Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 16:32:23 (6573)

     Guðmundur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú greinilega meiri munur en mér virtist í fyrstu þegar farið er að ræða málið og það kemur kannski ekki mjög á óvart. Mig langar til að nefna hér örfá atriði. Hv. 17. þm. Reykv. segir að það eigi ekki að binda hendur manna, salan eigi að fara fram við bestu aðstæður. Ég er sammála því en þá má eigandinn ekki tala svo einlitt um erfiðleika félagsins. Þingmaðurinn ræddi af sanngirni um þetta mál núna en það hefur farið allt of mikið fyrir þessari tapumræðu og allt of lítið fyrir þeim útskýringum sem þurfa að fylgja til að menn sjái að þetta er ekki dautt fyrirtæki sem er bara að tapa þetta er fyrirtæki sem á framtíðina fyrir sér eins og við þingmaðurinn erum greinilega sammála um. Það getur vel verið að Alþingi eigi ekki að vasast í --- þetta er nú ekta frjálshyggjufrasi að ríkið sé alltaf að vasast í einhverju. Það getur vel verið að það eigi ekki að vasast í að kjósa menn í stjórnir ríkisfyrirtækja heldur eigi aðilar sem hafi þekkingu á málinu að vera í þessum stjórnum. Ég veit ekkert hvað Alþfl. gerir en í mínum flokki er reynt að velja menn sem hafa þekkingu á málinu. Og ég held að það ættu þá bara allir flokkar eða a.m.k. þeir sem ekki gera það ættu að taka það til sín og gera það líka. Það er nefnilega hægt að kjósa almennilegt fólk á Alþingi alveg eins og það er hægt að kjósa almennilegt fólk á þing, þannig að það er ekkert vandamál.
    Það má ekkert binda í lög, það má ekki binda ráðstöfun eigna í lög, það má ekki binda í lög hvort selja megi einstaka hluta verksmiðjanna, það má yfirleitt ekkert binda í lög. Ég vil þá bara spyrja hv. 17. þm. Reykv.: Hvers vegna er þá verið að leggja til að það sé bundið í lögum hvar heimili og varnarþing verksmiðjanna er? Af hverju er ríkið að vasast í því? Það á væntanlega að láta nýja hlutafélagið og þess flinku menn sem sjútvrh. mun skipa í stjórnina, láta þá vasast í því hvar félagið eigi varnarþing og heimili. Það getur varla verið nauðsynlegt að það sé ákveðið á Alþingi þó ég sé hins vegar sammála þessu. Sömuleiðis finnst mér mjög einkennilegt ef Alþingi á að vera að vasast í því með lagasetningu að heimila félaginu að taka þátt í einhverjum samtökum sem tengjast fiskimjöli, þeir geta væntanlega bara ákveðið það sjálfir.