað til hafa þær aldrei staðist.
    Það er talað um að andstaðan á Norðurlöndum vaxi gegn aðild að Evrópubandalaginu og má vel vera að svo sé. En það er ekki þar með sagt að þau muni ekki ganga í Evrópubandalagið. Ég minni á að það var líka andstaða gegn samþykkt EES-samningsins hér á landi. Engu að síður var samningurinn keyrður í gegn jafnvel þó svo tugþúsundir Íslendinga óskuðu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Á það var ekki hlustað.
    Þegar minnst er á þjóðaratkvæðagreiðsluna þá er komið að mikilvægu máli varðandi þennan EES-samning. Hvort sem við á endanum samþykkjum samninginn eða ekki þá er mjög mikilvægt að þetta mál sé unnið með þeim hætti að það sé sátt um afgreiðsluna, að það sé afgreitt með þeim hætti að þjóðin geti í framtíðinni sætt sig við niðurstöðuna. Það er mjög einkennilegt að tala um samninginn í öðru orðinu sem farseðil inn í framtíðina og eitt mesta hagsmunamál íslensks atvinnulífs og íslenskrar þjóðar en í hinu orðinu eins og hér sé um að ræða einfalt afgreiðslumál á Alþingi. Það má vel vera að það sé hefð fyrir því að stórmál sé ekki borið undir atkvæði þjóðarinnar. En það er vond hefð og hún hefur reynst illa. Dæmi um það er Keflavíkursamningurinn og inngangan í NATO á sínum tíma. Þau mál voru keyrð í gegnum Alþingi án þess að kannaður væri vilji þjóðarinnar og mér er nær að halda að á þeim tíma hafi verið gengið í berhögg við a.m.k. stóran hluta þjóðarinnar þó svo afstaða þjóðarinnar hafi kannski breyst eftir því sem árin liðu. En í áratugi klauf þetta mál þjóðina, og þó kannski öllu heldur málsmeðferðin, í tvær fylkingar og lá í rauninni eins og mara yfir allri þjóðmálaumræðu hér á landi í áratugi.
    Ég held þess vegna að sú hefð sem vitnað er í og á að útiloka að mál eins og samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði séu borin undir atkvæði þjóðarinnar sé vond og ég held að það sé hefð sem engin ástæða er til að halda í.
    Það er þess vegna að mínu mati ámælisvert hvernig samninginn ber að. Það er óvissa um hvort hann er í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar. Það eru enn þá töluverðar líkur á að hann verði aldrei að veruleika og allar líkur á því að ef hann einhvern tímann tekur gildi þá muni hann aðeins gilda í skamman tíma, jafnvel mjög skamman tíma. Það eru alvarlegir hlutir og erfitt að horfa fram hjá þeim. En ef maður gerir það nú samt sem áður og lætur engu skipta hvort ákvæði stjórnarskrárinnar séu haldin og hvort samningurinn yfirleitt taki gildi þá stendur eftir spurningin hvernig þessi samningur sé og hvort hann sé hagstæður íslenskri þjóð. Hvort hann færi okkur þann efnahagslega ávinning sem við erum að sækjast eftir og hvort áhrif hans á íslenskt þjóðlíf verði til bóta. Eins og ég sagði áðan er erfitt að meta heildaráhrif þessa samnings. Hann færir okkur ávinning á sumum sviðum en öðrum ekki.
    Helstu auðlindir okkar Íslendinga eru landið, sjórinn í kringum landið, orkan í fallvötnunum og iðrum jarðar og síðast en ekki síst gjörvileiki þjóðarinnar sem oft er kallaður mannauður. Það er mjög mikilvægt að við ráðum okkar auðlindum sjálf, ráðum hvort við viljum nýta þær, hvernig við viljum nýta þær og þá hvenær við viljum gera það. Í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er aðeins gert ráð fyrir að ein af þessum auðlindum sé sérstaklega tekin frá fyrir íslenska þjóð. Það er sjórinn og fiskveiðarnar í kringum landið. Útlendingum er bönnuð aðild að fyrirtækjum í fiskveiðum og fiskvinnslu. Hins vegar hafa verið gerðir samningar um veiðiheimildir til handa Evrópubandalaginu gegn öðrum veiðiheimildum okkur til handa. En það er a.m.k. mikill vafi á að um jafngildar veiðiheimildir sé að ræða. Margir telja að þar halli mjög á okkur og þess vegna hafa margir haldið því fram, og ég held með vissum rétti, að í raun hafi verið samið um veiðiheimildir gegn aðgangi að markaði.
    Það má spyrja sig sem svo: Af hverju að gera þessa fyrirvara um eina auðlind en ekki hinar? Það er í sjálfu sér engin ástæða til að láta aðrar reglur gilda um hafið og fiskinn en t.d. landið eða orkuna, að maður tali nú ekki um fólkið. Það er ákaflega ógeðfelld hugsun fyrir marga Íslendinga að landið, jarðir og landsvæði, verði falt útlendingum.
    Ef maður lítur á orkuna er eins og sú ríkisstjórn sem nú situr sé haldin einhvers konar einkavæðingaræði. Það hefur skapað mikla óvissu. ( Gripið fram í: Það er nú að renna af þeim núna.) Ég vona að hv. þm. hafi rétt fyrir sér og æðið renni af ríkisstjórninni. En ég sé ekki að æðið sé að renna af. Það getur vel verið að getuna þverri og henni sé ekki hleypt endalaust áfram á þeim vettvangi. En viljann vantar ekki. Það er eitt sem víst er. En þetta einkavæðingaræði hefur orðið til þess að skapa mikla óvissu vegna þess að það eru jafnvel uppi áform um að einkavæða orkufyrirtækin og selja væntanlega hlutabréf og þá eiga útlendingar jafnan rétt til að eignast orkuver og orkuréttindi og hver annar. Ég skal ekki segja að þessi hætta sé raunveruleg, þ.e. hvort ríkisstjórnin nái þessum málum sínum fram. En þetta er yfirvofandi hætta

engu að síður, þetta gæti gerst, möguleikinn er til staðar. Ef allt fer á versta veg þá gætum við staðið uppi sem þjóð án fullra eða jafnvel með engin yfirráð yfir eigin auðlindum. Það hefur gerst annars staðar og það gæti gerst hérna líka. Og þrátt fyrir allt, þó ég telji að við eigum ekki að hafa neina minnimáttarkennd vegna smæðar okkar, þá eigum við hins vegar að horfast í augu við að við erum smáþjóð og það eru mörg fyrirtæki úti í heimi sem hafa margfaldar árlegar tekjur á við fjárlög íslenska ríkisins og miklu meiri burði en nokkur aðili hér á landi í fjármálalegu tilliti. Þess vegna er það ekkert einkennilegt að margir Íslendingar séu órólegir yfir þessum málum.
    Samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er fyrst og fremst hagstæður okkur í sjávarútvegi. Þar er langmesti ávinningurinn fyrir okkur í þessum samningi. En sá ávinningur felst fyrst og fremst í lækkun tolla og við höfum ekki náð þannig samningi að við sitjum í raun til jafns við okkar samningsþjóðir um framkvæmd sjávarútvegsstefnu, fiskveiða og vinnslu, vegna þess að eftir sem áður er sjávarútvegi hér á landi og í Evrópulöndunum mismunað mjög af hálfu stjórnvalda. Þó sótt sé að okkur að draga úr niðurgreiðslum og fyrirgreiðslu við atvinnuvegina þá virðist sú hugsun ekki hafa náð sérstaklega að festa rætur í sjálfu Evrópubandalaginu. Þar eru þessir hlutir gerðir með örlítið öðrum hætti en gert hefur verðið hér á landi. Ég held þess vegna að menn verði að athuga það að samningurinn færir okkur ekki endilega auknar tekjur þó um tollalækkanir sé að ræða en hann gæti fært okkur betri viðskiptastöðu og hann gæti tryggt betur að við seljum okkar afurðir og auðvitað er mikill ávinningur í því líka.
    Ég vil nefna sem dæmi að núna um áramótin var felldur niður eins konar innflutningsskattur eða gjald á vörur sem fluttar voru inn til Færeyja. Í því fyrirtæki sem ég að öllum jafnaði starfa háttar svo til að nokkur hluti viðskiptanna er við Færeyinga. Ég hef ekki orðið var við að þessi tollaniðurfelling hafi fært okkur, sem þangað erum að flytja út vörur, auknar tekjur. Sá ávinningur sem felst í tollaniðurfellingunni hefur allur komið til Færeyinga en hann hefur auðvitað styrkt stöðu t.d. íslenskra fyrirtækja gagnvart færeyskum fyrirtækjum.
    Meðaltollar á okkar sjávarafurðir í Evrópubandalaginu eru rétt innan við 4% en verða eftir að samningurinn tekur gildi, ef hann tekur gildi, innan við 1%. Þarna munar auðvitað langmest um niðurfellingu tolla á saltfiski en einnig á síldarverkun og reyndar eru margar fleiri greinar sem njóta þess í einhverju líka. Þó ég vilji að sjálfsögðu ekki gera lítið úr þessum hlutum þá tel ég enga ástæða til að sjá samninginn í einhverjum hillingum. Það er aldeilis fráleitt eins og gert hefur verið og hefur mátt sjá í yfirlýsingum bæði aðila í atvinnulífinu og annarra að það sé hægt að fara að reikna út eitthvert tap núna vegna þess að samningurinn hafi ekki tekið gildi um síðustu áramót. Ég held að það sé aldeilis fráleitt.
    Það er svo annað mál að ýmsar aðrar atvinnugreinar en sjávarútvegur hafa ekki ávinning af þessum samningi. Mig langar að nefna t.d. landbúnaðinn. Ég held þvert á móti að bændur hér á landi séu uggandi um sinn hag. Þeir hafa gert búvörusamning við ríkisvaldið þar sem þeir hafa tekið á sig samdrátt í framleiðslu og lækkun afurðaverðs. Nú standa þeir frammi fyrir því að innflutningur á búvörum, sem áður var bannaður, kann að verða leyfður og það virðist svo að fátt eitt hafi verið gert af okkar hálfu til að tryggja hagsmuni landbúnaðarins í samningagerðinni gagnstætt því sem margar aðrar þjóðir gerðu. Þannig er allt í óvissu með gildi þeirra ákvæða sem almennt eru um verslun með landbúnaðarvörur milli landa í samningnum hvað Ísland varðar. Við höfum t.d. ekki ótvíræðar heimildir til að leggja á jöfnunargjöld. Þannig má segja --- og það tel ég mjög miður --- að hagsmunir landbúnaðarins hafi verið skildir eftir í óvissu og í raun ofurseldir túlkunum t.d. okkar viðsemjenda.
    Það kann vel að vera að menn líti svo á að þetta skipti ekki mjög miklu máli og reyndar hefur það verið sagt. Ég held að það hafi verið orðað sem svo að landbúnaðarhagsmunirnir í þessu máli væru tittlingaskítur, ef ég man rétt, að það hafi verið orðað á svo smekklegan hátt. Ég held að það sé ekki mat allra í þessu máli. Ég bendi á að ef hingað yrðu fluttar inn mjólkurvörur sem svöruðu til 5% af núverandi neyslu á mjólkurvörum þá væru það um 5 milljónir lítra. Það svarar til framleiðslu 50 meðalmjólkurbúa, þ.e. nautgripabúa sem framleiða mjólk. Það munar um minna vegna þess að mjólkurframleiðendur á Íslandi eru þrátt fyrir allt ekki nema um eitt þúsund.
    Ég held þess vegna að það sé hægt að fullyrða að landbúnaðurinn græðir ekki á EES-samningnum og þarf ekki að reikna sér tap vegna þess að samningurinn hafi ekki enn tekið gildi og gerir það ekki. En ég held að það sé líka rétt að benda á og undirstrika að við erum ekki bara að tala um landbúnaðinn. Við erum að tala um neytendur líka og þeir munu ekki heldur græða á því þó fluttar verði inn landbúnaðarvörur því þegar upp er staðið þá mun þessi þjóð ekki fremur en aðrar þjóðir lifa til lengdar af innflutningi, jafnvel ekki þó hann kunni að fást á lágu verði.
    Mér er það jafnljóst og mörgum öðrum í landinu að við Íslendingar erum mjög háðir viðskiptum við aðrar þjóðir og við erum þess vegna neyddir, og í sjálfu sér er það engin nauð, við verðum að gera viðskiptasamninga, bæði stóra og smáa, við okkar viðskiptaþjóðir. Ég held hins vegar að aðstaða okkar til samninga við Evrópubandalagið sé ekkert slæm og þurfi ekki að vera slæm. Við höfum sem betur fer upp á ýmsa hluti að bjóða og ég held að það sé engin vafi á að okkar staða í samningamálum á eftir að styrkjast.
    Ég sá það um daginn á blaði að sagt hefur verið að fram til síðustu aldamóta hafi gull verið gull, á þessari öld hafi olían verið gull og á næstu öld verði gullið matur. Og ef það er rétt, sem vissulega margt bendir til að sé, þá held ég að við þurfum ekkert að óttast. Og reyndar er margt sem bendir til þess að

hlutirnir þróist í þessa átt. Reyndar höfum við ekki mikla olíu hér á landi, ekki nema þá sem við flytjum inn, en við eigum mikla orku og sá áhugi sem við landsmenn og margir erlendir aðilar hafa sýnt á orkuútflutningi frá Íslandi undirstrikar að þróunin gengur í þessa átt. Enn fremur er það alveg ljóst að í framtíðinni munu umhverfismál setja miklu meiri svip á framleiðslu matvæla. Matvælaframleiðslu verða settar ákveðnar skorður. Hún mun verða dýrari og þannig mun samkeppnisstaða okkar Íslendinga batna. Við gætum orðið matarútflytjendur, ekki einungis á sjávarfurðum heldur líka landbúnaðarfurðum.
    Ég er ekki þeirrar skoðunar að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði sé alslæmur fyrir okkur Íslendinga. Eins og ég hef bent á þá má í honum finna marga ágæta hluti og fleiri en þá sem ég hef bent á í þessari ræðu. Samt sem áður verða menn að gera sér grein fyrir því að samningurinn er engin ávísun á gull og græna skóga og hann er heldur enginn farseðill inn í 21. öldina og allra síst kemur til greina að sú fullyrðing standist að með honum höfum við fengið allt fyrir ekki neitt.
    Hvort sem við verðum nú innan Evrópsks efnahagssvæðis eða utan þess, þá er ljóst að það verður fyrst og fremst okkar eigin dugnaður og atgervi sem skilar okkur bættum lífskjörum og aukinni lífshamingju og menn verða að vera klárir á því að slíkir hlutir verða aldrei keyptir í pakka, alveg sama hversu skrautlegar umbúðirnar utan um pakkann kunna að vera. Ég held að við sjáum fyrir okkur dæmin hérna. Evrópskt efnahagssvæði mun t.d. engu breyta um tregðu ríkisstjórnarinnar til að vinna með aðilum í atvinnulífinu að því að koma hér á frísvæðum.
    Fram undan eru erfiðir og viðkvæmir kjarasamningar. Það breytir heldur engu um, hvort sem við erum í Evrópsku efnahagssvæði eða ekki, athafnaleysi ríkisstjórnarinnar til að liðka þar til og til þess að reyna að leiða þjóðina út úr þeirri sjálfheldu sem hún er í og dróma í atvinnumálum. Þetta eru hlutir sem við verðum hvort sem er alltaf að gera sjálf og það mun enginn annar gera það fyrir okkur. Við verðum að átta okkur á því að Evrópumarkaðurinn er harður og þar ríkir mikil samkeppni. Sumir hlutar íslensks atvinnulífs eru einfaldlega ekkert undir það búnir að taka þátt í þessari samkeppni og munu að öllum líkindum verða undir, enda ekki að þeim búið á sama hátt og er mjög víða í Evrópulöndunum. Ég get nefnt sem dæmi landbúnað, sjávarútveg og skipasmíðar og fleira mætti nefna. Og sumir atvinnuvegir hér á landi eru kannski eðli málsins samkvæmt þannig gerðir og þannig til háttað um þá að þeir verða aldrei samkeppnisfærir. Ég held að það sé engin ástæða til þess heldur að ætla þeim að verða það. Það mun alltaf verða þannig að það verður ákveðið óhagræði í efnahagslegu tilliti að búa í svo og litlu landi sem er þó svo stórt. Fámenn þjóð í stóru landi, ég held að það sé kannski best að lýsa því þannig. Það er einfaldlega þannig að það kostar og mun alltaf kosta okkur ákveðna hluti að búa í slíku landi. En hins vegar kjósa flest okkar að vera hér. Ég held að menn séu almennt ekki hér nema af fúsum vilja og hér viljum við vera og þess vegna held ég að langflestir Íslendingar séu þegar upp er staðið reiðubúnir til að greiða þann kostnað.
    Ég treysti mér ekki til að styðja þennan samning um Evrópska efnahagssvæðið og ef ég ætti þess kost á Alþingi, þá mundi ég greiða atkvæði gegn honum. Ég sé ekki að sú breyting sem hér er lögð fram breyti í neinu grundvallaratriðum frá þeim samningi sem samþykktur var hér fyrr í vetur. En ég er hins vegar fylgjandi því að við leitum betri samninga við Evrópubandalagið. Við eigum auðvitað að byggja á þeim viðskiptaþætti sem er í þessum samningi en það eru ýmsir hlutir, eins og ég tel að ég hafi bent á fyrr í mínu máli, sem við þurfum að bæta og við þurfum að ná betri samningi. Þess vegna finnst mér ég geta stutt þá þáltill. sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson og Halldór Ásgrímsson hafa lagt fram á Alþingi og rætt var um fyrr í dag og fjallar um beinar samningaviðræður við Evrópubandalagið. Ég held að sú leið sé mun heppilegri og að mínu mati að mestu fullreynt á EES-leiðina. Ég held að menn ættu a.m.k. að reyna að fara þá leið.
    Mér finnst afar einkennilegt að sitja hér í þingsalnum og hlusta á ræður manna. Hér hefur komið upp einn þingmaðurinn af öðrum og menn hafa rætt um þá leið að fara í svokallaðar tvíhliða viðræður við Evrópubandalagið en það er nákvæmlega sama hvað menn segja um þá hluti og hvað menn vilja tala um við Evrópubandalagið. Hér er alltaf ákveðinn aðili, hæstv. utanrrh. Íslands, sem kemur að vörmu spori í ræðustól og segir mönnum nákvæmlega hvað ráðamenn Evrópubandalagsins munu segja við þessum og hinum spurningum. Mér finnst þetta ákaflega einkennilegt. Ég skal vel viðurkenna, þó það geri kannski ekki allir, að ég ber heilmikla virðingu fyrir utanrrh. Ég veit að þetta er maður gáfum gæddur og til alls líklegur en í minni villtustu fantasíu, ef svo má að orði komast, virðulegi forseti, þá hefði ég aldrei trúað því að hann væri svo klár að hann gæti svarað fyrir Evrópubandalagið hvenær sem er, hvar sem er og um hvað sem er spurt. Þvílík ósköp. En við megum vera stolt af honum.