Hjúskaparlög

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 13:41:08 (6552)

     Frsm. minni hluta allshn. (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð við 3. umr. þessa máls en tel að ég hafi komið sjónarmiðum mínum á framfæri við 2. umr. Ég vil þó enn ítreka að mér þykir það mjög miður að ekki skuli hafa orðið sátt um að hnika til örlítið við 2. umr. hjúskaparlaga og samþykkja brtt. okkar í minni hlutanum. Þar var aðeins um tvö efnisatriði að ræða sem okkur þótti ástæða til að taka sérstaklega til. Ég vil geta þess sérstaklega varðandi aðra brtt. að það er tekið undir það í athugasemdum við hjúskaparlögin að það þurfi að taka á því máli hvernig samráði hjóna er háttað ef annað hjóna ákveður að ganga í fjárhagslegar skuldbindingar. Það er ákveðið misræmi þar á ferð þar sem ætlast er til að fólk hafi samráð ef það

veðsetur húseignir sem fjölskyldan býr í eða notar undir atvinnustarfsemi en hins vegar er ekki gert ráð fyrir að sama eign sé með öðrum hætti sett í voða t.d. með því að gangast í fjárhagslega ábyrgðir fyrir aðra.
    Athygli mín var vakin á því milli umræðna að það voru vangaveltur innan sifjalaganefndar um það hvort taka þyrfti á þessu máli en það þótti einfaldlega ekki hægt að svo stöddu. Það hefði vissulega verið mikil bót að því ef brtt. okkar í minni hluta hefði verið samþykkt. Ég ætla fyrst og fremst við 3. umr. að láta það koma fram að ég tel að enn þurfi að vinna að þessu máli. Það þurfi að hyggja nánar að því. Ég tel raunar að það sé vaxandi skilningur á því og vil beina því til vinsamlegrar athugunar, bæði til samnefndarfólks míns og til þeirra sem hafa nánast samstarf við sifjalaganefnd, sem er hæstv. dómsmrh. og formaður allshn., að áfram verði reynt að ganga úr skugga um að ekki sé hægt með neinum hætti að leggja íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði fjölskyldna í hættu með gáleysislegum fjárfestingum eða fjárhagsábyrgðum án samráðs, en aftur á móti í öðrum greinum, og þá sérstaklega við 60. og 61. gr., er gert ráð fyrir að það sé a.m.k. haft samráð milli hjóna ef veðsetja á íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði fjölskyldunnar.
    Þetta er það eina sem ég tel ástæðu til að taka fram við 3. umr. Mér finnst þetta mjög mikilvægt mál og ég veit að mjög margir eru mér sammála. Ég veit að á vegum kvennaráðgjafarinnar t.d. hefur það þráfaldlega komið í ljós að það er mjög alvarlega pottur brotinn í þessum efnum. Fyrst löggjafinn hefur ákveðið að ástæða sé til að hjón hafi með sér samráð um fjárhagsskuldbindingar, þá finnst mér að það eigi að stíga það skref lengra og hafa ákveðið samræmi í því.
    Um þetta mál ræddi ég það ítarlega við 2. umr. að sé ekki ástæðu til að gera frekar hér. Það kom til greina að flytja einnig brtt. við 3. umr. og finna aðra leið að sama marki en að svo stöddu tel ég jafnvel æskilegra að vísa þessari umræðu til þeirra sem sí og æ eru að huga að þessum málum, þ.e. þeirra sem hafa starfað með sifjalaganefnd og í sifjalaganefnd. Ég vonast til að það sé vilji fyrir því að líta ekki fram hjá þessu þó það séu skiptar skoðanir um hvernig þessum málum sé best fyrir komið.