Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 15:30:44 (6562)

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson er fullur grunsemdar og sér púka í hverju horni. Hann vill tengja þá staðreynd að þessi tvö frv. sem hann gat um, annars vegar um Sementsverksmiðjuna og hins vegar um Síldarverksmiðjur ríkisins, voru tekin út úr nefnd sem báðar lutu þá minni forustu, tengdist með einhverjum hætti því að einhverjir menn, sem hann tilgreindi ekki, hefðu hætt við að leggja fram hér frv. um að gera banka að hlutafélögum og einkavæða þá. Hv. þm. er fullkunnugt um mín viðhorf til þeirra frv.

og þau tengjast með engu móti viðhorfum mínum til þess að gera Síldarverksmiðjur ríkisins að hlutafélagi.
    Það var athyglisvert, virðulegi forseti, að hv. þm. byrjaði ræðu sína á því að lýsa því yfir að hann væri hlynntur því að fyrirtækinu væri breytt í hlutafélag. Síðan fór hann að tala um alls kyns óskir um sérstakar kvaðir sem hann vildi að yrðu lagðar á þetta hlutafélag. En það liggur í eðli málsins að ef fyrirtæki er breytt í hlutafélag sem á að standa jafnfætis öðrum fyrirtækjum í svipuðum rekstri, þá er ekki hægt að leggja neinar sérstakar kvaðir á það.
    Ég vil líka leiðrétta það að ef það er skilningur hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að mér sé eitthvert sérstakt kappsmál að hluta í sundur fyrirtækið þá er það rangt. Ég er þvert á móti þeirrar skoðunar að það sé miklu meiri arðsvon í fyrirtækinu með því að halda verksmiðjunum undir einum og sama hatti. Hann rakti sjálfur góða röksemd fyrir því, sem sé þá að á Seyðisfirði er verksmiðja sem framleiðir mjög gott gæðamjöl. Hún þarf gott hráefni og hún getur þess vegna stýrt öðru lakara hráefni til annarra verksmiðja. Það eitt út af fyrir sig mun knýja þá sem einhvern tíma eignast þetta hlutafélag til þess að halda verksmiðjunum saman.
    Mér vitanlega hefur enginn í fullri alvöru talað um það að hluta fyrirtækið sundur nema bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna á Siglufirði, Valbjörn Steingrímsson, auk þess sem hreppsnefnd Raufarhafnarhrepps gat þess í umsögn sinni til nefndarinnar að hún væri þeirrar skoðunar að rétt væri að íhuga þann möguleika m.a. til þess að hreppurinn gæti keypt verksmiðjuna sem þar er.
    Ég vil líka bæta því við, virðulegi forseti, að lánardrottnar fyrirtækisins hafa allsherjarveð í öllu fyrirtækinu. Ég held því að það yrði tæknilega mjög erfitt að hluta fyrirtækið í sundur og ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að gera það. En ég held heldur ekki að jafnvel þó farið yrði að ráðum hv. þm. og ríkið ætti meiri hluta í hlutafélaginu um einhvern tiltekinn árafjölda, eins og kom fram hjá honum, þá skýtur það ekki loku fyrir það að fyrr eða síðar kemur að því að hlutafélagið starfi eins og önnur hlutafélög og þá getur hvorki hann, ég né hv. Alþingi komið í veg fyrir að það gerðist ef hlutafélaginu þætti það réttast.