Framhaldsskólar

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 15:04:20 (6538)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. viðurkenndi að iðnfræðsluráð og fræðslunefndirnar væru nokkuð þung í vöfum og spurði jafnframt hvort ekki mætti leysa þetta mál með samkomulagi við iðnfræðsluráð um breytta skipan fræðslunefnda iðnaðarins. Ég held að það dugi ekki. Frv. er flutt til að færi gefist á nánari samvinnu skóla og atvinnulífs í verknáminu en hingað til hefur verið mögulegt og til að fá bein áhrif atvinnulífs á innihald og framkvæmd iðnmenntunar.
    Til að fyrirbyggja allan misskilning á orðum mínum áðan þar sem ég taldi upp nokkur atriði þegar ég var að skilgreina vandann, þá sagði ég að gagnrýnendur teldu að of mikið vægi væri á almennum bóklegum námsgreinum í iðnnáminu vel að merkja. Það sem þeir eiga við er að þeir óska eftir því að almennu námi t.d. í íslensku, ensku, dönsku, stærðfræði o.fl., yrði að mestu lokið áður en sjálft iðnnámið

hefst, það er gagnrýnisatriðið hjá þessum aðilum. Þetta vildi ég að kæmi mjög skýrt fram til að fyrirbyggja allan misskilning.
    Ég þakka svo fyrir velvilja stjórnarandstöðunnar sem hv. þm. undirstrikaði að væri fyrir hendi. Ég ítreka enn að mér finnst sjálfsagt að nefndin kanni þetta mál ofan í kjölinn og eytt verði öllum misskilningi um að í þessu frv. felist einhver sérstakur valdboðskeimur af minni hálfu. Það er misskilningur.