Sjávarútvegsskóli

146. fundur
Mánudaginn 29. mars 1993, kl. 15:43:49 (6549)


     Árni Johnsen (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé alrangt hjá hv. síðasta ræðumanni að ungt fólk sæki ekki þessa þrjá skóla vegna þess hvenig að þeim er búið. Ástæðan fyrir því að þessir skólar eru ekki fjölsetnari en raun ber vitni er fyrst og fremst sú að þeir njóta ekki þeirrar virðingar í menntakerfi landsins og umfjöllun um það sem þeir ættu að búa við. Það er mergurinn málsins. Og tilhneigingin hefur verið sú að gera ungu fólki erfiðara fyrir að ganga í þessa skóla. Það hefur t.d. verið tilhneiging um nokkurt árabil að lengja

nám í Stýrimannaskóla Íslands og stemma stigu við því að þeir sem hafa lokið grunnskóla en síðan farið á báta og gerst sjómenn geti á ákveðnu stigi farið í skipstjórnarskóla og náð sér í réttindi út á þá reynslu sem þeir hafa aflað sér og út frá því sjónarmiði að þeir vilji halda áfram að vera sjómenn og taka að sér meiri ábyrgðarhlutverk en þeir hafa gert hingað til á sjónum. Það hefur verið tilhneigingin til að stöðva þessa þróun og það er ekki af hinu góða. Okkur vantar ekki meira rennsli inn í Háskóla íslands, hvorki í skipstjórnarfræðum, fóstrumenntun eða öðru. Okkur vantar almenn grunnatriði sem gefa venjulegu fólki færi á því að ganga í þessi störf því það er fullfært um að sinna þeim án þess að fara í langt háskólanám.