Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 15:50:07 (6567)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem komið hefur fram í þessari umræðu hjá hv. frsm. meiri hluta sjútvn. að minni hlutinn gat fallist á það að breyta Síldarverksmiðjum ríkisins í hlutafélag að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þetta mál var mikið rætt á síðasta þingi og þá varð ágreiningur og hann er enn um grundvallaratriði í þessu máli milli meiri hluta og minni hluta sjútvn. og ég harma það, eins og hefur komið fram hjá öðrum þeim er skipa minni hluta sjútvn., að við skyldum ekki geta náð saman í þessu máli. Ég sé ekki að það sé svo áliðið í þessu máli að við hefðum ekki getað tekið okkur betri tíma til þess að vinna að því og reyna til þrautar hvort ekki væri möguleiki að við gætum náð sameiginlega til lands í málinu.
    Nefndarálitin sem liggja nú fyrir eru nánast óbreytt frá því sem var fyrir ári síðan og þess vegna getum við sparað okkur miklar umræður um málið nú og þeir sem vilja kynna sér afstöðu okkar, hinna ýmsu nefndarmanna, gætu þess vegna gluggað í þingtíðindi frá þeim tíma. En ég vil taka af allan vafa um að minni hlutinn var á því að veita heimild til þess að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Við töldum líka eðlilegt að gefa heimild til að selja allt 40% af hlutafélaginu, þó ekki fyrstu þrjú árin. Minni hlutinn telur eðlilegt að áður en ákvarðanir eru teknar um að selja meiri hluta félagsins eða einstakar verksmiðjur sé skylt að leita samþykkis Alþingis. Ég er í sjálfu sér mjög hissa á því að meiri hluti nefndarinnar skyldi ekki geta fallist á þetta mál eftir að hafa hlustað á frsm. meiri hlutans tala hér áðan.
    Hv. frsm. meiri hlutans, Össur Skarphéðinsson, sagði áðan að hann væri á því að það ætti ekki að hluta verksmiðjurnar sundur ef ég skildi hann rétt. En hver er trygging hv. þm. og annarra sem hugsa eins í þessu máli eftir að við erum búnir að breyta þessu fyrirtæki? Hvernig ætlar hv. þm. að hafa stjórn á því? Það væri fróðlegt að hann segði okkur aðeins frá því hvernig hann hugsar sér að koma þar við þeim vörnum sem hann var hér að kynna.
    Það hefur komið rækilega fram, t.d. í umsögn frá stjórn Síldarverksmiðja ríkisins þar sem segir: ,,Það er álit stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins að ekki eigi að hluta fyrirtækið sundur því að styrkur þess hefur byggst á stærðinni og staðsetningu hinna ýmsu verksmiðja.`` Þessu heyrðist mér frsm. meiri hlutans vera sammála hér áðan. Það er mín bjargföst skoðun að við séum að stíga mikið ógæfuspor með því að hluta þessar verksmiðjur í sundur. Styrkur Síldarverksmiðja ríkisins byggist ekki síst á því að þetta er stórt og öflugt fyrirtæki sem getur með því að einn og sami aðili er eigandi að svo mörgum verksmiðjum haft veruleg áhrif á það hvernig löndun er stjórnað hverju sinni. Ég held að ég fullyrði ekki of mikið þó að ég segi það, ég trúi því a.m.k. að með því hafi menn oftsinnis náð hærra verði afurðanna en annars hefði orðið vegna þeirrar hagkvæmni sem með þessu formi er fengin.
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um tap þessa fyrirtækis og nefndi ýmsar tölur. Það er rétt. Því miður hefur þetta fyrirtæki verið rekið með tapi. Ég er ekki viss um að það sé sanngjarnt hjá okkur að ætla að hengja stjórn Síldarverksmiðja ríkisins alfarið í þeim efnum. Ég hugsa að þeir sem hafa setið á þingi eigi líka ábyrgð á því hver starfsskilyrði þessarar atvinnugreinar hafa verið, þeir beri þar líka ábyrgð. En þeir geta ekki svarað fyrir sig hér sem í stjórn þessa fyrirtækis hafa verið. Jú, rétt er það. Einn á sæti á Alþingi, Jóhann Ársælsson. En ég vildi spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Hann veit örugglega um það að Síldarverksmiðjur ríkisins hafa staðið í mjög miklum framkvæmdum sem hafa gefið góða raun um framtíðarþróun þessarar greinar. En af því að ræðumaðurinn minntist á skuldir verksmiðjunnar, þá máttu þeir sem hlustuðu á ræðumanninn skilja það svo að ríkið ætti auðvitað að borga brúsann. Hvað hefur ríkissjóður borgað mikið af tapi Síldarverksmiðja ríkisins? Er það ekki rétt munað hjá mér, ágæti þingmaður, að ekkert hafi lent á ríkissjóði? Það hafa engin töp á Síldarverksmiðjum ríkisins lent á ríkissjóði. Það er ekki þess vegna sem það þarf að selja þetta fyrirtæki. Það væri fróðlegt að fá hv. þm. til þess að endurtaka það hér.
    Minni hluti nefndarinnar taldi einnig eðlilegt að áður en frv. yrði afgreitt væri upphafsreikningur hins nýja fyrirtækis kynntur. Jafnframt væri eðlilegt að félagið yfirtæki rekstrartap Síldarverksmiðja ríkisins frá fyrra ári. Okkur þótti líka eðlilegt að félagið tæki við eftirstöðvum rekstrartaps Síldarverksmiðja ríkisins eins og það verður í lok síðasta rekstrarárs þeirra. Þótt heimild sé vissulega veitt fyrir fjmrh. að yfirtaka hluta af skuldum SR liggur ekkert fyrir um það hvort hæstv. fjmrh. muni nokkurn tíma nýta sér slíka heimild. Það liggur akkúrat ekkert á borðinu um það.
    Við fórum ítarlega yfir það í nefndinni og í fyrra einnig og minni hlutinn lagði áherslu á að komið yrði upp sérstökum samstarfsnefndum í verksmiðjunum vegna þess hversu mikilvægar þær eru hinum ýmsu byggðarlög þar sem þær eru starfræktar. Ég fullyrði að með slíkum samstarfsnefndum væri hægt að koma í veg fyrir margvíslegan misskilning og óþarfa tortryggni sem annars mundi rísa. En auðvitað var ekki hlustað á þetta fremur en annað og ekki einu sinni af Alþfl.
    Hér var vikið að réttindum starfsmanna. Það er enginn vafi að í umfjöllun um þetta frv. hefur komið upp verulegur ágreiningur um það atriði. M.a. af þeirri ástæðu var óskað eftir sérstakri umsögn um hvort frv., ef að lögum yrði, raskaði áunnum réttindum félagsmanna sem nú starfa hjá Síldarverksmiðjum ríkisins. Það er engin spurning að sú umsögn gaf vissulega tilefni til mikilla efasemda og frekari skoðunar á þessum réttindum starfsmannanna. Hér er vægast sagt glannalega haldið á málum, hv. þm., vegna þess að ég veit það að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur gefið sér tíma til þess að lesa þá umsögn sem Gestur Jónsson gaf í þessu máli. Það er gáleysislega vaðið hér fram og því átel ég það enn og aftur að menn skulu ekki í jafnveigamiklum málum og hér er um fjallað geta gefið sér betri tíma til þess að fjalla um þessi mál en raun ber vitni.
    Meginniðurstaða okkar í minni hlutanum varð sú að við vorum þess meðvitaðir að hugmyndir meiri hlutans mundu ná fram að ganga um að breyta þessu fyrirtæki, bylta því og afhenda það sjálfsagt að mestu kolkrabbanum. Ég reikna með því að það sé meiningin. Við vildum reyna að leggja okkar af mörkum til þess að skaðinn yrði sem minnstur og ég harma það enn og aftur að ágætir menn í sjútvn. skyldu ekki geta fallist á þau viðhorf okkar. Ég er sannfærður um að með því að fallast á þau hefðum við a.m.k. reynt að byggja þá garða sem hefðu torveldað mönnum að komast yfir.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu. Eins og sjá má í þingsalnum virðist ekki vera sérstakur áhugi þingmanna á þessu máli. En ég harma það enn og aftur að við skyldum ekki geta gefið okkur betri tíma til þess að reyna að ná sáttum í málinu og reyna að koma einhverju meira skikki á þessi mál því að undir niðri hef ég trú á að slíkt hyldýpi sé á milli skoðana manna að við hefðum ekki getað náð að koma meira og betra viti í þessi mál. En það er bara í þessu eins og svo mörgu öðru, því miður, að frjálshyggjan í þessu efni virðist vera svo allsráðandi og heltekur ekki aðeins Sjálfstfl. heldur virðist hún ekki síður vera búin að heltaka Alþfl. Það virðist vera orðið lífsviðhorf þessara flokka að allt þurfi að selja og öllu þurfi að koma yfir til einhverra annarra. Það er ekki mitt viðhorf að það sé endilega sjálfsagt að bylta öllu um. Ég held að oft og tíðum gætum við gert meira gagn með því að breyta og lagfæra fremur en bylta og það á einmitt við í þessu máli, virðulegi forseti.