Síldarverksmiðjur ríkisins

147. fundur
Þriðjudaginn 30. mars 1993, kl. 16:34:41 (6574)

     Frsm. meiri hluta sjútvn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef hér fyrr í ræðum mínum einmitt undirstrikað mikilvægi Síldarverksmiðja ríkisins og ég hef mikið undirstrikað að ég tel að þær muni gegna verulega þýðingarmiklu hlutverki í þessari atvinnugrein í framtíðinni. Það er alveg fráleitt af hv. þm. Guðmundi Stefánssyni að ætla mér að ég hafi talað einlitt eða niðrandi um verksmiðjurnar eða stjórn þeirra.
    Varðandi hins vegar þá spurningu sem hann kom með til mín: Hvers vegna ætti Alþingi að vera að ræða það hvar ætti að hafa lögheimili og varnarþing fyrirtækisins, þá verð ég að viðurkenna það hér úr þessum ræðustól að ég er honum nokkuð sammála. Ég held að það sé alveg á mörkunum. Og ég tel að í rauninni hefði hið tilvonandi hlutafélag átt að gera það sjálft. Menn komust að þessari niðurstöðu m.a. vegna ábendinga utanaðkomandi aðila og líka vegna vilja aðila innan meiri hlutans að þetta væri rétt. Ég gerðist aðili að því samkomulagi.