Framhaldsskólar

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 14:37:43 (6533)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér fannst þessi athugasemd hv. þm. ekki sæma honum, að gefa þessu frv. heitið Frumvarp til laga um Ingvar Ásmundsson. Mér finnst það ekki sæma fyrrv. menntmrh. að tala svona. En í ræðu sinni um daginn, ég kom ekkert sérstaklega inn á það, talaði hv. þm. nokkuð um samskiptaörðugleika. Það orð kom víst fyrir í ræðu minni um daginn. Ég vil af því tilefni taka fram að það hafa ekki verið neinir samskiptaörðugleikar milli ráðuneytisins og fulltrúa þessara iðngreina sem hafa gagnrýnt fyrirkomulag þessara mála en mér er hins vegar kunnugt um að það hafa verið samskiptaörðugleikar milli fulltrúa þessara iðngreina og einstakra skóla. Það er meðfram og fyrst og fremst það sem við viljum bæta úr.