Framhaldsskólar

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 14:05:33 (6529)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrir réttri viku mælti ég fyrir þessu frv., frv. til laga um breyting á lögum um framhaldsskóla. Eftir að tveir þingmenn höfðu tjáð sig var umræðunni frestað. En nú er tekið til við málið að nýju. Í máli þessara hv. þm., þeirra Svavars Gestssonar og Kristínar Ástgeirsdóttur, kom sitthvað fram sem ég þarf að svara. Það má kannski segja að framsaga mín hafi ekki verið nægilega ítarleg og ég ætla þess vegna að reyna að bæta nokkuð úr til að enginn misskilningur sé á ferðinni.
    Samkvæmt núv. fyrirkomulagi fer iðnnám fram í fjölbrautaskólum víðs vegar um land og í tveimur iðnskólum. Allir þessir skólar starfa eftir samræmdu áfangakerfi framhaldsskólastigsins. Þessu fyrirkomulagi iðnnáms var komið á í kjölfar mikillar umræðu á árunum 1973 til 1975 um fyrirkomulag verkmenntunar í landinu. Úr þeirri umræðu varð í raun aldrei sameiginleg niðurstaða sem yrði grundvöllur stefnumótunar af hálfu ríkisvaldsins.
    Árið 1977 var lagt fram lagafrv. um fjölbrautaskóla en það var ekki samþykkt. Samt sem áður voru settir á fót fjölmargir framhaldsskólar eftir fjölbrautahugmyndinni á áttunda og níunda áratugnum. Þróun framhaldsskólastigsins fram til ársins 1988 að framhaldsskólalögin voru samþykkt var án formlegrar heildarstefnumótunar og einkenndist af tilraunastarfsemi sem þó var ekki fylgt eftir með rannsóknum eða mati. Enn í dag vantar rannsóknir um það hvernig þessir skólar hafa staðið sig í að sinna verkmenntun í landinu. Tölur úr skýrslu Félagsvísindastofnunar um að 9,4% nemenda sem skrá sig í framhaldsskóla fari beint í starfsnám segja þó ýmislegt um áhuga ungs fólks á verknámi og ekki síður sú staðreynd að einungis 5,1%

hafa lokið iðnnámi sex árum eftir grunnskólapróf.
    Á undanförnum árum hafa kvartanir einstakra iðngreina um skilvirkni iðnmenntakerfisins orðið æ háværari og hafa þær sótt stíft á ráðuneyti menntamála um að menntunin í þessum greinum verði bætt. Hér á ég við iðngreinar eins og prentiðn, málmiðnað, bílgreinar og rafiðnað. Að mati forsvarsmanna þeirra er námið sem opinbera skólakerfið býður upp á allsendis ófullnægjandi og þeir fullyrða að því fari fjarri að nýútskrifaðir iðnnemar uppfylli þær hæfniskröfur sem fagmenn og atvinnurekendur gera til þeirra. Vandinn sem við er að etja er þríþættur að mati forsvarsmanna þessara iðngreina. Í fyrsta legi telja þeir stjórnun iðnmentunar of þunglamalega. Vettvangur atvinnulífsins til að hafa áhrif á innihald námsins eru fræðslunefndirnar en þær eru ein fyrir hvern iðngreinaflokk svo sjaldan eiga allar iðngreinar fulltrúa í fræðslunefnd. Fulltrúarnir eru ekki valdir beint af talsmönnum iðngreinanna heldur eru þrír þeirra tilnefndir af iðnfræðsluráði og tveir skipaðir af ráðherra. Möguleikar atvinnulífsins að hafa áhrif á námið í gegnum fræðslunefndir eru því mjög takmarkaðir. Fulltrúar þeirra eru þar í minni hluta og auk þess er löng leið frá því að tillaga er samþykkt í fræðslunefnd og þar til áhrifa hennar gætir í náminu innan einstakra skóla.
    Það mætti taka dæmi um það þegar fræðslunefnd hefur unnið upp tillögu um breytingu á námsskrá. Meðan á þeirri vinnu stendur sendir fræðslunefndin námsskrána til umsagnar aðila vinnumarkaðarins í greininni og annarra þeirra er málið varðar, t.d. ýmissa skóla sem sjá um nám í greininni. Þegar námsskráin er tilbúin af hálfu fræðslunefndar er hún send til ráðuneytis sem síðan biður um umsögn iðnfræðsluráðs. Þegar ráðuneytið fær námsskrána frá iðnfræðsluráði er hún staðfest af ráðuneyti og þá fyrst er hún send til viðkomandi skóla. En þó að námsskráin sé komin í skólana er alls ekki víst að þær breytingar sem hún gerir kröfu um nái fram að ganga. Atvinnulífið hefur ekki möguleika á að hafa áhrif á að skólarnir fylgi ákvæðum námsskrárinnar loks þegar hún er komin út í skólana. Hugsanlegt er að hin nýja námsskrá geri kröfur um nýjan og breyttan tækjabúnað, námsefni og námsgögn og ekki síst endurmenntun kennara til að þeir verði færir um að kenna samkvæmt nýjum námsmarkmiðum. Það er ekki trygging fyrir því að þessar breytingar komist til framkvæmda.
    Reyndar er það svo að forsvarsmenn iðngreinanna tala um að þeim þyki skólarnir ekki standa sig nógu vel, þeir séu í ónógum tengslum við atvinnulífið, uppbygging námsins sé ekki fullnægjandi, of mikið vægi sé í bóklegum námsgreinum í iðnnáminu, tækjabúnaður skólanna ekki alltaf í takt við þarfir iðngreinanna og ekki nægilegur metnaður í skólunum til að gera nægilega miklar kröfur til nemenda. Gagnrýnendur úr röðum iðngreinanna halda því fram að oft séu kennarar ekki nægilega sterkir faglega og hafi litla möguleika á að fylgjast með tækninýjungum og viðhalda þekkingu sinni.
    Þriðja gagnrýnisatriði forsvarsmanna iðngreinanna er að nokkuð skorti á hagkvæmni og skilvirkni í framkvæmd iðnfræðslunnar. Þeir benda á nauðsyn þess að samnýta tæki og kennslukrafta í grunnmentuninni til endurmenntunar en það tíðkast ekki við núverandi fyrirkomulag. Þetta sem ég hér var að telja eru gagnrýnisraddir frá forsvarsmönnum iðngreinanna. Þeir hafa sett fram óskir um úrbætur. Talsmenn margra iðngreina eru þeirrar skoðunar að ekki verði komið á ásættanlegu kerfi iðnmenntunar nema með virkri þátttöku samtaka atvinnurekenda og launafólks, bæði hvað varðar tilhögun iðnfræðslunnar sem og stjórn iðnmenntunar skólanna sjálfra. Hvað varðar útfærslu og uppbyggingu verklegs náms verði slíkt að ákvarðast af viðkomandi iðngrein. T.d. telja prentiðnaðarmenn nauðsynlegt að miðstöð verklega námsins sé úti á vinnustöðum vegna hins dýra tækjakosts í greininni. Bílgreinamenn hins vegar telja mikilvægt að koma upp fyrirmyndaraðstöðu til verklegrar kennslu í einum skóla sem síðan mundi þjónusta allt landið. Óskir þessara iðngreina eru orðaðar svo af einum talsmannanna:
    ,,Búa þarf þannig um hnútana í skipulagi iðnnámsins að áhrif atvinnulífsins séu tryggð og menn þar hafi aðstöðu til að fylgja eftir breytingum í tækni og viðskiptum með skilvirkum hætti. Hver iðngrein þarf að búa við sjálfstæði hvað þetta varðar. Ríkið á að móta heildarmarkmið og ramma kerfisins. Skólarnir eiga að þjónusta atvinnulífið og verknámi á að stýra með framtíðarhagsmuni nemenda og atvinnulífs í huga.``
    Algengt er að menn vísi til þess hversu skilvirk starfsmannakerfi eru í öðrum löndum og þá einkum Þýskalandi og Danmörku. Áberandi er að í þessum löndum koma aðilar vinnumarkaðarins á mun virkari hátt inn í starfsmenntunina en hér hefur tíðkast. Í Danmörku er fræðslunefnd fyrir hverja iðngrein skipuð eingöngu fulltrúum atvinnulífs. Fræðslunefndin ræður m.a. innihaldi námsins, skipulagi, markmiðum og námsmatskröfum sinnar iðngreinar. Einnig er stjórnun danskra iðnmenntaskóla öðruvísi háttað en hjá okkur. Í stjórn skólanna sitja 6--12 manns, en það eru auk tveggja embættismanna allt fulltrúar atvinnurekenda og launþega iðngreina sem kenndar eru í skólunum eða af viðkomandi svæði. Með því að fulltrúar atvinnulífsins taki beinan þátt í stjórn skólanna er ákveðið öryggi fengið fyrir því að innihald iðnnáms svari kröfum atvinnulífsins og að færni eða hæfni nemenda hljóti viðurkenningu úti í fyrirtækjunum. Fulltrúar atvinnulífsins ættu að þekkja hæfniskröfur markaðarins og því er ekki óeðlilegt að þeir beri nokkra ábyrgð á því að skólarnir starfi í samræmi við þessar kröfur.
    Nú þegar eru ákveðin teikn á lofti um að einstakar iðngreinar hér á landi séu tilbúnar til að taka ábyrgan þátt í menntun greinarinnar með stjórnun og rekstri skóla eða deilda skóla í samvinnu við ríkisvaldið. Einnig eru t.d. prentiðnaðarmenn búnir að semja námsskrá fyrir nám í greininni í samvinnu við menntmrn. Ég vil gjarnan beita mér fyrir því að reynt verði að fara af stað með slíkt skipulag iðnmenntunar í tilraunaskyni. Þannig getum við reynt hvort breytt fyrirkomulag henti okkur hér heima. Ef við

komumst að raun um að svo er ekki getum við hætt tilraunastarfseminni án þess að hafa umturnað því kerfi sem við nú búum við.
    Iðn- og starfsmenntakerfi eru í eðli sínu þjónustustofnanir sem eiga að þjóna nemendum annars vegar og hins vegar atvinnulífi. Forsenda fyrir því að skólar geti sinnt þessu þjónustuhlutverki er náin samvinna við atvinnulífið, að báðum aðilum sé ljóst að hverju skuli stefnt og reyni í samvinnu að finna til þess réttu leiðirnar. Skólar sem sinna iðn- og starfsmenntun þurfa að gefa eftir af forræðishlutverki sínu til atvinnulífsins. Atvinnulífið þarf hins vegar að fylgja eftir þeim kröfum sem það gerir til skólanna með því að taka á ábyrgan hátt þátt í mótun námsins. Einnig er mikilvægt að fela atvinnulífinu ákveðinn hluta menntunarinnar í meira mæli en nú tíðkast því sýnt er að kennsla margra iðngreina er svo kostnaðarsöm og endurnýjun svo ör í tækjabúnaði og sérþekkingu að skólakerfinu er ómögulegt halda í við þróunina.
    Það er ljóst að ef tryggja á atvinnulífinu bein áhrif og ábyrgð á rekstri skóla og mótun náms í iðngreinum þarf að endurskoða lög um framhaldsskóla og hugsanlega að breyta þeim. Tryggja þarf breytta samsetningu fræðslunefnda og bein áhrif þeirra á innihald námsins, þær ákveði námsmarkmið og skólum verði gert að fylgja þeim. Tryggja þarf þátttöku atvinnulífsins í stjórn skólanna og kanna til hlítar möguleika á virkri þátttöku iðngreina í iðnmenntuninni. Einnig er mikilvægt að hægt verði að nýta í kennslu iðngreina sérhæfða starfskrafta úr atvinnulífinu þar sem þörf er talin á slíku og að menntun starfsmenntakennara verði endurskoðuð og efld. Að lokum er mikilvægt að hugað verði sérstaklega að því hvernig best megi haga eftirliti með starfsmenntuninni, jafnt innan skólanna sem úti í atvinnulífinu. Ég tel rétt að byrjað verði á að gera tilraunir með virka þátttöku atvinnulífsins í iðnnámi og skipulagningu þess í stað þess að kollvarpa núverandi fyrirkomulagi. Með úttekt á því hvernig til hefur tekist getur reynslan af slíkum tilraunum síðan vísað veginn til nýskipunar í starfsmenntun og þess vegna er það sem þetta frv. er flutt. Breytingin felst því að inn í lögin verði bætt einni grein sem heimili tilraunastarf í starfsnámi til tveggja ára í senn. Þessa breytingu þarf að gera svo að mögulegt verði að koma á breyttu formi í námi í prentiðnum frá og með næsta hausti. Að mínu mati er þessi heimild fyrsta skrefið í átt til lausnar á þeim vanda sem starsmenntakerfi framhaldsskólans á við að etja. Ég mun þó leggja á það áherslu að ráðuneytið hafi með höndum eftrlit með náminu til að tryggt sé að í allri framhaldsmenntun á vegum ríkisins séu grundvallarsjónarmið opinbera menntakerfisins í heiðri höfð.
    Með þessum orðum mínum hef ég fært fram aukin rök fyrir nauðsyn þeirrar breytingar sem ég legg til að gerð verði á framhaldsskólalögunum og það má kannski segja að þar með hafi ég í raun svarað ýmsum þeim athugasemdum sem komu fram í ræðum hv. þm. Svavars Gestssonar og Kristínar Ástgeirsdóttur fyrir réttri viku, en það eru þó nokkur atriði sem ég þarf að koma að og komu fram í ræðum hv. þm.
    Hv. þm. Svavar Gestsson rakti í sinni ræðu samsetningu iðnfræðsluráðs og að þar eigi fulltrúar atvinnulífsins sæti. Það er rétt út af fyrir sig en iðnfræðsluráð hefur varla forsendur til að hafa þekkingu á sértækum vanda einstakra iðngreina þar sem í því eiga eingöngu sæti fulltrúar heildarsamtaka. Auk þess hefur iðnfræðsluráð eingöngu ráðgefandi hlutverk og ráðuneytinu er í sjálfsvald sett hvort það tekur samþykkt iðnfræðsluráðs til greina eða ekki. Og þannig eru, held ég því miður að verði að segja, áhrif atvinnulífsins í gegnum iðnfræðsluráð hverfandi. Þess vegna fellst ég ekki á þá skoðun hv. þm. Svavars Gestssonar að samsetning og hlutverk iðnfræðsluráðs sé þannig að þessi lagasetning sé þess vegna óþörf.
    Þá ræddi hv. þm. um atvinnulífsbrautir og talaði um að á Suðurnesjum sé myndarleg starfsemi í gangi, eins og hv. þm. orðaði það, atvinnulífsbrautir sem þar séu reknar undir forustu Hjálmars Árnasonar skólameistara. Það er í fullum gangi, eins og hv. þm. sagði. Reyndar sagði hv. þm. líka að sama mætti segja um Fjölbrautaskóla Suðurlands og fleiri skóla. Þingmaðurinn lýsti þessu námi og talaði um að rekstur þessara námsbrauta gengi mjög vel. Um þetta þarf ég að fara nokkrum orðum.
    Í fjölbrautaskólunum á Suðurnesjum og á Selfossi var farið af stað með svokallaðar atvinnulífsbrautir veturinn 1989--1990 í ráðherratíð hv. þm. Svavars Gestssonar og reyndar hefur verið skrifuð heil skýrsla um þessa tilraun sem þar var gerð og kom hún út í ágúst 1990. Þarna var einmitt um samninga við fyrirtæki á svæðinu að ræða. Vandinn var hins vegar sá að það reyndist erfitt að vekja áhuga nemenda á þessum möguleikum. Þegar námið var kynnt á Suðurnesjum vorið 1989, þá lýstu 8 nemendur yfir áhuga. Um sumarið var búið að undirbúa jarðveginn í ýmsum fyrirtækjum. Það voru bifreiðaverkstæði, dagheimili, Flugleiðir hf., Íslenskir aðalverktakar á lager og trésmíðaverkstæði og sjálfsagt fleira. Þegar skóli hófst um haustið kom í ljós að einungis tveir nemendur höfðu enn áhuga á þessu námsframboði og annar þeirra hvarf frá náminu án þess að hafa lokið tilskildum áföngum. Í skýrslu um þessa tilraun stendur orðrétt:
    ,,Einungis annar nemandinn útskrifaðist í desember 1989.`` Og nokkru neðar í sama texta segir: ,,Enginn nemandi var í vinnustaðanámi á vorönn.``
    Í Fjölbrautaskóla Suðurlands gekk tilraunin nokkuð skár þennan vetur. Á haustönn hófu fjórir nemendur nám, en einn lauk því og á vorönn luku þrír nemendur þessu námi. Það er þess vegna ekki hægt að segja að árangur þessarar tilraunastarfsemi gefi tilefni til að ætla að þessar hugmyndir séu lausnarorð framhaldsskóla í vanda en það gátu menn auðvitað ekki vitað fyrir fram. Tilraunina þurfti að gera og það ber að þakka áhuga þeirra skólameistara sem að þessu stóðu að gera þessa tilraun.
    Ég get svo bætt því við í þessu samhengi að aðilar úr atvinnulífi og Fjölbrautaskóla á Suðurnesjum hafa í vetur verið að móta hugmyndir eða hugmynd sem byggist á svipuðum grunni og atvinnulífsnámið en sú hugmynd er ekki komin til framkvmda. Í þeirri hugmynd er margt mjög gott og sjálfsagt að

útfæra það nánar. Hins vegar hafa komið í ljós ákveðnir vankantar á ýmsum þáttum og m.a. hafa aðilar úr samtökum atvinnulífsins, jafnt atvinnurekenda sem launþega, komið með ýmsar athugasemdir við hugmyndina. Það er ekki ástæða til að rekja þetta mál hér frekar en ég læt nægja að benda á að enn er ekki fundin nein endanleg lausn á vanda þeim sem við stöndum frammi fyrir í eflingu starfsmenntunar í framhaldsskólum. En við þurfum að prófa okkur áfram og hefja markvissar og vel skipulagðar tilraunir áður en ásættanlegt mynstur starfsmenntunar fyrir framhaldsskóla hefur verið þróað.
    Þá skýrði hv. þm. Svavar Gestsson frá því að hann hefði verið á ágætri ráðstefnu sem haldin var nokkru áður, laugardaginn áður um starfsmenntun. Þetta var að vísu málþing um iðnmenntun á vegum iðnfræðsluráðs og þetta málþing var mjög vel sótt. Þar voru á bilinu 120--140 þátttakendur og ég held að þetta málþing hafi verið sögulegt að því leyti að þarna tókst það sem ekki hefur verið algengt áður og það var að fulltrúar allra þessara hagsmunaaðila settust saman og störfuðu af miklum krafti í vinnuhópum allan laugardagseftirmiðdaginn eftir að hafa kynnt hver öðrum viðhorf sín í stuttum erindum um morguninn. Og það má segja að það sem standi upp úr eftir þetta vel heppnaða málþing sé einmitt eindreginn vilji allra þeirra aðila sem að iðnfræðslunni standa að finna sameiginlegar leiðir út úr ýmsum vanda sem iðnmenntakerfið á við að etja. En túlkun hv. þm. á niðurstöðu málþingsins koma mér hins vegar dálítið á óvart. Hann segir að menn viti hvernig leysa eigi starfsmenntamál þjóðarinnar og það sé með því að innleiða stuttar eins til tveggja ára atvinnulífsbrautir með samstarfssamningum fyrir hvern og einn nemanda svipað því sem reynt var á Suðurnesjum og Selfossi um árið eins og ég rakti hér áðan og kom svo reyndar með tillögu sem mér finnst nú ekki mjög ábyrg gagnvart iðnaðarmönnum og því kerfi iðnmenntunar sem er hornsteinninn í núverandi starfsmenntakerfi landsmanna. Hann segir lausnina vera að sveinsprófa- og meistaraprófa- og meistarakerfið sé í raun og veru afnumið eins og það er nú þó að það náist um þetta samkomulag við aðila vinnumarkaðarins þannig að niðurstöður þessa náms, þ.e. stuttu brautanna, séu einhvers metnar í kjarasamningum á hverjum tíma. Ég held að þetta sé ekki niðurstaða málþingsins. Ég var að vísu ekki á þessu þingi til loka en eftir því sem ég hef af því fregnir, þá hafa þetta varla verið niðurstöður þessa hóps. ( SvG: Þetta stendur nú ekki í ræðu minni.) Nei, kannski ekki. Kannski þetta hafi eingöngu verið tillaga frá hv. þm.
    Þá nokkur orð um valdsboðskeiminn sem þykir vera af þessu frv. mínu. Þingmaðurinn talaði um að það væri valdboðskeimur af tillögunni og vildi bæta við frv. að skólameistari og skólamenn ráði því hvar þessi tilraun fer inn í viðkomandi skóla. Ég á bágt með að ímynda mér að það sé hægt að koma upp breyttri skipan náms og kennslu án samþykkis þeirra skólamanna sem að viðkomandi skólastofnun standa og ekki ætla ég mér þá dul að hafa bein afskipti af kennsluháttum. Hins vegar vil ég gjarnan að tengsl atvinnulífs og skóla verði aukin og atvinnulífið fái að koma óskum sínum um námsmarkmið, tækjabúnað og kennslutilhögun á framfæri við skólamenn á beinni og milliliðalausari hátt en hingað til hefur tíðkast. Ég á satt að segja afar erfitt með að sjá í þessum vilja mínum einhverjar tilhneigingar til valdboðs. Þvert á móti er ég að leggja til að boðleiðir verði styttar og bein afskipti ráðuneytis af tilhögun iðnmenntunar minnki. Þannig er sú fullyrðing að með frv. sé verið að gera ráð fyrir íhlutunarrétti ráðherra í innra starf skólans bein rangfærsla eða a.m.k. get ég ekki fundið henni neinn stað í frv.
    Ég er ekki á höttunum eftir miðstýringarkerfi eins og mér var borið á brýn í umræðunum um daginn. Það stendur að baki frv. hugmynd um valddreifingu, að framkvæmd og ábyrgð starfsmenntunar verði á höndum skóla og atvinnulífs sem sinnir þessum málum í sameiningu.
    Hv. þm. Svavar Gestsson sagði að skólinn ætti að vera samstarfsverkefni atvinnulífsins og skóla. Ég fæ ekki betur séð en þarna séum við alveg sammála, hjartanlega sammála. En í dag er fjarri því að svo sé því atvinnulífið hefur ekki möguleika eins og ég hef hér rakið að koma óskum sínum á framfæri beint við skólana eða hafa einhver áhrif á námsframboð skólanna, ekki einu sinni í starfsmenntun. Það er einmitt þetta misræmi sem ætlunin er að leiðrétta. Ég vona að við séum sammála um þetta mikilvæga atriði.
    Þá aðeins nokkur orð vegna orða hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Þingkonan spurði hvaða þörf sé á því að taka út eitt atriði í skólamálum og af hverju ekki megi bíða eftir heildarstefnumótun um verkmenntun. Því er til að svara að lausnir á vanda framhaldsskólans í starfsmenntamálum liggja ekki á borðinu. Við þurfum að gera tilraunir og prófa okkur áfram áður en við höfum leyst þann stóra vanda sem við stöndum frammi fyrir í starfsmenntunarmálum á framhaldsskólastigi. Gagnrýni nokkurra iðngreina eins og prentiðnaðar, málmiðnaðar og rafiðna á núverandi fyrirkomulag iðnmenntunar hefur verið mjög ákveðin og þessar iðngreinar knýja á um úrbætur. Til að flýta fyrir slíkum úrbótum hef ég flutt þetta frv. þannig að tilraunir megi gera strax næsta haust með breytt fyrirkomulag í prentiðn fyrst og fremst. Þá hef ég jafnframt svarað annarri spurningu hv. þm.
    Reynslan af þessu fyrirkomulagi gæti nýst til frekari stefnumótunar um tilhögun iðn- og starfsnáms.
    Hv. þingkona Kristín Ástgeirsdóttir heldur því fram að frv. mínu sé ætlað á einhvern hátt að binda hendur skólanna og hefta sjálfstæði þeirra með íhlutun af hálfu ráðherra og telur þess vegna að í frv. felist þversögn við tillögur frá nefnd um mótun menntastefnu þar sem megináhersla er lögð á sjálfstæði skóla og valddreifingu. Ég tel þvert á móti að þetta frv. sé einmitt í anda tillagna nefndarinnar og tel mig hafa fært fram rök fyrir þeirri skoðun minni. Valddreifing þýðir líka að aukin völd færast yfir til atvinnulífsins og það er einmitt ætlunin með þessu frv. með því að veita atvinnulífinu hlutdeild í starfsmenntun með því m.a.

að aðilar atvinnulífsins fái setu í stjórn skólanna eða deilda innan þeirra í tilraunaskyni, að vægi atvinnulífsins í fræðslunefndum verði aukið og þá á kostnað ráðuneytis. Það er einmitt verið með þessu að færa völd frá ráðuneyti til þeirra sem að menntuninni standa, skóla og atvinnulífs.
    Svo var það spurningin hvort ég hefði í huga einhver ákveðin verkefni sem væru svo brýn að nauðsyn bæri til að taka þetta atriði út úr endurskoðun skólamálanna, hvort það séu einhver ákveðin verkefni í verknámi sem ég vilji endilega koma á laggirnar. Ég held ég hafi þegar svarað því. Það er fyrst og fremst prentiðnaðurinn sem hefur sótt á um þetta en það má segja að það sama gildi um bílgreinarnar.
    Ég vona að ég hafi með þessum orðum skýrt það nokkuð frekar hvað hér liggur að baki. Ég vonast eindregið eftir því að þetta frv. fái afgreiðslu í hv. menntmn. það fljótt að það geti komið til afgreiðslu á þessu þingi. Mér finnst hins vegar sjálfsagt mál að nefndin kanni þetta vel og vandlega eins og hv. þm. óskuðu eftir þegar málið var til umræðu fyrir viku.